Svartur sauður Hermt er að svarti sauðurinn bindi ekki alltaf bagga sína sömu hnútum og annað fé hér um slóðir.
Svartur sauður Hermt er að svarti sauðurinn bindi ekki alltaf bagga sína sömu hnútum og annað fé hér um slóðir. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1952 „Surtla fer fram af klettabrún og niður klettabelti, sem ég hafði ekki ímyndað mér að væri fært nema fljúgandi fugli.“ Jón Kristgeirsson fjármaður.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Einhver harðgerðasta og fótfráasta sauðkind, sem almenningur þessa lands hefur heyrt getið um, var án efa Herdísarvíkur-Surtla, eins og hún var nefnd, sem veturinn 1951-52 var eina sauðkindin á öllum Reykjanesskaga.

„Hafði hún gert yfirmönnum fjárskiptanna heitt í hamsi, að lagðar höfðu verið 2000 krónur til höfuðs henni, lifandi eða dauðri,“ mátti lesa í Morgunblaðinu 2. september 1952. Mæðiveiki í sauðfé hafði orðið vart á Reykjanesskaga og ákveðið var að skera allt sauðfé á svæðinu haustið 1951 og flytja þangað nýtt fé árið eftir. En ein kind komst undan, téð Surtla frá Herdísarvík, eign Hlínar Johnson, förunautar Einars Benediktssonar skálds síðasta áratug ævi hans.

Allan veturinn og fram á haust komst Surtla ætíð undan en fjölmargir leiðangrar voru gerðir út í því augnamiði að handsama hana. Reyndist hún ljónstygg og fór hiklaust kletta og klungur sem hvorki menn né hundar treystu sér yfir. Olli þetta mönnum áhyggjum, einkum eftir að styttast fór í að nýja féð kæmi á svæðið. Þjóðin fylgdist agndofa með eftirförinni og báðu margir Surtlu griða, enda benti fátt í fari hinnar spræku kindar til mæðuveiki. Ekki var á það hlustað, reglur eru reglur.

Margir höfðu svitnað

Grípum aftur niður í Moggann: „Mörgum sinnum hefur Surtlu á þessu ári verið veitt aðför og margir fótfráir sauðfjárleitarmenn hafa svitnað í viðureign við hina harðgerðu sauðkind. — Alltaf hefur Surtla borið hærri hlut, en í einni eftirförinni náðist lamb hennar.“

Eftir að fjárupphæðin hafði verið lögð til höfuðs Surtlu, fjölgaði þeim, er að henni leituðu. Eftir hádegi laugardaginn 30. ágúst fóru m.a. fjórir menn, bræðurnir Hákon, Hallgrímur og Jón Kristgeirssynir, sem allir voru þaulvanir fjármenn, ásamt Óskari Ólafssyni brunaverði og hugðust reyna að ná Surtlu á lífi. Jón lýsti glímunni í samtali við Morgunblaðið.

Þeir óku Krýsuvíkurveginn allt til þess, er þeir komu að mæðiveikigirðingu nokkurri vestan Herdísarvíkur. Þar hófu þeir gönguna upp með hraunjaðrinum og leituðu ummerkja eftir sauðfé. Er þeir höfðu gengið nokkuð á aðra klukkustund, fundu þeir slík merki. Tókst þeim að rekja för eftir sauðkind meðfram hraunjaðri á svonefndar Brúnir, sem eru háar og snarbrattar, en frá þeim er alllangur spölur fram að sjó.

Á Brúnunum dreifðu þeir félagar sér og héldu í austurátt. Jón gekk á brúninni og er þeir höfðu skammt gengið, kom hann auga á Surtlu sem stóð á klettasyllu alllangt neðan brúnarinnar.

„Auðséð var fljótt,“ sagði Jón, „að hún hafði orðið okkar vör. Og skyndilega tók hún sprettinn niður klettabeltið.“

Hallgrímur fór á eftir henni niður, en Jón, Hákon og Óskar fylgdu henni eftir uppi á Brúnunum. Var farið allgeyst.

Litlu síðar heyrðu þeir félagar, að stúlka ein hrópaði frá veginum, að Surtla hefði snúið við og héldi upp klettana að baki þeim félögum upp á Brúnunum. Kom þá til kasta Jóns og Hákonar að elta hana og komust þeir félagar eftir langan sprett og harðan fyrir hana með því að hlaupa yfir hraunin, en Surtla hafði sveigt fyrir þau.

Stefndi Surtla nú aftur að Brúnunum, en þar hagar þannig til, að ókleifir klettar eru þar á köflum en á milli er kleift.

Eins og fuglinn fljúgandi

„Skipti það engum togum,“ sagði Jón, „að Surtla fer fram af klettabrún og niður klettabelti, sem ég hafði ekki ímyndað mér að væri fært nema fljúgandi fugli. Í klettunum stanzaði hún um stund.“

Litlu seinna hélt Surtla enn af stað og hljóp alveg niður og stefndi í austur. Hallgrímur hélt á eftir henni og komst um síðir fyrir hana og hélt hún aftur upp í klettana, en þar var illt að greina hana vegna litar hennar. Hallgrímur hafði hins vegar séð á henni þreytumerki, því Surtla var farin að reyna að fela sig í gjótum og lautum. En í klettunum fékk hún gott næði.

Er hér er komið sögu, ber að geta annars leitarflokks, sem fór frá Reykjavík nokkru siðar. Í þeim hópi voru Sigurgeir Stefánsson, Kristinn Hannesson og Jóhannes Guðmundsson. Þeir leituðu Surtlu lengi dags, en voru nokkru vestar en fjórmenningarnir. Voru þeir á heimleið að bíl sínum, er þeir sáu í kíki sínum hvar menn voru á hlaupum upp á Brúnunum.

„Í kíki okkar sáum við á Surtlu,“ sagði Kristinn við Morgunblaðið, „inn á milli kletta. Við Sigurgeir fórum þá upp í klettana. Ég að vestanverðu við Surtlu, Sigurgelr að austanverðu. Er við höfðum komið okkur fyrir skaut Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Hún tók á rás vestur eftir, sneri við austur á bóginn og lenti i fang Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti.“

Þannig lauk ævi þessarar harðgerðu svörtu sauðkindar.

Hefði verið á móti lögum

Margar raddir höfðu heyrst um það að handtaka bæri Surtlu lifandi og gefa henni líf, þar sem hún væri þá eina sauðkindin sem lifði fjárskiptin. Þeirra á meðal voru fjórmenningarnir sem elt höfðu hana tímunum saman aðeins búnir göngustöfum.

En lög höfðu verið sett um niðurskurð alls fjár á Reykjanesi vegna mæðiveikinnar og þar við sat. Þannig að þó Surtla hefði náðst lifandi hefði hennar aðeins beðið dauðinn. Annað hefði verið á móti lögum.

Í niðurlagi umfjöllunar Morgunblaðsins sagði: „Margar góðar sauðkindurnar, sem æskilegt hefði verið að láta lifa, hafa orðið bráð niðurskurðarlaganna. En þessum lögum verður að fylgja, þó að okkur finnist þau, þegar skepnur eins og Surtla eru annars vegar, vera miskunnarlaus og ströng.“