Varðskipið Freyja Hér siglir skipið inn til Reykjavíkur haustið 2022 nýkomið frá Noregi. Það var málað að nýju eftir að fyrra verkið mislukkaðist.
Varðskipið Freyja Hér siglir skipið inn til Reykjavíkur haustið 2022 nýkomið frá Noregi. Það var málað að nýju eftir að fyrra verkið mislukkaðist. — Morgunblaðið/Jón Páll Ásgeirsson
Aðeins barst eitt tilboð í slipptöku varðskipsins Freyju og var það frá norsku fyrirtæki. Eftir skoðun var tilboðið metið ógilt. Ríkiskaup auglýstu eftir tilboðum í slipptöku Freyju og var opnunardagur 19

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Aðeins barst eitt tilboð í slipptöku varðskipsins Freyju og var það frá norsku fyrirtæki. Eftir skoðun var tilboðið metið ógilt.

Ríkiskaup auglýstu eftir tilboðum í slipptöku Freyju og var opnunardagur 19. febrúar síðastliðinn.

Aðeins barst eitt tilboð og var það frá skipasmíðastöðinni GMC Yard as. í Stavanger í Noregi. Hljóðaði það upp á tæplega 700 þúsund evrur, eða jafnvirði 104 milljóna íslenskra króna. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 657 þúsund evrur, jafnvirði 98 milljóna íslenskra króna.

Þyngdardreifing Freyju hentar ekki íslenskum slippum/flotkvíum og því barst ekkert íslenskt tilboð.

Viðræður við Norðmennina

„Ákveðnir fyrirvarar voru í tilboði GMC sem gerðu það að verkum að tilboðið var metið ógilt. Þar sem fyrirtækið var eini aðilinn sem skilaði tilboði var ákveðið að ganga til samningaviðræðna við GMC, sem standa nú yfir,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Gert er ráð fyrir að Freyja fari í slipp í byrjun júní og áætlað er að verkinu verði lokið í júlí. „Áætlanir Landhelgisgæslunnar miðast við að skipið verði komið til Noregs 30. maí og við gerum ráð fyrir að það leggi af stað aftur til Íslands 8. júlí,“ segir Ásgeir.

Auk hefðbundinnar viðhaldsvinnu er ráð fyrir því gert að einhver aukaverk verði unnin samhliða. Tilboða verður leitað í hvert og eitt þeirra eftir atvikum, segir Ásgeir.

Eins og frægt varð mistókst málningarvinna við skipið áður en það kom til landsins seint á árinu 2021 og var það skellótt á Íslandsmiðum fyrst um sinn. Freyja verður máluð á ný að þessu sinni. Málningarvinna er fastur liður í hefðbundnu viðhaldi varðskipanna og eru skip Landhelgisgæslunnar máluð annað hvert ár.

Ráðgert er að varðskipið Þór fari einnig í slipp síðar á þessu ári. „Við gerum ráð fyrir því að það verði í september en útboð hefur ekki farið fram,“ segir Ásgeir.

Varðskipið Freyja var smíðað í Suður-Kóreu 2010 og notað sem þjónustuskip fyrir norska olíuiðnaðinn áður en það var keypt til Íslands.

Freyja er að miklu leyti sambærileg við Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en býr yfir meiri dráttargetu, eða 210 tonna. Stjórnvöld ákváðu að heimahöfn þess yrði Siglufjörður.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson