Elín Hrund Guðnadóttir fæddist í Reykjavík 19. mars 1984. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 22. febrúar 2024.

Foreldrar Elínar voru Guðni Birgir Svavarsson (látinn 2015) og Kristín Guðrún Ólafsdóttir. Systkini Elínar eru Svavar Guðni Guðnason (látinn 2014), maki Brynhildur Dögg Guðmundsdóttir og eiga þau þrjú börn. María Björk Guðnadóttir, maki Sigurður Andri Sigvaldason og eiga þau eitt barn.

Eftirlifandi eiginmaður Elínar er Stefán Helgi Einarsson og börn þeirra eru Mikael Máni, Kristian Helgi, Selma Björt og Bjartmar Elí.

Útför Elínar Hrundar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 7. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Enn og aftur er komið að kveðjustund.

Að kveðja barnið sitt eru þung spor, barn er alltaf barn í huga foreldra hversu gamalt sem það er.

Elsku duglega og fallega Elín mín farin og kemur ekki aftur.

Strax sem lítið barn sýndi hún hvað í henni bjó, fyrst af systkinum sínum til að skríða og ganga. Allt fór hún á þrjóskunni og komst þangað sem hún ætlaði sér bæði í leik og starfi. 22 ára var hún orðin tveggja barna móðir og fórst henni móðurhlutverkið vel úr hendi og bera drengirnir hennar Mikael og Kristian þess merki að vel var um þá hugsað. Elín var trygg sínum atvinnurekendum og starfaði svo til á sama stað frá 16 ára aldri. Í ársbyrjun 2011 fékk Elín að vita að hún væri með arfgengan sjúkdóm og var það þungt högg fyrir unga konu sem átti að eiga framtíðina fyrir sér. Í árslok sama ár kemur Stefán inn í líf hennar og með honum Selma og Bjartmar sem voru henni eins og hennar eigin börn. Stefán var kletturinn og ástin í lífi hennar, hann studdi hana á erfiðum stundum og stappaði í hana stálinu til að horfa fram á veginn. 2015 ákvað hún að fara í nám í viðskiptafræði í háskólanum á Akureyri og ekkert var slegið af í fullu námi, fullri vinnu og með stórt heimili. Hún útskrifaðist vorið 2018 og auðvitað með láði. Síðustu árin hafa verið Elínu erfið, þrek og geta fór þverrandi og fyrir dugnaðarfork eins og hana var það mjög erfitt.

Elsku Stefán, takk fyrir ástina og allt sem þú gafst henni. Elsku Mikael, Kristian, Selma og Bjartmar, megi allir góðir vættir vaka yfir ykkur.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,

- hvert andartak er tafðir þú hjá mér

var sólskinsstund og sæludraumur hár,

minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.

Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?

Hve öll sú gleði' er fyrr naut hugur minn,

er orðin hljómlaus utangátta' og tóm

hjá undrinu að heyra þennan róm,

hjá undri því, að líta lítinn fót

í litlum skóm, og vita' að heimsins grjót

svo hart og sárt er honum fjarri enn,

og heimsins ráð sem brugga vondir menn,

já vita eitthvað anda hér á jörð

er ofar standi minni þakkargjörð

í stundareilífð eina sumarnótt.

Ó, alheimsljós, ó, mynd sem hverfur skjótt.

(Halldór K. Laxness)

Elsku Elín, ég er viss um að pabbi þinn, Svavar og allir hinir hafa tekið á móti þér og hugga þig og umfaðma.

Far þú í friði, elsku dóttlan mín.

mamma.

Elsku hjartans systir mín og hetja er fallinn frá.

Stórt skarð hefur myndast í litlu fjölskylduna okkar enn á ný. Elín systir mín var ekki bara gullfalleg heldur var hún einstaklega hjartahlý, skemmtileg og frábær. Elín mín var dugnaðarforkur og uppskar margt á sinni stuttu ævi. Líf Elínar breyttist til hins betra þegar hún eignaðist syni sína, Mikael Mána og Kristian Helga. Þeir eru augasteinarnir hennar og ljósið í myrkrinu. Elín lagði mikla áherslu á að ala drengina sína vel upp og tókst henni einstaklega vel til. Lífið var ekki alltaf sanngjarnt gagnvart Elínu minni en hún stóð alltaf upp aftur og lét það ekki stoppa sig við að elta drauma sína.

Elín mín kynntist stóru ástinni sinni honum Stefáni í lok árs 2011 og eftir það varð allt svo bjart hjá elsku bestu systur minni. Elín og Stefán áttu svo fallegt líf saman ásamt börnunum sínum fjórum. Þau lögðu mikið upp úr því að eyða frítíma sínum alltaf saman og búa til fallegar minningar. Elín mín upplifði skilyrðislausa ást og umhyggju eftir að hún kynntist Stefáni sínum, ást sem hún átti alltaf skilið. Stefán hefur frá fyrsta degi hugsað einstaklega vel um Elínu sína og tók drengjunum hennar sem sínum eigin. Samband þeirra var svo fallegt og einlægt. Eftir sitja margar góðar minningar um einstaka systur og bestu vinkonu. Við systur höfum ávallt verið nánar og tókum þátt í gleði og sorgum hvor annarrar. Elín mín var svo hamingjusöm fyrir mína hönd þegar að ég kynntist Andra mínum og svo kom sólargeislinn í líf okkar allra fyrir rúmlega ári, Erika Mjöll. Elín og Erika voru bestustu vinkonurnar og frænkurnar. Elín mín geislaði af gleði þegar hún hitti litla gullið sitt. Elín var dugleg að heimsækja okkur fjölskylduna og eyddi tímanum að leika við litlu dísina sína. Sorgin og söknuðurinn er mikill, sérstaklega þegar ég hugsa til þess sem aldrei verður. Við vorum þrjú systkinin en eftir stend ég ein. Ég er þakklát fyrir þau 36 ár sem ég fékk að eiga með systur minni en þau hefðu mátt verða miklu fleiri.

Í dag kveð ég með miklum trega Elínu Hrund, hetjuna mína, systur og bestu vinkonu. Takk fyrir allt og allt elsku hjartað mitt, ég elska þig til tunglsins og alltaf aftur tilbaka.

Þín litla systir

María Björk.

Elsku vinkona, það er skrítið og sárt að skrifa þessi minningarorð til þín.

Man svo vel eftir þér á minni fyrstu vakt í símaverinu á Dominos. Fallega ljóshærða stelpan sem sat við gluggann, aðeins feimin en svo geislandi. Hversu heppin var ég að þarna byrjaði okkar yndislega vinátta.

Ófá kvöld borðuðum við saman pizzu og horfðum á myndir í Ljósavík.

Þú eignaðist strákana þína með árs millibili, ekkert smá dugleg enda dugnaðarforkur. Ung og yndisleg mamma sem gerði allt svo vel. Alltaf dugleg að vinna og hugsaðir svo vel um allt og alla.

Stefán þinn kom svo á réttum tíma inn í líf þitt, og þið einstaklega góð saman. Fallega heimilið ykkar, með strákunum þínum og börnum hans.

Lífið getur verið svo ósanngjarnt, elsku Elín mín, en ég er svo þakklát og heppin að hafa fengið að vera vinkona þín og við að fá að fylgjast að frá 17 og 18 ára aldri.

Elsku Stefán, Mikael Máni, Kristian Helgi, Selma, Bjartmar, Krissa mín, María mín, Sigurður og Erika Mjöll, innilega samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Helga Irma.