Smáhýsahverfi Búið er að setja upp 30 smáhýsi við Fossatún. Húsin eru sögð borga sig upp fljótt.
Smáhýsahverfi Búið er að setja upp 30 smáhýsi við Fossatún. Húsin eru sögð borga sig upp fljótt. — Ljósmyndir/Hallur Karlsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Steinar Berg Ísleifsson, framkvæmdastjóri Fossatúns í Borgarfirði, segir smáhýsi geta skapað mikil tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst á landsbyggðinni.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Steinar Berg Ísleifsson, framkvæmdastjóri Fossatúns í Borgarfirði, segir smáhýsi geta skapað mikil tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst á landsbyggðinni.

Tilefnið er viðtal við Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóra Center Hótela og formann FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í Morgunblaðinu 23. febrúar síðastliðinn. Áætlaði Kristófer að það kostaði nú að minnsta kosti 30-40 milljónir að meðaltali að byggja hótelherbergi, en samkvæmt því kostar 100 herbergja hótel minnst þrjá til fjóra milljarða.

„Umræðan hefur snúist um að svo mikillar fjárfestingar sé þörf til að hægt sé að taka á móti fleiri erlendum ferðamönnum. Ég held að sóknarfærin á landsbyggðinni liggi í léttri umgjörð og gistimöguleikum. Ferðamenn vilja geta valið í hvað þeir eyða peningunum. Við getum rekið veitingahús á heilsársgrunni í miðjum Borgarfirði af því að við erum með marga kúnna í ódýrri gistingu, margir þeirra vilja borða á veitingahúsi, þrátt fyrir að hafa aðgengi að góðri eldhúsaðstöðu. Og margir leyfa sér t.d. góðan bílaleigubíl eða mikla afþreyingu en borga minna fyrir gistinguna.

Sjálfbærari rekstur

Ég sé fyrir mér að í staðinn fyrir þessa miklu fjárfestingu í ferðaþjónustu sem mörgum stendur ógn af, ekki síst á landsbyggðinni, þar sem hún gerir sig ekki, að þá sé uppbygging slíkra smáhýsa hluti af því að dreifa ferðaþjónustunni betur um landið og styrkja sveitir landsins. Þetta er enda svo fjármagnsléttur rekstur og þægilegur en talar samt sem áður vel inn í samtímann. Þetta er líka sjálfbærari rekstur en á hóteli þar sem þarf að þvo rúmfatnað og handklæði á hverjum degi. Fólk getur leigt hjá okkur rúmföt en það sem er kannski rúsínan í pylsuendanum hvað okkar rekstur varðar er að þeir sem gista hjá okkur eru langflestir að gista í margar nætur. Gista ekki bara eina nótt og fara,“ segir Steinar Berg. Þá segir hann reksturinn í Fossatúni til vitnis um að hægt sé að byggja upp gistingu á landsbyggðinni á mun ódýrari hátt en af er látið. Máli sínu til stuðnings vísar hann til afar góðrar afkomu Fossatúns af rekstri smáhýsanna sem hann nefnir podda. Með þeim sé hægt að hefja rekstur með miklu minni tilkostnaði og lántöku en með því að reisa staðsteypt hótel og fyrir vikið sé áhættan fyrir smærri aðila miklu minni en ella.

Tengdir við rafmagn

„Poddarnir koma tilbúnir og eru settir á undirstöðu, þeim stungið í samband við rafmagn, eins og er gert á tjaldsvæðum. Engin vatnslögn er að þeim,“ segir Steinar Berg en orðið poddi er dregið af enska heitinu camping pod. Slík gisting er jafnframt kölluð glamping á ensku sem er samsetning af glamorous camping, sem útleggst sem munaðarlega, eða jafnvel lystilega. Segja má að þetta sé svefnpokagisting í einkarými með rúmi, eða lokrekkja eins og Steinar Berg kallar hana.

Hann segir poddana vel einangraða og að vel hafi farið um gesti í 20 stiga frosti. Hver poddi sé með litlum ísskáp og borði og stólum. Þau hjónin Steinar Berg og Ingibjörg Pálsdóttir, eigandi og gjaldkeri Fossatúns, keyptu jörðina Fossatún árið 2001. Þau hófu svo uppbyggingu á jörðinni og byrjuðu að leigja tjaldsvæði árið 2005. Reksturinn varð fyrir höggi í efnahagshruninu 2008 og segir Steinar Berg að í hönd hafi farið „fjögurra ára störukeppni við bankann sem lauk með því að bankinn leit undan“.

WOW air hafði áhrif

Þá var komið fram á árið 2012 en þá um vorið hóf flugfélagið WOW air sig til flugs. Það átti sinn þátt í að erlendum ferðamönnum tók að fjölga og jók það eftirspurn eftir gistingu. Steinar Berg segir þau hjónin hafa ákveðið að hætta með tjaldsvæðið eftir að Borgarbyggð fór að leigja út tjaldsvæði á ný, þrátt fyrir að sá rekstur í Fossatúni hafi gengið vel. Það hafi enda verið óeðlileg samkeppni. Þess í stað byggðu þau upp gistingu á Hótel Fossatúni fyrir 30 manns og hófst sá rekstur 2014. Árið 2015 tóku þau fyrsta poddinn í notkun og hefur þeim fjölgað ár frá ári og síðustu þrjú ár hafa þau fjármagnað framkvæmdir af eigin fé. Nú eru 30 poddar í Fossatúni; 20 tveggja manna og tíu þriggja eða fjögurra manna. Alls rúma þeir 75 gesti og geta því samtals 105 gestir dvalið á hótelinu og í poddunum. Poddarnir eru hitaðir upp með rafmagnsofnum en eru ekki með rennandi vatni. Gestir þeirra hafa hins vegar aðgang að salernum, sturtum, heitum pottum og eldunar- og borðaðstöðu.

Þrír heitir pottar

„Árið 2024 verður fyrsta árið síðan 2015 sem við erum ekki í framkvæmdum,“ segir Steinar Berg og upplýsir að fjárfestingin í hverjum podda borgi sig upp á tveimur til þremur árum. Þau hafi síðast bætt við sjö poddum í nóvember síðastliðnum og jafnframt nýrri eldhús- og salernisaðstöðu. Jafnframt geta gestir valið milli þriggja heitra potta sem rúma alls 20 manns.

Steinar Berg segir það afar vinsælt meðal erlendra ferðamanna, sem séu meirihluti gesta, að nota heitu pottana. Maðurinn sé félagsvera og maður sé manns gaman. Hann segir aðspurður að húsakostur fyrirtækisins kosti um 300 til 400 milljónir. Það samsvarar um þremur milljónum á hvern gest, sem er verulega lægri upphæð en nefnd var hér í upphafi.

Þau hjónin opnuðu tjaldsvæðið á ný í heimsfaraldrinum árið 2020 en sökum þess að svæðið er hólfað niður með skjólbeltum reyndist það samrýmast sóttvörnum vel.

Fossatún er um 90 km frá höfuðborgarsvæðinu og tekur akstur þangað frá miðborginni rúma klukkustund. Steinar Berg segir reksturinn ganga mjög vel. Nýtingin á poddunum hafi verið 80% í febrúar og verði 90% í mars. Dagurinn kosti 8.900 á veturna en 11.900 á sumrin.

Líkari hjólhýsi

Steinar Berg kveðst hafa gengið á fund Ásmundar Einars Daðasonar þegar sá síðarnefndi var félagsmálaráðherra og yfir Mannvirkjastofnun árið 2019 og óskað eftir breytingum á reglugerð. Góð reynsla hafi þá verið komin af rekstri poddanna í Fossatúni.

„Hægt er að fjarlægja podda af undirstöðu upp á bílpall og þeir eru því líkari hjólhýsi en litlu sumarhúsi. Niðurstaða nýs byggingarfulltrúa hjá Borgarbyggð var engu að síður að skilgreina poddana sem sumarbústað með tilheyrandi viðbótarkostnaði. Erindi mitt til Ásmundar Einars, sem þá var búsettur í Borgarbyggð, var að leggja fram tillögu um að poddar féllu undir skilgreiningu byggingarreglugerðar um smáhýsi undir 15 fermetrum sem ekki þyrftu byggingarleyfi, þar sem um færanlegar einingar væri að ræða, en að reglugerðinni væri breytt þannig að ívera væri leyfð í „smáhýsunum“ gegn því að aðgengi væri til staðar að hreinlætis- og eldunaraðstöðu. Ásmundur Einar tók mér vel og hans fyrsta spurning var hvernig mér gengi að eiga við nýja byggingarfulltrúann þar sem umtalað var að hann var að rekast á fólk og fyrirtæki.

Ferkantað viðmót

Í framhaldi af fundinum spurði ég nokkrum sinnum eftir framgangi þessarar einföldu breytingar en fékk afar ferkantað viðmót og svör frá ráðuneytisfólki. Ég ákvað því að einbeita mér að eigin uppbyggingu til að sýna fram á gildi þess sem ég var að tala um. Þess má og geta að núverandi byggingarfulltrúi Borgarbyggðar telur að það standist ekki að skilgreina poddana sem byggingarleyfisskyld mannvirki,“ segir Steinar Berg að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson