Fyrirsögn Stuðlaðar fyrirsagnir geta verið skemmtilegar.
Fyrirsögn Stuðlaðar fyrirsagnir geta verið skemmtilegar.
Við höfðum stuðlana í farteskinu, Íslendingar, þegar við tókum hér land í árdaga, bæði í ljóðum og sögum, og sumt varð að orðskviðum. Enn eru landsmenn að yrkja með stuðlum, einir þjóða, og vonandi deyr sú íþrótt aldrei þótt á móti blási með íslenskuna að öðru leyti

Við höfðum stuðlana í farteskinu, Íslendingar, þegar við tókum hér land í árdaga, bæði í ljóðum og sögum, og sumt varð að orðskviðum.

Enn eru landsmenn að yrkja með stuðlum, einir þjóða, og vonandi deyr sú íþrótt aldrei þótt á móti blási með íslenskuna að öðru leyti.

Og það er margur skáld þótt hann yrki ekki, eins og fyrirsagnahöfundar blaðanna sem stundum bregða á leik og stuðla vitandi vits eða ekki.

Það er góð tilbreytni að sjá vel heppnaða stuðlaða fyrirsögn í blaði eins og „Blússandi bílasala“, hún er stutt, stuðluð og segir allt sem segja þarf.

Þessi er líka lýsandi: „Dagsverkið var drjúgt“.

En stundum er gengið of langt og ofstuðlun verður, eins og í þessari fyrirsögn frá því fyrir nokkrum árum: „Meiri kröfur til kunnáttu kennara“.

Oft kemur orðalagið greinilega frá viðmælanda blaðamannsins eins og „Víti til varnaðar þeim sem á eftir koma“.

Í guðanna bænum ekki fara að stuðla út og suður, en gaman að sjá eina og eina rúsínu í pylsuenda daglegra fyrirsagna.

Sunnlendingur