Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is Umboðsmaður barna heldur fund með börnum frá Grindavík í dag kl. 9-12 í Laugardalshöll. Markmið fundarins er að heyra hvað börnunum liggur á hjarta og hvernig stjórnvöld geta með sem bestum hætti staðið vörð um réttindi þeirra við núverandi aðstæður.

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Umboðsmaður barna heldur fund með börnum frá Grindavík í dag kl. 9-12 í Laugardalshöll. Markmið fundarins er að heyra hvað börnunum liggur á hjarta og hvernig stjórnvöld geta með sem bestum hætti staðið vörð um réttindi þeirra við núverandi aðstæður.

„Við viljum fá að vita hvað hefur gengið vel og hvað ekki í þeim aðstæðum sem börnin eru í núna. Þau vinna á borðum, svona svipað og við höfum haft á barnaþingi, en síðan er hugmyndin að þau móti spurningar eða tillögur til stjórnvalda,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, og bætir því við að í lok fundar verði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á staðnum til að ávarpa fundinn og eiga stutt samtal við börnin.

Mikið rask á lífi barnanna

Innt eftir því hvernig þörfum grindvískra barna hafi hingað til verið mætt segir Salvör markmið fundarins einmitt vera að svara þeirri spurningu.

„Okkur langar að heyra beint frá börnunum hvernig þau hafa upplifað þessar aðstæður sem þau eru í og hvort þeim finnist að hægt sé að styðja þau betur og þá með hvaða hætti. Mögulega hafa þau spurningar líka um næstu mánuði og ár um hvernig fyrirkomulagið eigi að vera í sambandi við skólagöngu, tómstundastarf og fleira.“

Segir Salvör augljóst að það mikla rask sem verið hafi á lífi barnanna hljóti að hafa áhrif á þau með margvíslegum hætti.

„Við höfum til að mynda áhyggjur af því að þau kunni að hafa misst úr skóla og þurfi meiri stuðning en við gerum okkur grein fyrir. Það hefur verið rask á skólanum, tómstundum og öllu félagslífi þeirra, þannig að þessar aðstæður hafa víðtæk áhrif,“ segir hún.

Unnið í góðu samstarfi við Grindavíkurbæ

Aðspurð svarar Salvör því til að fundur sem þessi sé gríðarlega mikilvægur.

„Það hefur mikla þýðingu í allri vinnu almannavarna að það sé tekið mið af stöðu barna og sjónarmiðum þeirra alveg frá fyrsta degi. Við þurfum að hafa vettvang til þess að heyra hvað þeim finnst og líka til að veita þeim betri upplýsingar. Það er svo mikilvægt, eins og við sáum í heimsfaraldrinum, að þau geti gengið að upplýsingum sem eru sniðnar að þeim.“

Þá er fundurinn skipulagður í samvinnu við bæjaryfirvöld Grindavíkur, sem tóku frá upphafi vel í hugmyndina að sögn Salvarar.

„Fundurinn er unninn í þéttu samstarfi við Grindavíkurbæ og frá því að ég bar þessa hugmynd upp fyrir Fannar Jónasson bæjarstjóra fyrir nokkrum vikum hafa þau sýnt þessu mjög mikinn áhuga.“

Nefnir Salvör að lokum að fundurinn verði stór því von sé á um 250 börnum, á aldrinum 6-18 ára, í Laugardalshöllina í dag.

„Ég held að það sé mjög kærkomið að gefa börnunum tækifæri á að setjast niður og ræða líðan sína og fá að heyra afstöðu þeirra.“