Laugardalshöll Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson sækir að vörn Haukamanna í undanúrslitaleik liðanna í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.
Laugardalshöll Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson sækir að vörn Haukamanna í undanúrslitaleik liðanna í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar ÍBV tryggðu sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í handbolta með 33:27-sigri á Haukum í fyrri undanúrslitaleik keppninnar í Laugardalshöllinni. Liðin mættust í úrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og höfðu Eyjamenn þá einnig betur og urðu Íslandsmeistarar

Bikarinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslandsmeistarar ÍBV tryggðu sér í gærkvöldi sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í handbolta með 33:27-sigri á Haukum í fyrri undanúrslitaleik keppninnar í Laugardalshöllinni. Liðin mættust í úrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð og höfðu Eyjamenn þá einnig betur og urðu Íslandsmeistarar.

ÍBV mætir Stjörnunni eða Val í úrslitaleiknum á laugardaginn klukkan 16 í Laugardalshöllinni en viðureign þeirra hófst eftir að Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöld. Ítarlega er fjallað um leikinn á mbl.is/sport/handbolti. Eyjamenn náðu undirtökunum snemma leiks og var staðan 8:4 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Haukar minnkuðu muninn í 10:8 skömmu síðar, en ÍBV var sterkari aðilinn í lok fyrri hálfleiks og munaði fjórum mörkum á liðunum í hálfleik, 17:13.

ÍBV byrjaði betur í seinni hálfleik og var 4-6 mörkum yfir framan af. Haukar minnkuðu muninn í 21:18 þegar 20 mínútur voru eftir, en þá tóku Eyjamenn aftur við sér. Staðan var orðin 27:21 skömmu síðar og virtust Íslandsmeistararnir vera með sigurinn vísan.

Sem fyrr neituðu Haukar hins vegar að gefast upp, því aðeins tveimur mörkum munaði þegar fimm mínútur voru eftir, 28:26. Nær komst Hafnarfjarðarliðið hins vegar ekki. Eyjamenn gengu á lagið á lokasekúndunum og unnu að lokum sex marka sigur.

Eyjamenn skiptu mörkunum bróðurlega á milli sín því Daniel Vieira, Elmar Erlingsson, Kári Kristján Kristjánsson og Arnór Viðarsson skoruðu sex mörk hver. Þar á eftir kom Dagur Arnarsson með fjögur mörk. Petar Jokanovic varði 13 skot í marki ÍBV, þar af tvö vítaköst. Pavel Miskevich varði eitt víti.

Guðmundur Bragi Ástþórsson var langbestur hjá Haukum og skoraði tíu mörk. Tjörvi Þorgeirsson gerði fimm. Aron Rafn Eðvarðsson og Magnús Gunnar Karlsson vörðu samanlagt 15 skot í markinu.

Eyjamenn freista þess nú að verða bikarmeistarar í fimmta skipti og í fjórða sinn á tíu árum, en þeir hafa áður unnið bikarinn árið 1991, 2015, 2018 og 2020.

Undanúrslit kvenna í kvöld

Bikarfjörið heldur áfram í Laugardalshöllinni í kvöld en þá fara þar fram undanúrslitaleikir kvenna. Fyrst mætast ÍR og Valur klukkan 18 en klukkan 20.15 hefst leikur Stjörnunnar og Selfoss. Sigurliðin í þessum leikjum mætast í úrslitaleik klukkan 13.30 á laugardaginn.

Ljóst er að nýir bikarmeistarar verða krýndir á laugardaginn en karlalið Aftureldingar og kvennalið ÍBV sem unnu bikarinn á síðasta ári komust ekki í undanúrslitin í ár.