Tiblisi Frændur Grigols ásamt Guðna Th. Jóhannessyni í kirkjugarðinum í gær. F.v. Nikoloz Ghoghoberidze, Mikheil Matchavariani, Guðni og Kakha Mikhelidze. Voru þeir þakklátir fyrir heiðurinn sem Grigol væri sýndur.
Tiblisi Frændur Grigols ásamt Guðna Th. Jóhannessyni í kirkjugarðinum í gær. F.v. Nikoloz Ghoghoberidze, Mikheil Matchavariani, Guðni og Kakha Mikhelidze. Voru þeir þakklátir fyrir heiðurinn sem Grigol væri sýndur. — Ljósmyndir/Una Sighvatsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Þetta var táknrænn viðburður sem mér þótti afar vænt um að geta komið í kring í þessari heimsókn til Georgíu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið, en hann fór í gærmorgun að leiði Íslandsvinarins Grigols Matchavarianis í kirkjugarði í Tiblisi í Georgíu. Þar er Guðni í opinberri heimsókn, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Þetta var táknrænn viðburður sem mér þótti afar vænt um að geta komið í kring í þessari heimsókn til Georgíu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið, en hann fór í gærmorgun að leiði Íslandsvinarins Grigols Matchavarianis í kirkjugarði í Tiblisi í Georgíu. Þar er Guðni í opinberri heimsókn, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.

„Mér þótti vænt um að geta með þessum hætti heiðrað minningu þessa Íslandsvinar og votta virðingu mína. Grigol var góður drengur,“ segir Guðni, sem lagði blóm að leiði hans og sjávargrjót frá Íslandi, málað íslensku fánalitunum.

Örlagaríkt bréf í Velvakanda

Guðni komst í kynni við Grigol er hann var í námi á Englandi árið 1991. Hitti hann þá hóp nemenda frá Georgíu, og ein stúlka í hópnum sagði frá Grigol heima í Georgíu sem hefði mikinn áhuga á Íslandi og talaði íslensku eftir að hafa lært málið á lestri ýmissa bóka, m.a. fornsagnanna. Bað Guðni stúlkuna fyrir kassettur með íslenskum þjóðlögum heim til Georgíu að færa Grigol.

Seinna barst Guðna þakkarbréf frá Grigol, þar sem m.a. kom fram að hann þráði heitt að komast til Íslands og bað um góð ráð til þess. Benti Guðni honum á að rita bréf til forsætisráðherra, sem þá var Davíð Oddsson, og einnig í Velvakanda í Morgunblaðinu. Grigol fór að þessum ráðum og hafði bréfið vart birst í Morgunblaðinu að Davíð bauð Grigol og Irmu konu hans til Íslands. Komu þau til landsins í desember 1992 og þá fyrst hitti Guðni vin sinn frá Georgíu, en forsætisráðherra bauð til móttöku og kvöldverðar á Hótel Holti af þessu tilefni. Dvöldust Grigol og Irma hér í nokkra mánuði og eignuðust hér fleiri góða vini.

Grigol fórst í bílslysi Georgíu árið 1996 og í kjölfarið fluttist Irma til Íslands, með dóttur þeirra Tamar, og hafa þær búið hér síðan. Nálgast má ítarlegt viðtal við þær mæðgur og nánari frásögn um Grigol í Sunnudagsmogganum 19. mars 2017.

Stór dagur fyrir fjölskylduna

Guðni segist hafa nefnt við Irmu að hann ætlaði að heimsækja leiði Grigols í Georgíuferðinni. „Henni þótti vænt um að minningu hans yrði þessi sómi sýndur,“ segir Guðni, en hann hitti frændur og vini Grigols í kirkjugarðinum í gær. Var þar m.a. haft á orði að ást hans á Íslandi hefði kviknað strax á barnsaldri og aldrei dofnað. Voru þeir mjög þakklátir fyrir heimsókn forseta Íslands, sögðu þetta stóran dag í sögu Matchavariani-fjölskyldunnar.

„Það er í raun magnað að unglingur í fjarlægu landi fyllist þessari ást á bókmenntum og menningu fjarlægrar eyjar, en svona getur veröldin nú verið skrítin og skemmtileg,“ bætir Guðni við.

Aðspurður segir hann sögu Grigols kunna þeim er þekkja til samskipta Íslands og Georgíu, m.a. um þýðingavinnu hans. Guðni átti fund með forseta Georgíu, Salome Zourabichvili, og rakti fyrir henni sögu Grigols í stuttu máli. Fannst henni mikið til koma og sagði söguna gott dæmi um hvernig hægt væri að nýta menninguna til að efla og styrkja tengsl þjóða og ríkja. Slíkum sögum ætti að hampa meira en gert væri.

Sem fyrr segir lagði Guðni íslenskan stein að leiðinu, ásamt blómvendi. „Mér var gefið fallegt íslenskt sjávargrjót, málað í íslensku fánalitunum. Sem ég var að huga að Georgíuferð leiddi ég hugann að því að gaman væri að fara með hluta af Íslandi að leiði hans. Steinninn sómir sér vel þarna, til minningar um þennan góða mann og allan hans atbeina í þágu Íslands og Íslendinga,“ segir Guðni að endingu í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Björn Jóhann Björnsson