Lárus Þorvaldsson
Lárus Þorvaldsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar starfsmenn HS Orku fengu COWI til að setja hita- og þrýstinema á 850 m dýpi í eftirlitsholuna SV-12 árið 2018, höfðu þeir ekki hugmynd um að mælingarnar myndu gagnast fjórum árum seinna við að spá fyrir um eldgos á svæðinu

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Þegar starfsmenn HS Orku fengu COWI til að setja hita- og þrýstinema á 850 m dýpi í eftirlitsholuna SV-12 árið 2018, höfðu þeir ekki hugmynd um að mælingarnar myndu gagnast fjórum árum seinna við að spá fyrir um eldgos á svæðinu. Lárus Þorvaldsson, yfirforðafræðingur hjá HS Orku, segir að nemarnir mæli hita og þrýsting á mínútufresti og var þeim ætlað að fylgjast með hvernig breytingar í vinnslu og niðurdælingu hefðu áhrif á þrýsting í jarðhitakerfinu.

„Síðan tókum við eftir því að stórir jarðskjálftar höfðu líka áhrif á þrýsting í jarðhitakerfinu, en eftir skjálfta var þrýstingur fljótur að ná fyrra jafnvægi.“ Hlutirnir fara þó fyrst af stað fyrir alvöru í kvikuhlaupinu 10. nóvember sl. „Við sáum að þrýstingurinn breyttist mjög hratt og sú breyting hélst lengur, samanborið við það sem við höfðum áður séð. Þegar þetta gerðist aftur 35 mínútum fyrir eldgosið 18. desember kviknaði sú hugmynd að við gætum notað þrýstinemann sem viðvörunarkerfi vegna yfirvofandi eldgosa. Með aðstoð COWI jukum við tíðni gagnasendinga úr nemanum og greinum þær nú sjálfvirkt á mínútu fresti og ef óeðlilega miklar þrýstibreytingar verða er send viðvörun á Veðurstofuna.“

Kerfið var sett í rekstur 11. janúar og þremur dögum seinna var send viðvörun til Veðurstofunnar, fjórum tímum fyrir eldgosið 14. janúar og 8. febrúar var gosi spáð með 25 mínútna fyrirvara. Lárus segir að kosturinn við þessa mæliaðferð sé sá að hún sé ekki jafn viðkvæm fyrir veðri og vindum og aðrar mælingar. „Það gæti komið upp sú staða að þrýstimælingarnar í SV-12 séu eitt af því fáa sem getur sagt til um yfirvofandi eldgos.“ Lárus segir að HS Orka sé nú að kanna hvort hægt sé að spá fyrir um grófa staðsetningu yfirvofandi eldgoss með mælingum á svokölluðum holutoppsþrýstingi efst í holunni, en margt bendi til þess.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir