Dómsdagur Hljómsveitin Belzebong á Doomcember árið 2021.
Dómsdagur Hljómsveitin Belzebong á Doomcember árið 2021.
Tónlistarhátíðin ReykjaDoom verður haldin á Gauknum 8. og 9. mars. Segir í tilkynningu að ReykjaDoom sé „óhagnaðardrifin bókunarsamtök tileinkuð hljómsveitum sem spili dómsmálm“ sem á ensku nefnist doom metal, sem og öðrum skyldum geirum

Tónlistarhátíðin ReykjaDoom verður haldin á Gauknum 8. og 9. mars. Segir í tilkynningu að ReykjaDoom sé „óhagnaðardrifin bókunarsamtök tileinkuð hljómsveitum sem spili dómsmálm“ sem á ensku nefnist doom metal, sem og öðrum skyldum geirum. „Tónlist sem skapar tómhyggju og er hávær án þess að vera skerandi. Tónlist sem krefst þolinmæði, umhyggju fyrir smáatriðum og tilraunastarfsemi. Textar um eyðileggingu heimsins, sorg, dauða, þunglyndi, þjáningu þar sem söngframkoma getur verið margs konar, allt frá kórsöng yfir í argasta öskur,“ segir þar einnig.

ReykjaDoom er bæði hátíð og bókunarsamtök en hátíðin gekk áður undir nafninu Doomcember og var hún haldin fjórum sinnum á árunum 2018-2022. Um hugmyndina að baki ReykjaDoom segir að hún sé einföld, þ.e. að safna saman aðdáendum dómsmálms í tveggja daga gjörning af heimsendatónlist. Þessa tvo daga komi saman þekktar hljómsveitir úr senunni, gamlar kempur sem hafi ekki spilað lengi jafnt sem nýjar sveitir. Að þessu sinni koma fram dauðarokksdrottningar í hljómsveitinni Kovent, írsku dómsdagsmálmskempurnar Dread Sovereign og einnig Moonstone frá Póllandi. Ellefu íslenskar sveitir koma fram að auki og þeirra á meðal Kælan Mikla, Múr, Volcanova og Morpholith.

Hátíðin fer fram á Gauknum, sem fyrr segir, og er styrkt af Reykjavíkurborg, Smiðjunni brugghúsi, Logoflex og Hljóðfærahúsinu. Miðasala fer fram á vefnum midix.is og er bæði hægt að kaupa miða í forsölu og við innganginn.