Viðureign Íslands og Ísraels í umspilinu um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í fótbolta á eftir að vera mikið til umræðu næstu daga og vikur. Liðin eigast við í Búdapest fimmtudaginn 21. mars og sigurliðið mætir Úkraínu eða Bosníu fimm dögum síðar …

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Viðureign Íslands og Ísraels í umspilinu um sæti í lokakeppni Evrópumóts karla í fótbolta á eftir að vera mikið til umræðu næstu daga og vikur.

Liðin eigast við í Búdapest fimmtudaginn 21. mars og sigurliðið mætir Úkraínu eða Bosníu fimm dögum síðar í hreinum úrslitaleik um farseðlana til Þýskalands í sumar.

Vangaveltur voru uppi um hvort Ísland myndi yfirleitt vilja mæta Ísrael vegna stríðsástandsins á Gaza, á svipaðan hátt og umræður hafa verið í kringum þátttöku Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva síðustu daga.

KSÍ hefur gefið út að leikurinn muni fara fram, enda sé það í verkahring UEFA að taka ákvörðun um hvort Ísrael sé með í Evrópukeppni eða ekki.

KSÍ hafnaði því hins vegar alfarið að leikurinn færi fram í Ísrael, sem er á heimavelli í viðureigninni samkvæmt drættinum.

Ef íslenska liðið tæki upp á því að mæta ekki til leiks í Búdapest myndi það kosta þungar refsingar, jafnvel útilokun frá mótum á vegum UEFA.

Þá yrði um leið Ísrael færður úrslitaleikur gegn Úkraínu eða Bosníu um sæti á EM á silfurfati. Væri það sanngjarnt? Um þetta má endalaust þrefa fram og til baka.

En þessi staða vekur spurningar. Rússar eru í banni hjá UEFA síðan þeir réðust inn í Úkraínu og það þykir sjálfsagt.

Þarf ekki UEFA að draga skýrar línur í svona málum? Koma á vinnureglum um að þjóðir sem standi í hernaði eins og Rússar og Ísraelsmenn um þessar mundir taki ekki þátt í mótum á vegum sambandsins á meðan stríðsástand varir? Þá vita allir hvar þeir standa.