Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir
Þannig er menntunarframlag borgarinnar með barni í sjálfstætt starfandi skóla aðeins 75% af því framlagi sem greitt er með barni í borgarreknum skóla.

Hildur Björnsdóttir

Víða um heim starfa skólar á bæði leik- og grunnskólastigi, reknir á sjálfstæðum grunni. Þessir sjálfstæðu skólar eru almennt litrík viðbót við skólaflóru hvers lands. Þeir hafa gjarnan kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir hafa veitt foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.

Ísland er verulegur eftirbátur nágrannaþjóðanna hvað varðar sjálfstæðan rekstur í skólakerfinu. Síðastliðin ár hafa aðeins um 15% leikskólabarna hérlendis sótt sjálfstætt starfandi leikskóla samanborið við 57% leikskólabarna í Noregi. Hérlendis sækja um 2,5% grunnskólabarna nám í sjálfstætt starfandi grunnskólum en til samanburðar er hlutfallið 12% í Danmörku.

Jöfn opinber framlög óháð rekstrarformi

Rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi skóla í Reykjavík er erfitt, enda opinber framlög til skólanna takmörkuð. Þannig er menntunarframlag borgarinnar með barni í sjálfstætt starfandi skóla aðeins 75% af því framlagi sem greitt er með barni í borgarreknum skóla. Þetta verður til þess að sjálfstætt starfandi skólar verða að innheimta skólagjöld.

Í upphafi kjörtímabils lagði Sjálfstæðisflokkur fram tillögu í borgarstjórn um jöfn opinber menntunarframlög með öllum börnum í grunn- og leikskólakerfinu, óháð rekstrarformi þeirra skóla sem börnin sækja. Með breytingunni mætti treysta rekstrargrundvöll sjálfstætt starfandi skóla og draga úr þörf þeirra til að innheimta skólagjöld. Þannig mætti tryggja börnum í Reykjavík jafnari tækifæri, enda yrði efnahagur foreldra ekki ákvarðandi ástæða við skólaval barna.

Eins og með aðrar stefnumarkandi tillögur á þessu kjörtímabili treysti meirihlutinn sér ekki til að afgreiða málið, heldur vísaði því til nánari rýni innan borgarráðs. Frá framlagningu tillögunnar eru nú liðnir 16 mánuðir og málið ekki hlotið frekari framgang.

Mismunum ekki nemendum

Á dögunum kynnti ráðherra háskólamála breytingar á framlögum til sjálfstætt starfandi háskóla, með þeim hætti að jöfn opinber framlög myndu fylgja öllum nemendum í háskólanámi. Sjálfstætt starfandi háskólar gætu þannig þegið 100% framlag frá ríkinu (í stað 75%) eins og ríkisháskólar, ef þeir myndu ekki innheimta skólagjöld. Ákvörðuninni fylgdi sú röksemd að ríkið skyldi ekki gera upp á milli nemenda eftir því hvaða háskóla þeir veldu, en kerfið í dag hefur mismunað nemendum skipulega og ýtt þeim frekar í ríkisháskóla.

Í kjölfar þessarar stefnumarkandi ákvörðunar ráðherra ítrekuðu sjálfstæðismenn í borgarstjórn fyrri tillögur um jöfn menntunarframlög með öllum börnum í leik- og grunnskólakerfinu. Hafa tillögurnar ekki enn hlotið afgreiðslu.

Jöfn tækifæri barna

Það er réttlætismál að tryggja jöfn opinber framlög með hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem barni er valið. Þannig kæmust sjálfstætt starfandi skólar hjá innheimtu skólagjalda – og þannig mætti tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst í Reykjavík, því efnahagur foreldra yrði ekki lengur ákvarðandi forsenda við skólaval. Eftir hverju erum við að bíða?

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Hildur Björnsdóttir