Real Madrid Carlo Ancelotti er með samning til ársins 2026.
Real Madrid Carlo Ancelotti er með samning til ársins 2026. — AFP/Odd Andersen
Saksóknaraembættið í Madríd fer fram á að Ítalinn Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, sæti fjögurra ára og níu mánaða fangelsisvist fyrir meint skattsvik. Spænska íþróttablaðið Mundo Deportivo greinir frá því að Ancelotti sé gefið að sök að hafa svikið undan skatti árin 2014 og 2015

Saksóknaraembættið í Madríd fer fram á að Ítalinn Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madríd, sæti fjögurra ára og níu mánaða fangelsisvist fyrir meint skattsvik.

Spænska íþróttablaðið Mundo Deportivo greinir frá því að Ancelotti sé gefið að sök að hafa svikið undan skatti árin 2014 og 2015. Hann var stjóri Real Madríd 2013 til 2015 og tók aftur við liðinu árið 2021 en hann framlengdi um áramótin samning sinn við félagið til sumarsins 2026.

Upphæðin sem Ancelotti er sagður hafa skotið undan nemur rétt rúmlega einni milljón evra, tæplega 159 milljónum íslenskra króna.

Málið lýtur að því að Ítalinn, sem var skráður með lögheimili í Madríd á þessum tíma, hafi á skattaskýrslu sinni einungis gefið upp laun sem Real Madríd greiddi honum en látið hjá líða að gefa upp aukalegar greiðslur, þar með talið bónusa og ýmsar greiðslur tengdar ímyndarrétti sínum.

Ancelotti er 64 ára gamall og gríðarlega sigursæll, en hann hefur unnið Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum með Real Madrid og AC Milan ásamt því að verða spænskur, ítalskur, franskur, þýskur og enskur meistari.