Ríkisútvarpið Starfshópur sem skoðaði hvort breyta ætti umfangi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði klofnaði í afstöðu sinni til málsins.
Ríkisútvarpið Starfshópur sem skoðaði hvort breyta ætti umfangi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði klofnaði í afstöðu sinni til málsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Starfshópur sem menningar- og viðskiptaráðherra skipaði til að skoða m.a. hvort breyta ætti umfangi auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins, RÚV, klofnaði í afstöðu sinni til álitaefnisins. Af þremur nefndarmönnum leggja tveir til að dregið verði úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði, en sá þriðji var því mótfallinn. Segir meirihlutinn að sú alvarlega staða sem uppi sé á fjölmiðlamarkaði geti leitt til enn frekari fækkunar einkerekinna fjölmiðla með alvarlegum afleiðingum og að ekki verði lengur unað við fyrirferð RÚV á auglýsinga- og samkeppnismarkaði. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem ráðuneytið birti í gær.

Umsvif RÚV skekki markaðinn

Tillögur meirihlutans eru í þremur liðum sem ganga mislangt. Tillaga A mælir fyrir um að RÚV fari af auglýsingamarkaði frá og með næstu áramótum og keppi þ.a.l. ekki lengur við einkarekna miðla, enda hafi umsvif RÚV skekkt markaðinn í langan tíma. Á móti kemur tillaga um að RÚV verði bætt tekjutap vegna þessa með því að hækka útvarpsgjald, en hækkunin gangi til baka að hluta til.

Jafnframt falli niður fjárstyrkir til einkarekinna fjölmiðla, að staðbundnum fjölmiðlum á landsbyggðinni undanskildum.

Þótt lagt sé til að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði verði áfram heimilt að birta í miðlinum auglýsingar og tilkynningar, svo sem tilkynningar frá almannavörnum, stjórnvöldum og skattayfirvöldum.

Endurskoðaður rekstur RÚV og þjónustusamningur

Lagt er til að rekstur RÚV verði endurskoðaður og hann aðlagaður til framtíðar að breyttu tekjumódeli. Jafnframt verði þjónustusamningur RÚV endurskoðaður og samræmdur stöðu RÚV án auglýsingatekna og þeim sparnaði sem að sé stefnt.

Þá er lagt til að ríkissjóður yfirtaki lífeyrisskuldbindingar RÚV sem standa nú í 3.679 milljónum króna og eru tilkomnar áður en RÚV var breytt í opinbert hlutafélag. Í dag er greiðslubyrðin af skuldabréfi til tryggingar llífeyrisgreiðslum 178 milljónir á ári, en lokagjalddagi er 2057.

Tillaga A gengur lengst hinna þriggja tillagna og fallist ráðherra ekki á hana, leggja tvímenningarnir til að tillögur B og C verði skoðaðar. Í tillögu B er lagður til skertur tími til birtingar auglýsinga og fari úr 8 mínútum á klukkustund í fjórar og hið sama gildi í útvarpi.

Í tillögu C er lagt bann við hefðbundinni markaðssetningu og auglýsingasölu, en í staðinn geti viðskiptavinir pantað tíma fyrir auglýsingar sínar sjálfir.

Vilja afnema heimild til sölu skjáauglýsinga

Með báðum tillögunum, B og C, fylgir að ríkið taki ekki yfir lífeyrisskuldbindingar RÚV og að heimild til sölu skjáauglýsinga verði afnumin, kostun verði bönnuð, fríbirtingar auglýsinga verði bannaðar og ekki verði heimilt að kaupa stór auglýsingahólf fram í tímann. Kostanir skiluðu RÚV tekjum upp á 270 milljónir alls árin 2022 og 2023. Þá er lagt til að samningar um þjónustulaun til handa auglýsingastofum verði bannaðir og að áfram verði bannaðar árangurstengdar greiðslur til starfsmanna auglýsingasölu RÚV. Þá er lagt til að bannað verði að gera að forsendu viðskipta að auglýsendur kaupi stærri auglýsingapakka með fleiri birtingum og að viðskiptaborð auglýsinga í sjónvarpi og útvarpi verði tengd saman. Þá á að meta hvort tekjutap vegna þessa verði slíkt að ástæða verði til að hækka útvarpsgjald.

Að tillögu meirihlutans standa Karl Garðarsson sem ráðherra skipaði formann nefndarinnar og Óttar Guðjónsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Óvissa fyrir markaðinn

Steindór Dan Jensen, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytisins, stóð að áliti minnihlutans. Þar segir m.a. að lítið sé hægt að fullyrða um afleiðingar þess fyrir markaðinn í heild ef RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði, um það ríki óvissa. Mikilvægt sé að öll sjónarmið verði höfð í huga þegar slík ákvörðun sé tekin og hvort samfélagslegur ávinningur yrði af slíkri breytingu. Ákvörðun þar um sé pólitísk og hana þurfi að taka á viðeigandi vettvangi.

Bent er á í minnihlutaálitinu að þeir opinberu aðilar sem mætt hafi á fund starfshópsins hafi ekki treyst sér til að mæla með brotthvarfi RÚV af auglýsingamarkaði. Það er sagt eiga við um Fjölmiðlanefnd sem ítrekaði fyrri afstöðu. Þá segir að Samkeppniseftirlitið hafi ekki treyst sér til þess að standa við fyrri afstöðu sína í málinu sem fram kom í áliti eftirlitsins árið 2008 „um samkeppnishömlur sem stafa af stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði fyrir sölu auglýsinga í ljósvakamiðlum“.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson