Sæmundur Stefánsson sendi mér póst, sagði að „nýlega var sá ágæti Arthúr Björgvin Bollason meðal viðmælenda í sjónvarpsþætti. Þá varð til þessi limra“: Orðmargur stundum er Arthúr Bjé er iðkar hann fróðleik að láta í té, fæst lítt um þá…

Sæmundur Stefánsson sendi mér póst, sagði að „nýlega var sá ágæti Arthúr Björgvin Bollason meðal viðmælenda í sjónvarpsþætti. Þá varð til þessi limra“:

Orðmargur stundum er Arthúr Bjé

er iðkar hann fróðleik að láta í té,

fæst lítt um þá lensku

að lepja upp ensku

eða að stagast á ef það sé.

Ólafur Stefánsson yrkir limru á Boðnarmiði:

Hagmælska er heldur betur þreytandi,

hugsanlega væri því leitandi,

að jafn hæfu tauti,

með hendur í skauti,

að breyttu auðvitað breytandi.

Hallmundur Guðmundsson yrkir Kanaríljóð á Degi 22:

Léttur til fóta með forna kennd,

ég fór í bæinn og leit yfir sviðið.

Sannfærðist strax er leit ég lend

að lengur ei mér; er fært um Gullna hliðið.

Dagbjartur Dagbjartsson skrifar: „Vegna þess hvernig umræðan hefur þróast um hin ýmsu málefni þykir mér við hæfi að rifja upp þessa gömlu klásúlu. Ekki frá því að hún sé í nokkru gildi enn.

Hafið þið nokkurntíma velt því fyrir ykkur hvað það er merkilegt að flest það fólk sem er manni sammála í einhverjum deilumálum er vel gefið og víðsýnt skynsemdarfólk en þeir sem eru ósammála eru að mestu leytir þröngsýnir, illa gefnir þverplankar?? Alveg merkilegt“.

Ég álít þá andlega lasna

og upplagt að geta þess hér,

flesta þá endemis asna

sem ekki eru sammála mér.

Það er vorhugur í Hafsteini Reykjalín Jóhannessyni:

Vind og regni verð að hlíða,

vil að þau sín efni heit.

Segja vor á vængjum bíða,

vermi bráðum hverja sveit.

Jón Jens Kristjánsson segir frá því að „langstökkvari lenti nærri því á hrífu á HM í frjálsum. Andi af Hallgr. P.“:

Í langstökki loftið klýfur

líkastur eldflaug þá

koma karlar með hrífur

klappandi sandinn á

uns gneypir af gryfjubakka

greiðlega snúa frá

Herranum þöglir þakka

að þar var enginn með ljá.

Öfugmælavísan:

Hland og aska er hent í graut,

hreint fer verst á drósum,

innst í kirkju oft er naut,

en ölturu sjást í fjósum.