Hælisleitendur Brottflutningur hælisleitenda er ekki að kostnaðarlausu.
Hælisleitendur Brottflutningur hælisleitenda er ekki að kostnaðarlausu. — Morgunblaðið/Eggert
Heildarkostnaður ríkisins við brottflutning umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi nam tæplega 256 milljónum króna árið 2022, en það ár voru 77 einstaklingar fluttir flugleiðis af landi brott með atbeina lögreglu

Heildarkostnaður ríkisins við brottflutning umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi nam tæplega 256 milljónum króna árið 2022, en það ár voru 77 einstaklingar fluttir flugleiðis af landi brott með atbeina lögreglu. Svo segir í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Spurt var um kostnað við brottflutning umsækjenda um alþjóðlega vernd sem synjað hafði verið um hana, bæði á grundvelli þess að viðkomandi hefði þegar fengið vernd í öðru landi, að umsókn um slíka vernd væri til meðferðar í öðru landi og viðkomandi hefðu verið fluttir brott með atbeina lögreglu.

Kostnaðarliðirnir sem tilfærðir eru í svarinu eru heildarkostnaður stoðdeildar ríkislögreglustjóra, ferðakostnaður og flugvélaleiga og er kostnaður stoðdeildarinnar hæstur, tæpar 195 milljónir.

Af framansögðu er ljóst að kostnaður við brottflutning hvers einstaklings nam ríflega 3,3 milljónum. Flestir voru fluttir til Grikklands, 33 einstaklingar, en næstflestir til Albaníu, eða 11 manns.