Flugskeyti Umræða um Taurus-flugskeyti á fundi þýskra embættismanna um stríðið í Úkraínu, sem Rússar hleruðu, hefur dregið dilk á eftir sér.
Flugskeyti Umræða um Taurus-flugskeyti á fundi þýskra embættismanna um stríðið í Úkraínu, sem Rússar hleruðu, hefur dregið dilk á eftir sér. — AFP/Sebastian Pieknik
Stjórnvöld í Kreml hóta nú Þjóðverjum öllu illu, jafnvel stríði, vegna hljóðupptöku, sem birt var á rússneskum samfélagsmiðlum þar sem yfirmenn í þýska hernum heyrast tala um stríðið í Úkraínu og að þýskum Taurus-flugskeytum verði hugsanlega beitt þar

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Stjórnvöld í Kreml hóta nú Þjóðverjum öllu illu, jafnvel stríði, vegna hljóðupptöku, sem birt var á rússneskum samfélagsmiðlum þar sem yfirmenn í þýska hernum heyrast tala um stríðið í Úkraínu og að þýskum Taurus-flugskeytum verði hugsanlega beitt þar.

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði á blaðamannafundi í vikunni að fundurinn hefði verið haldinn í fjarfundarkerfinu WebEx. Sérstakar öryggisráðstafanir væru gerðar á slíkum fundum en einn þátttakandi í fundinum hafi verið staddur á flugsýningu í Singapúr og hringt inn á fundinn gegnum „óheimila“ tengingu og með því opnað leið til að hlera hann.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa beðið Þjóðverja að útvega þeim Taurus-flugskeyti sem geta hitt skotmörk í allt að 500 km fjarlægð. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur hins vegar ekki viljað heimila það. En á upptökunni af fundinum heyrast embættismennirnir ræða um möguleika á að beita Taurus-flugskeytum í stríðinu og hvort hægt sé að nota þau til að hæfa mikilvæga brú yfir Kerch-sundið sem tengir meginland Rússlands við Krímskaga en Rússar innlimuðu Krím árið 2014. Einnig er rætt um langdræg flugskeyti sem Bretar og Frakkar hafa látið Úkraínu í té og um breska hermenn á jörðu niðri.

Rússnesk stjórnvöld sögðu á mánudag að hljóðupptakan sannaði að vestræn ríki tækju virkjan þátt í átökunum í Úkraínu. Þýska blaðið Die Welt segir að háttsettir rússneskir embættismenn hafi nú uppi þann málflutning að fyrrverandi óvinir Rússa, sem hafi verið sigraðir, áformi nú nýja árás á föðurlandið.

Die Welt segir að frá rússneskum sjónarhóli hafi stuðningur Þjóðverja við Úkraínu eyðilagt þann árangur sem náðist í að bæta samskipti ríkjana áratugina eftir síðari heimsstyrjöld. Það sé í þessu samhengi sem stjórnvöld í Moskvu túlki samræðurnar á embættismannafundinum og hafi nú uppi áður óþekktar hótanir og áróður. Og það sýni einnig að Taurus-lekinn sé hluti af víðtækum aðgerðum Rússa með það að markmiði að veikja Þýskaland.

Die Welt segir að Maria Sakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, hafi ekki skafið af því. „Afnasistavæðingu Þýskalands er ekki lokið. Ef Þjóðverjar breyta ekki afstöðu sinni verða afleiðingarnar fyrir Þýskalands hræðilegar,“ sagði hún á mánudag og bætti við að Þýskaland yrði að axla ábyrgð fyrir meint áform um að ráðast á brúna á Krím. Slíkt jafngilti hryðjuverkastarfsemi gegn óbreyttum borgurum.

Blaðið segir að þessi röksemdafærsla sé svipuð hótunum sem Dmitrí Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands og nú formaður rússneska öryggisráðsins, hafi reglulega uppi í garð Vesturlanda. Í samhengi við Úkraínustríðið sé hugtakið „afnasistavæðing“ eins konar samheiti innrásar Rússa. Rússneska utanríkisráðuneytið sé í raun að hóta árásum á Þýskaland.

Die Welt segir að rússneskir embættismenn og áróðursmeistarar stjórnvalda í Kreml hafi áður tengt ríkisstjórn Þýskalands við stjórnartíð nasista. Fyrir þremur vikum hafi Zakharova t.d. sagt að stjórvöld í Berlín styddu „glæpastjórnina í Kænugarði“ vegna þess að „afkomendur nasista“ væru við völd í Þýskalandi. En slíkur málflutningur frá háttsettum rússneskum stjórnmálamönnum virtist nánast meinlaus í ljósi hinna nýju hótana um stríð.

Þannig hafi Dmitrí Kiseljov, einn helsti áróðursmeistari Vladímírs Pútíns forseta Rússlands, talað í sjónvarpsútsendingu á mánudag um mögulegar árásir á brýr í Þýskalandi með hljóðfráum Zircon-flugskeytum en slík flugskeyti geta borið kjarnorkuodda. Kiseljov hafi í útsendingunni nefnt skotmörk sem væru heppileg fyrir hefndarárásir ef Úkraínumenn réðust á Kerch-brúna með Taurus-flugskeytum. Hann nefndi m.a. að Fehmarnsund-brúin, Rügen-brúin og Hohenzollern-járnbrautarbrúin í Köln væru hugsanleg skotmörk „ef Þjóðverjar vilja eyðileggja brúna okkar á Krím“.

Die Welt segir að frá sjónarhóli Rússa sé Þýskaland að þróast yfir í stjórnlaust ríki þar sem herinn fari sínu fram gegn fyrirmælum kanslarans. Það rími við þá afstöðu rússneskra stjórnvalda að Þýskaland sé í raun ekki fullvalda ríki en Pútín hélt því fram í nóvember.