Ásgerður Geirarðsdóttir fæddist í Stykkishólmi 10. október 1942. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Geirarður Siggeirsson, f. 9. janúar 1912, d. 15. janúar 1973, og Kristín Þorvaldsdóttir, f. 14. júlí 1920, d. 14. febrúar 2009. Systkini Ásgerðar voru þrjú: Valdís Gróa, f. 1945, d. 2016, Svanhildur, f. 1949, og Geirarður Haukur, f. 1951.

Ásgerður giftist þann 23. júní 1962 Sverri Sveinssyni, f. 27. júlí 1939, syni hjónanna Sveins Guðmundssonar og Kristínar Helgu Markúsdóttur. Synir Ásgerðar og Sverris eru: 1) Sveinn Helgi, f. 8. apríl 1963, maki Sigríður Sigurðardóttir. 2) Ásgeir, f. 8. maí 1969, maki Svanhildur Björk Sigfúsdóttir og eiga þau tvö börn, Ásgerði Ósk og Sverri. 3) Ragnar, f. 8. nóvember 1970, maki Sif Einarsdóttir og eiga þau þrjú börn, Auði, Geir, maki Bergþóra Hlín Sigurðardóttir, og Láru Kristínu.

Ásgerður fluttist ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur árið 1951, gekk í Melaskólann og síðar Kennaraskólann. Ásgerður kenndi við Hólabrekkuskóla og lengst af við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Ásgerður tók virkan þátt í starfi eiginmanns síns, sem var forstjóri Héðins, meðal annars sem gestgjafi. Árið 1972 gekk Ásgerður í Oddfellowregluna Rebekkustúku nr. 1 Bergþóru og var alla tíð mjög virk í starfsemi hennar. Ásgerður gegndi mörgum af æðstu embættum reglunnar og var sæmd æðsta heiðursmerki Oddfellowreglunnar á Íslandi. Ásgerður hafði yndi af útivist og hreyfingu alla tíð. Þau hjónin voru mjög samhent og stunduðu meðal annars skútusiglingar og ferðuðust saman víða um heim á síðustu árum.

Útför Ásgerðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. mars 2024, klukkan 13.

Komið er að kveðjustund. Elsku Ásgerður tengdamamma mín hefur kvatt þetta líf og nú þurfum við hin að venjast lífinu án hennar. Fastir liðir í tilverunni eins og daglegu símtölin um hvernig við höfum það og hvort það liggi ekki örugglega vel á öllum. Nú breytist þetta allt og við erum undarlega óundirbúin því að við héldum að það væru mörg ár eftir. Ásgerður var alltaf svo hraust.

Ég hitti Ásgerði í fyrsta sinn fyrir 33 árum þegar við Ragnar vorum tvítug og nýorðin par og þá bjó fjölskyldan í Hrólfsskálavör 3. Ég man eftir að hafa farið í margar veislur í þessu húsi, þar sem Ásgerður naut sín vel í gestgjafahlutverkinu. Henni fannst ekkert mál að halda þar fyrir okkur hjónin tvær af þremur skírnarveislum og sá að mestu leyti um allan undirbúning. Mér fannst mjög merkilegt að fylgjast með undirbúningi fimmtugsafmælisins hennar, sem var fjölmenn veisla, þegar þær vinkonurnar undirbjuggu í sameiningu allt sem boðið var upp á, líka snitturnar. Ásgerður var mjög mikil fjölskyldukona og á hverju laugardagskvöldi klæddi hún sig upp og eldaði fínan mat, iðulega var boðið upp á desert. Mamma hennar kom þá í mat og ég man hvað það var huggulegt þegar setið var í eldhúsinu með fordrykk á meðan lokahönd var lögð á matinn. Ásgerður var kennari í Mýrarhúsaskóla á þessum árum og mér fannst skemmtilegt að fylgjast með því að nemendur bönkuðu upp á með heimagerðar jólagjafir frá sér, til dæmis teiknaðar myndir, sem Ásgerður hengdi upp í eldhúsinu.

Ég held að besta og dýrmætasta gjöfin sem Ásgerður gaf sonum sínum og tengdadætrum hafi verið að vera þessi góða og sterka fyrirmynd sem hún var. En það voru þau hjónin saman sem voru allra besta fyrirmyndin. Ég hafði aldrei áður hitt svona góð og samhent hjón eins og þau Sverri og það var mjög dýrmætt fyrir mig, sem var skilnaðarbarn, að fá að upplifa þetta fullkomna traust sem ríkti milli þeirra hjóna og þessa miklu sátt og ást sem þau báru til hvors annars. Ég varð aldrei vör við að það félli styggðaryrði á milli þeirra öll þessi ár og maður fann sterkt að Sverrir var alltaf ánægður með sína konu og það var gagnkvæmt. Hún lagði það líka á sig að fylgja honum eftir í öllum hans tómstundum og til dæmis á árunum þegar þau áttu seglskútu fóru öll fríin þeirra í það að sigla saman, aðallega á Breiðafirði, í alls konar veðrum. Seinna byggðu þau sumarbústað sem var hugsaður sem hennar bústaður og þar naut hún sín best enda var þar, að hennar sögn, alltaf langbesta veðrið á landinu.

Ég dáðist alltaf að því hvað Ásgerður hafði gott sjálfstraust. Hún var alltaf ánægð með sitt. „Hver tími hefur sinn sjarma,“ sagði hún. Mig langar að taka hana mér til fyrirmyndar að þessu leyti og vil hvetja börnin mín til þess líka. Hún var virkilega sátt við lífið sitt alla tíð. Núna í janúar, þegar veikindin komu í ljós, þá huggaði hún okkur og sagðist hafa átt gott líf. Ég hefði viljað að hún fengi meiri tíma hér en við verðum að muna að vera þakklát fyrir það sem við fengum. Guð blessi Ásgerði Geirarðsdóttur.

Lengri grein á

https://mbl.is/andlat

Sif Einarsdóttir.

Við minnumst elsku ömmu Ásgerðar með söknuði en rifjum um leið upp allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Þegar við systkinin hugsum um ömmu kemur fyrst upp í hugann hvað hún var umhyggjusöm, ráðagóð og velviljuð. Amma hafði gaman af því að eyða tíma með okkur barnabörnunum og var alla tíð áhugasöm um hvað við tókum okkur fyrir hendur. Hún sýndi okkur mikinn áhuga og mætti á alla viðburði sem við tókum þátt í, hvort sem það voru leik- og danssýningar eða skólatengdir viðburðir. Það hefur verið hefð hjá okkur barnabörnunum að hringja fyrst í ömmu Ásgerði þegar einkunnaspjöldin voru afhent en þeim hafði hún mikinn áhuga á, enda sannur grunnskólakennari. Við höfum líka átt margar góðar samræður með henni í bíltúrum um bæinn en amma var alltaf boðin og búin að skutla okkur barnabörnunum í hin ýmsu erindi og tómstundir. Það mátti reiða sig á að amma ætti góð ráð við öllum mögulegum vandamálum og talaði af hreinskilni. Hún var líka með eindæmum stundvís og var alltaf mætt a.m.k. nokkrum mínútum fyrr hvert sem henni var boðið.

Við minnumst góðra stunda sem við áttum með henni við eldhúsborðið þar sem hún hjálpaði okkur við ýmsan lærdóm, fyrst úti á Nesi og síðar í Suðurhlíðinni. Við fengum nefnilega að fara til hennar í skólafríum og skólaverkföllum þar sem við nutum góðs af kennslu hennar. Eldhúsið var þó oftast ekki notað til kennslu heldur var amma dugleg við að galdra fram dýrindis veislumat og kökur. Það mátti treysta á að fá eitthvað gott að borða þegar við fórum í heimsókn til ömmu og hún sá alltaf til þess að við færum ekki svöng heim.

Allir sem þekkja ömmu vita að hún var mikil handavinnukona og hafði sérstaka unun af krosssaumi. Hún skapaði mörg listaverkin í gegnum tíðina og gaf okkur barnabörnunum glæsilega skrautpúða sem eru mesta stofustáss. Amma var alltaf glæsileg til fara, í fínum fötum og með skartgripi. Hún var ekki bara glæsileg sjálf, heldur vildi hún líka hafa fallegt í kringum sig. Heima hjá ömmu og afa hefur alltaf verið snyrtilegt og fínt. Þegar þau bjuggu í Hrólfsskálavörinni áttu þau fallegan garð með dásamlegum blómum og plöntum sem hún hugsaði um af mikilli kostgæfni. Síðar þegar amma og afi fluttu í Suðurhlíðina var hún með ker úti á svölum með fallegum blómum.

Nokkrar af okkar bestu minningunum með ömmu eru úr mörgum ferðum upp í sumarbústaðinn Skollagróf. Þangað höfum við farið í fjölmargar fjölskylduferðir, sérstaklega á sumrin og um páska. Þaðan eigum við margar góðar minningar af skemmtilegum samverustundum þar sem mikið var spilað, spjallað og hlegið.

Amma var hlý og góð og var mikið fyrir knús og kossa. Hún var dugleg að hrósa okkur og ég minnist þess með hlýju að hún var vön að segja við mig: „Auður mín, það vantar bara á þig vængina og geislabauginn.“ Það er skrítið að hugsa til þess að hún elsku amma okkar sé ekki lengur með okkur á þessari jörð og við eigum eftir að sakna hennar mikið. Það er þó mikil huggun í að minnast þeirra góðu stunda sem við fengum að njóta með henni. Hvíldu í friði elsku amma.

Auður, Geir og Lára Kristín.

Nú kveð ég mína elskulegu ömmu og nöfnu.

Ein fyrsta minning mín af ömmu minni er af henni sem galdrakonu, því þegar hún heimsótti okkur fjölskylduna á meðan við bjuggum í Danmörku þá gat hún galdrað upp úr botnlausum töskunum allskonar gjafir. Fyrir eina slíka heimsóknina hafði ég sagt öllum vinum mínum í skólanum að amma „tryllekunstner“ væri væntanleg. Þegar hún svo birtist í skólanum þá var hún mjög hissa þegar kennarinn bað um að hún myndi sýna bekknum töfratöskurnar.

Nú man ég líka eftir að hafa farið ein til Íslands þegar ég var fimm ára til að vera hjá ömmu og afa um sumarið. Reyndar eyddi ég flestum mínum barnæskusumrum með ömmu minni. Við eyddum líka mörgum stundum saman uppi í sumarbústaðnum þeirra Skollagróf. Eftir að við fluttum heim frá Danmörku bjuggum við hjá ömmu og afa í nokkra mánuði og þó svo að þetta hafi hugsanlega verið erfitt tímabil fyrir foreldra mína þá hugsaði amma mjög vel um okkur. Eftir þetta fluttum við ekki langt og ég fór oft til ömmu bæði eftir skóla og um helgar.

En hún amma fylgdist vel með öllu sem var í gangi hjá okkur í fjölskyldunni og vildi gjarnan hafa stjórn á hlutunum í kringum sig, eiginleiki sem ég tel mig hafa erft frá henni. Mér verður oft hugsað til þess þegar hún tók okkur frænkurnar til hliðar í áramótaboðinu fyrir nokkrum árum og spurði hvort hún ætti ekki að búa sér til Tinder-síðu svo að hún gæti fundið handa okkur maka. Hún gat verið ströng og ákveðin en líka blíð og stundum mjög fyndin. Hjá ömmu var alltaf að finna hlýjan griðastað, góðan mat, ást og umhyggju.

En dýrmætasta gjöfin sem hún gaf mér og ég mun eiga að eilífu er nafnið okkar sem við áttum saman.

Bless elsku amma mín.

Ásgerður Ósk Ásgeirsdóttir.

Ásgerður Geirarðsdóttir, æskuvinkona mömmu, hafði mikið kennivald á mínu bernskuheimili. Siggi Valur bróðir sagði alltaf „frú Ásgerður“ þegar hana bar á góma – sem var alloft – og laut höfði í virðingarskyni. Ég held að mamma hafi talað við frú Ásgerði á hverjum degi, oft langar símasessjónir þar sem farið var yfir málin, stór og smá, og spekúlerað. Á eftir heyrðist oft frasinn „Ásgerður segir …“ og lögðum við ekki alltaf eyru eftir því, en þetta gat stundum haft afleiðingar fyrir okkur bræður. Einhvern tíma vorum við allir dregnir í klippingu á áður óþekkta rakarastofu af því „Ásgerður segir“ að þetta sé besta klippistofan.

Og heimilin voru ekki bara tengd í gegnum síma. Frú Ásgerður var einatt skammt undan, þau Sverrir bjuggu lengi í Hvassaleiti sem var bara hinum megin við Fram-völlinn, og mikill samgangur alla tíð. Þegar við fórum í Stóra-Langadal á hverju sumri voru þau sómahjónin Ásgerður og Sverrir iðulega á Klungurbrekku, við dalsmynnið. Og þau komu oft á skíði og strákarnir, en svo fóru Ásgerður og Sverrir stundum á gönguskíði við Kolviðarhól, löngu áður en gönguskíðamennska varð almenn. Þau fóru sínar eigin leiðir eins og sýndi sig best í ferðalögum þeirra hin síðari ár á framandi slóðir sem mér þóttu til fyrirmyndar. Ásgerður var nefnilega ekki kona sem barst fyrir vindi í skoðunum og stefnu, hún var skoðanaföst og fylgin sér, hafði skýra sýn á menn og málefni og það var oft gaman að tala við hana um bíómyndir eða bækur, enda fylgdist hún vel með og var alltaf með á nótunum.

Á ferðalögum Ásgerðar og Sverris hér áður fyrr var strákunum þeirra stundum plantað á meðan hjá okkur í Álftamýri. Sveinn Helgi, sem mamma kallaði jafnan Sven Helge, upp á dönsku af einhverjum ástæðum, er jafnaldri og vinur Kalla bróður. Mér er minnisstætt í einni slíkri dvöl þegar ég fór með þá kettlinga á Apaplánetuna, fyrstu bíómyndina, sem Sveinn Helgi endursagði svo á eftir fyrir mömmu, sem hristi bara hausinn í forundran og horfði svo hvasst á mig. Mest var þó Ásgeir hjá okkur, miðjudrengurinn sem mamma kallaði alltaf Ásabarnið og hafði miklar mætur á. Mig minnir að hann hafi búið við mikið dekur í Álftamýrinni þær vikur. Svo var það Raggi bragg, prinsinn sjálfur, sem hafði svo gott geðslag að það var engin leið að stríða honum eða ná honum upp í æsing.

Vinátta Ásgerðar og mömmu stóð af sér alla storma og Ásgerður sýndi mömmu mikinn skilning þegar veikindi hennar fóru að koma í ljós. Reyndar held ég að hún hafi verið með þeim fyrstu til að átta sig á að ekki væri allt með felldu. Fáir þekktu mömmu betur eða kunnu á henni lagið, og þegar styttingur varð milli okkar var gott að eiga Ásgerði að sem alltaf nálgaðist mál af raunsæi og traustri dómgreind. Fyrir það er ég afar þakklátur, sem og þá óbilandi vináttu og ræktarsemi sem Ásgerður og þær saumaklúbbssystur hafa sýnt mömmu hin síðustu ár. Ég kveð frú Ásgerði með virðingu og þökkum fyrir allt gamalt og gott og sendi Sverri, strákunum og ástvinum öllum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Páll Valsson.