Stykkishólmur Fram undan eru miklar framkvæmdir í bænum.
Stykkishólmur Fram undan eru miklar framkvæmdir í bænum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafnar eru framkvæmdir við gatnagerð í Víkurhverfi í Stykkishólmi; syðst og austast í bænum. Gatnagerð skal lokið um miðjan júní. Á dögunum var úthlutað lóðum á svæðinu fyrir sex íbúðir. Til viðbótar stendur til að reisa þrjú tveggja hæða og fjögurra íbúða hús þar sem verða samtals tólf íbúðir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hafnar eru framkvæmdir við gatnagerð í Víkurhverfi í Stykkishólmi; syðst og austast í bænum. Gatnagerð skal lokið um miðjan júní. Á dögunum var úthlutað lóðum á svæðinu fyrir sex íbúðir. Til viðbótar stendur til að reisa þrjú tveggja hæða og fjögurra íbúða hús þar sem verða samtals tólf íbúðir. Samtals er á árinu þannig stefnt að uppbyggingu minnst 18 íbúða í Víkurhverfi, en uppbygging er á nokkrum öðrum stöðum í Stykkishólmi, bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þetta segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, í samtali við Morgunblaðið.

„Sveitarfélagið gerir viljayfirlýsingu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með því inntaki meðal annars að leita leiða til að auka aðgengi að fjölbreyttum húsnæðiskosti á viðráðanlegu verði. Þá erum við að semja við innviðaráðuneytið um aukið framboð íbúðarhúsnæðis fram til ársins 2028. Þar er byggt á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis,“ segir Jakob Björgvin.

Fyrsti áfangi í fjölgun íbúða á grunni samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga er bygging fyrrgreindra fjölbýlishúsa í Víkurhverfi. Uppbygging leiguíbúðanna þar verður af hálfu húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar Brákar íbúðafélags, en starfsemi þessi er án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágu fólki íbúðir í langtímaleigu. Alls stendur 31 sveitarfélag á landsbyggðinni að Brák.

Sveitarfélagið Stykkishólmur sótti, fyrir hönd Brákar, um stofnframlag frá ríkinu til verkefnisins á síðasta ári og fékk grænt ljós. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 550 millj. kr. og fær Brák 150 millj. kr. stofnframlag frá ríkinu til verkefnisins. Framlag Sveitarfélagsins Stykkishólms verða um 65 millj. kr. Að öðru leyti koma til lántökur hjá Brák til byggingar íbúðanna.

Jakob Björgvin bæjarstjóri segir að á síðustu árum hafi verið áherslumál af hálfu meirihluta bæjarstjórnar Stykkishólms að fjölga vel útbúnum íbúðum í langtímaleigu í Stykkishólmi.

„Í eigu sveitarfélagsins er fjölbýlishús að Skúlagötu 9; félagslegt leiguhúsnæði og gerir sveitarfélagið ráð fyrir að bjóða þeim sem þar búa að flytja sig yfir í Víkurhverfið. Þetta er afar mikilvægt mál og stórbætir stöðu þess hóps sem fellur undir verkefnið. Skúlagötublokkin verður þá seld og þannig aukið við framboð á húsnæðismarkaði í sveitarfélaginu. Íbúðarkostum fjölgar,“ segir Jakob.

Í vikunni var hafist handa við uppbyggingu á nýju tveggja hæða parhúsi í gömlum stíl við Aðalgötu í Stykkishólmi. Einnig eru atvinnuhús í byggingu. „Stykkishólmur er ört vaxandi sveitarfélag. Áform eru um margvíslega atvinnuuppbyggingu á svæðinu og því fylgir aukin eftirspurn eftir íbúðum,“ segir Jakob.