Kira Kira Henni líður vel í Garðhúsum á Stokkseyri, hér hjá hljóðfærum í notalegri stofunni þar heima.
Kira Kira Henni líður vel í Garðhúsum á Stokkseyri, hér hjá hljóðfærum í notalegri stofunni þar heima. — Ljósmynd/Hákon Pálsson
„Þetta er heiðríkjuhús, allir sem hingað koma virðast finna fyrir því með einhverjum hætti. Ég heyri í hafinu úr rúminu,“ segir Kristín Björk Kristjánsdóttir, tónlistarkona og kvikmyndagerðarkona, eða Kira Kira, þar sem hún tekur á móti blaðamanni á heimili sínu, Garðhúsum á Stokkseyri

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta er heiðríkjuhús, allir sem hingað koma virðast finna fyrir því með einhverjum hætti. Ég heyri í hafinu úr rúminu,“ segir Kristín Björk Kristjánsdóttir, tónlistarkona og kvikmyndagerðarkona, eða Kira Kira, þar sem hún tekur á móti blaðamanni á heimili sínu, Garðhúsum á Stokkseyri. Garðhús er lítill torfbær, byggður við lok 19. aldar, og andrúmsloftið innandyra einstakt.

„Ég skipti gjörsamlega um takt og lífsstíl þegar ég flutti hingað. Ég bjó hluta úr ári til skiptis í Los Angeles og Reykjavík um árabil og í Berlín í nokkur ár þar á undan. Á einhverjum tímapunkti varð Unaðsdalur á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp, þaðan sem ég er ættuð, að hugmynd minni um jarðtengda paradís heilinda. En af því að vegurinn þangað er aðeins opinn í stuttan tíma yfir sumarið yfirfærði ég þá upplifun á minn hátt á Garðshús og Stokkseyri. En ég á alltaf sopa úr Unaðsdalsá á brúsa til að grípa í yfir veturinn þegar mikið liggur við, jurtir af Snæfjallaströndinni í te og sem krydd út á mat,“ segir Kristín, en bíómyndir hennar gerast allar í Unaðsdal. Nú hefur hún sent frá sér sjöttu hljóðversskífu sína, sem heitir Unaðsdalur. Hún hefur einnig gefið út þrjár plötur með eigin kvikmyndatónlist og samstarfsplötu, svo að þær eru tíu breiðskífurnar hennar sem komið hafa út hjá ýmsum útgáfum í Bandaríkjunum, Evrópu og Japan. Kira hefur þegar haldið útgáfutónleika í Mengi vegna nýju plötunnar, en útgáfutónleikar verða einnig í apríl í Philosophical Research Society í Los Angeles, þar sem alþjóðleg frumsýning verður á stuttmynd hennar, Eldingar eins og við.

Stefnumót við Knarrarósvita

Tilkoma laganna á nýju Unaðsdalsplötunni er úr ýmsum áttum og að baki sumum þeirra eru sögur.

„Lagið „The Night at the Lighthouse P1“ kom til mín í fyrrasumar eftir vel heppnað stefnumót við Knarrarósvita. Upphaflega voru þetta rómantísk símsvaraskilaboð sem ég söng og sendi spontant af bílastæði, þegar sá sem ég samdi lagið til var farinn frá Íslandi. Ég lofaði honum að semja lag um þetta epíska stefnumót okkar og stóð við það. Hann lagði til titil lagsins, „The Night at the Lighthouse P1“, og ég frumflutti lagið með blásarasveit á skútu á hafi úti. Þá breyttist hleðsla lagsins og það varð ástaróður til mannkyns, en við sigldum frá Engey að bryggjunni fyrir aftan Hörpu. Þar var pakkað af fólki komið til að hlusta og sjá, þökk sé Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni. Við sungum þessa rómantísku dúndurballöðu og þeyttum lúðra fyrir alla sem þar stóðu. Þetta var afar kær gjörningur,“ segir Kristín og bætir við að hún trúi af heilum hug á einlægnina og berskjöldunina.

„Þegar við leyfum okkur að tjá okkur fölskvalaust og án ótta verður til spennandi samtal. Það fer oft svo mikil orka í að fela hvernig okkur líður. Við vitum að við verðum særð, það er óhjákvæmilegt, það munu verða árekstrar og við lendum í alls konar, en ég segi: Komdu með það, ég krefst þess að fara í gegnum lífið með opið hjarta. Þannig hef ég ákveðið að rúlla í gegnum lífið og þessi nýja plata mín, Unaðsdalur, er svolítið um það. Frá því að ég flutti hingað í þennan forna torfbæ hef ég haft tíma til að hrista af mér alls konar farangur sem ég þarf ekki á að halda, og taka á móti hugljómunum og því sem í mér býr. Það er gott að fá að hitta fyrir þann kraft. Maður verður kannski svolítið tjúllaður að hrærast í mannlegu samfélagi og það verður ákveðin hreinsun þegar maður stígur svolítið út úr því. Ég hef verið upptökustjóri á öllum þeim tíu breiðskífum sem ég hef gefið út en ég hef enga þörf lengur fyrir að sanna fyrir mér eða öðrum að ég geti verið það. Ég er búin að því! Núna skiptir mig máli að koma mér beint að efninu, að sigla hreint inn að tærum kjarnanum og leyfa ákveðnum einfaldleika að tala. Vonandi tekst mér að gefa fólki þá upplifun þegar það hlustar á tónlistina á þessari nýju plötu.“

Hversdagskraftaverk fjaðrar

Kristín segist vona að allt sem hún blandi saman á nýju plötunni sé næringarrík mixtúra, hvort sem það eru umhverfishljóð sem hún hefur tekið upp, söngur eða spilaðir tónar.

„Danski bassasöngvarinn Steffen Bruun lánaði mér röddina sína í einu laginu, sem heitir „Bassasálmur“. Hann var til í að spinna með mér, en ég hitti hann fyrst þegar við vorum að flytja Orphic Hymn eftir Jóhann Jóhannsson í Hörpu. Steffen kom með Theater of Voices og hefur rosalega djúpa rödd. Þegar ég átti seinna leið um Kaupmannahöfn mæltum við okkur mót á sinfóníuhljómsveitarsviði danska ríkisútvarpsins og ég lét hann hafa stemningar til þess að spinna yfir. Seinna þegar ég fór að kafa ofan í þessar upptökur fann ég í þeim augnablik sem mér fannst mikill kraftur í, eins konar meðal, eða musteri sem verður til úr röddinni hans í „Bassasálmi“.

Í upphafslagi plötunnar, „Blíða staðfasta afl“, má m.a. heyra fuglasöng.

„Fuglasöngurinn er síðasta efnið sem fór inn í það lag, sem byggist á gítarstefjum sem Hilmar Jensson spilar og trompetleik Eiríks Orra Ólafssonar, en ég hef alltaf verið hrifin af að nota umhverfisupptökur í tónlistina mína. Það er yndisleg leið til að gefa tónlist persónulegan brag. Ég átti kæra upptöku af söng sumarfuglanna hér úti á árósunum, sem ég tók upp klukkan fimm um morgun í fyrrasumar. Þá voru engir bílar á ferð og hvergi önnur hljóð, en það vildi svo vel til að ég var vakandi svona eldsnemma á þessum eftirminnilega morgni. Þetta kom til mín áreynslulaust. Titill lagsins, „Blíða staðfasta afl“, varð til úr litlu hversdagskraftaverki, þegar lítil fjöður hélt sig undir svefnherbergisglugga mínum í tvær vikur í alls konar vindum og rigningu, fislétt og fíngerð, en ekkert náði að feykja henni í burtu. Ég varð mikill aðdáandi þessarar fjöður og tengdi sterkt við hana. Fuglarnir eru líka blítt staðfast afl, litlar verur sem koma alltaf á vorin og syngja fyrir okkur. Blítt staðfast afl nær yfir svo margt, líka að þora að ganga um með opið hjarta, að vera trygg sköpunarkraftinum og gefast ekki upp á honum, því hann gefst aldrei upp á mér. Að vera staðföst í því tryggðarbandi. Annað sem er blítt og staðfast afl er tónlistin sjálf. Mér þykir svo vænt um tónlist og það er mér mikilvægt að heiðra hana og halda ákveðinni helgi utan um hana. Unaðsdalur er um það líka.“

Hækkum í ást og kærleika

Kristín segir að enginn hafi verið spurður álits eða leyfis hvort platan Unaðsdalur mætti koma út.

„Ekkert útgáfufyrirtæki fékk símtal eða tölvupóst frá mér þar um. Ég ákvað að gefa þessa plötu út á hárnákvæmu augnabliki sem ég vildi ekki að neinn bransi hefði áhrif á og ég gerði það með stuðningi frá öðru tónlistarfólki. Þau sem spila á plötunni hafa stutt mig í gegnum allan minn feril og tekið þátt í alls konar ævintýrum með mér. Hitt tónlistarfólkið sem svo byggir upp þessi mögnuðu öfl í starfsumhverfi okkar, STEF, FÍH og ÚTÓN, gera það líka mögulegt fyrir mig og aðra að vinna tónlist frjálsa og óháða frá markaðssjónarmiðum,“ segir Kira og bætir við að hún sé alltaf þakklát fyrir að finna fyrir hvatningu og stuðningi frá öðru tónlistarfólki og líka þeim sem hlusti á og njóti tónlistarinnar sem hún gefur út.

„Af því að við förum öll í gegnum okkar dimmu dali og missum trú á okkur. Þá getur verið ótrúlega mikill styrkur og gjöf í hvers kyns hvatningu frá starfssystkinum um að halda áfram, heyra og finna: Áfram þú! Á bak við eina svona plötu getur verið margra ára vinna. Ég hef verið að þessu frá því að ég var 17 ára, allt mitt fullorðinslíf hef ég verið að búa til tónlist og kvikmyndir, og það hafa vissulega komið tímabil þar sem ég hef hvíslað út í tómið: Er einhver þarna úti? … að hlusta? En ég tek það fram að ég finn óvenju sterkar og hlýjar undirtektir við þessari plötu, Unaðsdal, og úr öllum áttum. Það virðist vera nóg pláss hjá fólki fyrir dúndrandi kærleika og blíðu akkúrat núna. Kannski tengist það eitthvað ástandinu í heiminum, stríðum og átökum sem við erum óhjákvæmilega öll að kljást við með mismiklum hætti. Heimurinn þarf á því að halda að við hækkum hressilega í ást og kærleika. Okkar sanna eðli er að vilja hvert öðru vel. Við þurfum rými til að vera hvert öðru góð og þetta rými verður til þegar við gefum því athygli. Ég er á því að nú þurfi ákveðna kærleiksuppreisn til þess að vega upp á móti hrottanum þarna úti. Ég hef áhuga á að upplyfta því góða í manneskjunni og fókusera á það. Fyrir mér er raunveruleikatékkið að gera okkur grein fyrir því að manneskjur eru góðar. Þó að það sé auðvitað mikið myrkur í heiminum, og kannski einmitt þess vegna, þarf að benda oftar og meira á alla gæskugjörningana sem gerast í kringum okkur á hverjum degi. Þegar kemur að listsköpun myndi ég ganga svo langt að spyrja: Í hvaða liði ætlum við að vera? Ætlum við að draga frá og hleypa sólskininu og ylnum að, eða ætlum við að bæta við þann hrotta sem fyrir er í stríði og ófriði með listaverkum sem framleiða vanlíðan? Við þurfum öll að spyrja okkur hvar við ætlum að staðsetja okkur. Hér finnst mér listamenn bera mikla ábyrgð. Hvaða öflum ætlum við að leggja lið? Hver fær athyglina þína og orkuna? Myrkrið eða ljósið?“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir