Þrátt fyrir að samningur um kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga vegna meðferðar við kvíðaröskun og þunglyndi hjá sálfræðingum hafi verið útvíkkaður árið 2022 og fjárveiting til þjónustunnar aukin í 250 milljónir króna hefur komið í ljós að aðeins 82 milljónir voru nýttar á síðasta ári

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þrátt fyrir að samningur um kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga vegna meðferðar við kvíðaröskun og þunglyndi hjá sálfræðingum hafi verið útvíkkaður árið 2022 og fjárveiting til þjónustunnar aukin í 250 milljónir króna hefur komið í ljós að aðeins 82 milljónir voru nýttar á síðasta ári. Vakin er athygli á þessu í fréttabréfi Sjúkratrygginga. „Þannig standa eftir 168 milljónir sem ætlaðar voru til sálfræðiþjónustu sem ekki voru nýttar.“

Eftir útvíkkun samningsins hefur bæði börnum og fullorðnum með vægt þunglyndi og kvíða staðið til boða að fá niðurgreidda þjónustu hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingi. Fram kemur að í fyrra hafi einstaklingum sem nýttu sér þjónustuna fjölgað en það veki eftirtekt að fjöldi sálfræðinga sem eigi aðild að samningnum hafi nánast staðið í stað.

„Samningurinn sem nú er í gildi, og sálfræðingum býðst að gerast aðilar að, gerir ráð fyrir að þjónustuþegar fái tilvísun frá lækni og bjóðist þá 10 skipti niðurgreidd af Sjúkratryggingum. Sem dæmi má nefna að fyrir 60 mínútna viðtal hjá sálfræðingi við kvíðaröskun eða þunglyndi af einhverjum toga (vægt og meðal) greiða Sjúkratryggingar kr. 19.875,“ segir í fréttinni.

Bent er á að samfélagsleg vakning hafi orðið á síðustu árum um mikilvægi andlegrar heilsu og ákall sé eftir greiðara aðgengi að sálfræðiþjónustu. „Það vekur því spurningar hvers vegna sú niðurgreiðsla sem í boði er nýtist ekki betur. Mögulegt er að starfandi sálfræðingar hafi nóg að gera án kostnaðarþátttöku hins opinbera eða að taxtarnir séu ekki í takt við gjaldskrá þeirra. Þá mætti ímynda sér að almenningur viti ekki nægilega vel af þessum réttindum sínum og sækist því ekki sérstaklega eftir að nýta þau.“

Höf.: Ómar Friðriksson