Sveifla Geirmundur og Helga hafa sungið saman í 35 ár.
Sveifla Geirmundur og Helga hafa sungið saman í 35 ár.
Í tilefni 80 ára afmælis skagfirska tónlistarmannsins Geirmundar Valtýssonar 13. apríl skipulagði Dægurflugan ehf. tónleika honum til heiðurs klukkan 20.00 í Hörpu 6. apríl, þar sem úrval söngvara og hljóðfæraleikara flytur vinsælustu lög hans

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í tilefni 80 ára afmælis skagfirska tónlistarmannsins Geirmundar Valtýssonar 13. apríl skipulagði Dægurflugan ehf. tónleika honum til heiðurs klukkan 20.00 í Hörpu 6. apríl, þar sem úrval söngvara og hljóðfæraleikara flytur vinsælustu lög hans. Vegna mikillar eftirspurnar verða aukatónleikar klukkan 16.00 sama dag. „Ég átti alls ekki von á þessum tónleikum, enda hef ég þurft að skipuleggja alla mína tónleika sjálfur,“ segir Geirmundur, sem verður á meðal áheyrenda í Eldborg. „Þetta er óvenjulegt en ég get ekki svarað því hvernig það verður að vera ekki á sviðinu fyrr en eftir tónleikana.“

Ari Jónsson, Elísabet Ormslev, Grétar Örvarsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Helga Möller, Kristján Gíslason, Óskar Pétursson, Sigríður Beinteinsdóttir og Sverrir Bergmann sjá um sönginn. Þau hafa öll nema Elísabet, dóttir Helgu, og Grétar sungið með Geirmundi og ekkert þeirra oftar en Helga.

Samvinna í 35 ár

Leiðir Geirmundar og Helgu lágu fyrst saman í aðdraganda plötunnar Í syngjandi sveiflu, sem kom út 1989, en þar syngur Helga meðal annars lagið „Ort í sandinn“, eina af helstu perlum Geirmundar. „Ort í sandinn er lag sem er greipt í þjóðarsálina,“ segir Helga. „Úr varð mjög skemmtileg samvinna okkar Geirmundar og við erum miklir vinir.“ Hún hafi tekið þátt í flestum tónleikum hans, sungið inn á jólaplötuna hans og svo framvegis. „Hann hefur alltaf samband við mig þegar eitthvað stendur til og mér þykir vænt um vinskap okkar.“

Helga segir að Geirmundur hafi alltaf kunnað best við sig á bak við píanóið. „Hann fílaði sig ekkert sérstaklega vel þegar hann átti að vera einn fyrir framan hljómsveitina og dansa en gerði það engu að síður óaðfinnanlega. Ég var svo litla tryllitækið með honum og það að vera með Geirmundi hefur verið eitt af mínum helstu verkefnum. Ég er mjög stolt af því og að hafa flutt tónlist hans.“

Í áratugi var Geirmundur óþreytandi við að þeytast á milli landshorna og spila fyrir landsmenn. „Það sem hann gerði var alltaf 100% og á böllum mátti ganga að því sem vísu að það yrði stuð og dansað fram á rauða nótt án þess að taka pásu,“ segir Helga. „Það var og er Geirmundur.“

Magnús Kjartansson stjórnar hljómsveitinni á tónleikunum, en hann og Vilhjálmur Guðjónsson hafa komið að öllum útsetningum laga Geirmundar og spilað með honum. „Þeir hafa gert lögin með honum og átt sinn þátt í að lögin hafa náð mjög sterkum tökum á þjóðinni,“ segir Helga. Fólk hafi haft samband við sig og þótt leitt að tónleikarnir yrðu ekki líka fyrir norðan og kona í Dölunum hafi viljað að tónleikarnir yrðu teknir upp og sýndir í sjónvarpi, því þeir væru einstakur viðburður. „Geirmundur má heldur betur vera stoltur af ævistarfi sínu á tónlistarsviðinu, hann gefst aldrei upp og á skilið að fá þessa tónleika.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson