Atvinnulíf Ótvírætt er að sjókvíaeldið hafi haft verulega jákvæð áhrif á atvinnulífið á Vestfjörðum. Fólki hefur fjölgað á sunnaverðum fjörðunum.
Atvinnulíf Ótvírætt er að sjókvíaeldið hafi haft verulega jákvæð áhrif á atvinnulífið á Vestfjörðum. Fólki hefur fjölgað á sunnaverðum fjörðunum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
„Verulega munar um eldið í atvinnulífi á Vestfjörðum. Þar nam framleiðsla í fiskeldi um 8% af heildarframleiðslu árið 2019. Mestu máli skiptir það á suðurfjörðunum. Þar stóð byggð höllum fæti um tíma, en nú er fólki tekið að fjölga…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Verulega munar um eldið í atvinnulífi á Vestfjörðum. Þar nam framleiðsla í fiskeldi um 8% af heildarframleiðslu árið 2019. Mestu máli skiptir það á suðurfjörðunum. Þar stóð byggð höllum fæti um tíma, en nú er fólki tekið að fjölga aftur,“ segir í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um áhrif laxeldis í opnum sjókvíum á byggð og efnahagslíf.

Fram kemur að á tímabilinu 2012 til 2019 varð 25% hagvöxtur á Vestfjörðum og má gera ráð fyrir að um fimmtungur hans hafi komið til vegna sjókvíaeldis.

Benda skýrsluhöfundar á að Vinnumálastofnun telur að 817 manns hafi að jafnaði starfað í sveitarfélögunum tveimur á sunnanverðum Vestfjörðum að jafnaði. „Ætla má að 15-20% séu í sjókvíaeldi. Við bætast störf sem tengjast starfseminni, beint og óbeint. Eldið er meginskýring þess að frá upphafi árs 2014 og fram á haust 2023 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi um 200, eða 16%. Fasteignaverð gefur hugmynd um stöðu byggðanna. Frá 2014 til tímabilsins frá ársbyrjun 2022 og fram í október 2023 nær þrefaldaðist verð sérbýlis á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Húsnæði sem seldist á árunum 2022 og 2023.“

Skýrslan er unnin samkvæmt samningi stofnunarinnar við Íslenska náttúrverndarsjóðinn. Átti að taka saman skýrslu um hagræn áhrif eldis á laxi í sjókvíum hér við land. „Taka skyldi saman hagtölur fyrir greinina frá 2015, eftir því sem gögn leyfðu, og rýna í áhrif hennar á hagkerfið. Virðisauki í opnu sjókvíaeldi á laxi undanfarin ár yrði metinn og hlutur greinarinnar í hagvexti á landinu öllu og í einstökum landshlutum. Í þessu samhengi yrði horft á íbúafjölda, fólksflutninga og þróun fasteignaverðs í einstökum sveitarfélögum og landshlutum,“ að því er fram kemur í formála skýrslunnar.

Þá segir að sjókvíaeldi sé ekki stór atvinnurekandi á Austfjörðum og að aðeins um 2% Austfirðinga hafi starfað í greininni árið 2022. Hins vegar benda höfundar á að laxeldi í sjó sé „einn fárra vaxtarsprota“ í þessum landshluta.

Laða ekki að sér Íslendinga

„Atvinnutekjur í fiskeldi voru ríflega 0,5% af tekjum á landinu öllu árið 2021, en það er svipað hlutfall og af þáttatekjum. Laun fyrir fulla vinnu í sjóeldi eru ekki langt frá meðallaunum í íslensku atvinnulífi. Þau nægja þó ekki til þess að draga að fólk úr öðrum landshlutum,“ segir í skýrslunni.

Bent er á að erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað en íslenskum ríkisborgurum fækkað á sunnanverðum Vestfjörðum. „Þá er fjölgunin öll í hópi einstaklinga, en fjölskyldur eru nánast jafnmargar og áður. Á Bíldudal fækkar börnum jafnt og þétt, en fólksfjölgun er öll í hópi karla. Má geta sér þess til að starfsmenn í eldinu líti sumir á þorpin sem eins konar verstöðvar og hyggi ekki á langa dvöl. Á Djúpavogi má greina breytingar í sömu átt. Körlum fjölgar meira en konum, en hlutfall barna lækkar.“

Efnahagsleg áhrif greinarinnar eru mjög staðbundin og kemur fram að vergar þáttatekjur í sjókvíaeldi voru hér á landi rúmir 10 milljarðar króna 2022. Þá er sjókvíaeldið með 0,3% af þáttatekjum í atvinnulífinu öllu það ár. „En að auki tengist ýmis þjónusta eldinu, fyrir utan vinnu við uppbyggingu á atvinnutækjum og jafnvel íbúðarhúsnæði.“