Enski knattspyrnumaðurinn Jude Bellingham, miðjumaður Real Madríd, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í spænsku 1. deildinni. Bellingham fékk beint rautt spjald fyrir mótmæli eftir að mark sem hann skoraði í blálok viðureignar Real Madríd …

Enski knattspyrnumaðurinn Jude Bellingham, miðjumaður Real Madríd, hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í spænsku 1. deildinni. Bellingham fékk beint rautt spjald fyrir mótmæli eftir að mark sem hann skoraði í blálok viðureignar Real Madríd og Valencia síðastliðið laugardagskvöld fékk ekki að standa. Englendingurinn lét dómarann Jesús Gil Manzano heyra það eftir að leikurinn var flautaður af og fékk reisupassann fyrir vikið.

Færeyski knattspyrnumaðurinn Martin Klein Joensen og Njarðvík hafa komist að samkomulagi um að rifta samningi leikmannsins við félagið. Martin kom til Njarðvíkur frá Víkingi í Götu í heimalandinu fyrir áramótin, en hann hefur nú samið við færeyska félagið á nýjan leik. Sóknarmaðurinn lék þrjá leiki í deildabikarnum með Njarðvík og skoraði í þeim tvö mörk.

Danska knattspyrnufélagið Lyngby hefur ráðið David Nielsen sem nýjan þjálfara karlaliðsins út yfirstandandi tímabil. Daninn Nielsen tekur við starfinu af Norðmanninum Magne Hoseth, sem var á dögunum rekinn eftir aðeins 50 daga í starfi. Hoseth hafði tekið við starfinu af Frey Alexanderssyni í upphafi ársins eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá Kortrijk í belgísku A-deildinni.

Egypski knattspyrnumaðurinn Mo Salah, sóknarmaður Liverpool, hefur hafið æfingar með liðinu að nýju eftir að hafa verið frá keppni vegna meiðsla undanfarnar tvær og hálfa viku. Salah sneri aftur í lið Liverpool um miðjan febrúar eftir að hafa þá verið frá í einn mánuð vegna meiðsla aftan á læri. Meiðslin tóku sig upp að nýju eftir 4:1-sigur á Brentford.