Iceland Noir Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir eru skipuleggjendur bókmenntahátíðarinnar.
Iceland Noir Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir eru skipuleggjendur bókmenntahátíðarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Robert Zemeckis, sem meðal annars leikstýrði Óskarsverðlaunakvikmyndinni Forrest Gump, og eiginkona hans, leikkonan og metsöluhöfundurinn Leslie Zemeckis, verða gestir á Iceland Noir-bókmenntahátíðinni sem fer fram hér á landi 20.-23

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Robert Zemeckis, sem meðal annars leikstýrði Óskarsverðlaunakvikmyndinni Forrest Gump, og eiginkona hans, leikkonan og metsöluhöfundurinn Leslie Zemeckis, verða gestir á Iceland Noir-bókmenntahátíðinni sem fer fram hér á landi 20.-23. nóvember. Robert Zemeckis er ekki einungis þekktur fyrir Forrest Gump, því snemma á ferli sínum skrifaði hann kvikmyndina Back to the Future með Bob Gale og leikstýrði einnig. Leslie Zemeckis er höfundur metsölubókanna Behind the Burly Q, Goddess of Love Incarnate og Feuding Fan Dancers. Hún er sömuleiðis leikkona og hefur leikið á móti leikurum á borð við Tom Hanks, Steve Carell, Jim Carrey og Richard Lawson.

Áður hafa verið kynntir tveir heiðursgestir á hátíðina. Annars vegar er það rithöfundurinn Ann Cleeves sem er skapari hinnar geðþekku Veru Stanhope úr þáttunum Veru sem lesendur gætu kannast við af sjónvarpsskjánum. Ellefta bók hennar um Veru, The Dark Wives, kemur út í ágúst á þessu ári. Hins vegar er það leikkonan Brenda Blethyn sem er andlit Veru í þáttunum. Blethyn er margverðlaunuð leikkona og hefur meðal annars unnið til BAFTA-verðlauna og Empire-verðlauna.

Þetta er í ellefta sinn sem Iceland Noir fer fram, en aðstandendur hennar eru rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson. Upphaflega var hátíðin hugsuð sem glæpasagnahátíð en á síðustu árum hafa allar tegundir bókmennta verið ræddar. Miðasala er hafin á hátíðina en á síðasta ári seldust miðar upp með margra mánaða fyrirvara.