Noregur Frá vinstri eru Ole Karlsen frá Háskólanum á Hamri sem ræddi við Gyrði um ljóðlistina á Nordisk Poesifestival um síðustu helgi, skáldið í miðju og Gunhild Kværness sem túlkaði og las ljóð Gyrðis á norsku er til hægri.
Noregur Frá vinstri eru Ole Karlsen frá Háskólanum á Hamri sem ræddi við Gyrði um ljóðlistina á Nordisk Poesifestival um síðustu helgi, skáldið í miðju og Gunhild Kværness sem túlkaði og las ljóð Gyrðis á norsku er til hægri. — Ljósmynd/Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það verður að viðurkennast að þessar viðtökur hafa eiginlega komið okkur í opna skjöldu en þær eru sannarlega ánægjulegar,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, útgefandi í Dimmu. Ekkert lát er á vinsældum nýjustu ljóðabóka Gyrðis Elíassonar, ljóðatvennunnar Dulstirni/Meðan glerið sefur

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það verður að viðurkennast að þessar viðtökur hafa eiginlega komið okkur í opna skjöldu en þær eru sannarlega ánægjulegar,“ segir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, útgefandi í Dimmu. Ekkert lát er á vinsældum nýjustu ljóðabóka Gyrðis Elíassonar, ljóðatvennunnar Dulstirni/Meðan glerið sefur.

Eins og Morgunblaðið hefur fjallað um að undanförnu komu bækurnar út á síðasta ári og slógu í gegn. Þær voru hins vegar ófáanlegar fyrir jólin og alls seldust 1.100 bækur í þeirri atrennu. Penninn/Eymundsson pantaði í kjölfarið 500 eintök og eru þau nú við það að klárast, rétt um mánuði eftir að þau komu í verslanir. Aðalsteinn Ásberg sá í hvað stefndi og pantaði fljótlega 300 eintök til viðbótar sem eru væntanleg í verslanir nú í vikulokin. Þar með hafa verið prentuð um tvö þúsund eintök af ljóðatvennunni. Fáheyrt er að slíkt upplag hafi verið prentað af íslenskum ljóðabókum og þegar horft er til þess að um ljóðatvennu er að ræða, samtals fjögur þúsund bækur, eru bækur Gyrðis allt í einu komnar í flokk með vinsælum skáldsögum.

Söluhæstu bækur skáldsins

„Þetta er ótrúleg tala. Vonandi þýðir þetta bara að fólk er farið að kunna betur að meta ljóð en oft áður,“ segir Aðalsteinn í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að algengt upplag sem prentað er af íslenskum ljóðabókum sé í kringum 3-400 bækur.

Sjálfur man Aðalsteinn ekki eftir viðlíka vinsældum ljóðabóka. Vera kunni að einhver verka Þórarins Eldjárns hafi selst mjög vel fyrr á árum og ljóð Tómasar Guðmundssonar og Davíðs Stefánssonar hafi auðvitað notið mikilla vinsælda á sinni tíð.

Aðalsteinn kveðst ennfremur aðeins vita til þess að einu sinni áður hafi ljóðabækur Gyrðis farið í endurprentun. Það var árið 2009 þegar hann gaf út bækurnar Nokkur almenn orð um kulnun sólar og Milli trjánna. Öruggt er að þetta séu söluhæstu bækur skáldsins.

„Gyrðir er auðvitað alsæll með þennan áhuga á bókunum. Það er gaman að fá þessa athygli án þess að þurfa að flengjast um allt og berja sér á brjóst,“ segir útgefandinn en þessi mikla sigurganga er kannski enn ánægjulegri í ljósi þess að útlitið var ekki mjög bjart þegar Gyrðir fékk ekki krónu við úthlutun starfslauna listamanna á síðasta ári og var svo í kjölfarið hunsaður þegar kom að tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Mikil upphefð í Noregi

Aðalsteinn segir um þetta að vissulega sé alltaf sérstaklega ánægjulegt þegar verk hljóta tilnefningu til verðlauna. Það segi þó ekkert nema að einhver ákveðin dómnefnd hafi þennan eða hinn smekkinn. „Enginn á nú vísa tilnefningu en nútíminn er mjög ginnkeyptur fyrir þessu, að veifa verðlaunum. Í þessu tilfelli má segja að höfnunin hafi snúist höfundi í hag,“ segir hann.

Útgefandinn kveðst sömuleiðis skynja vaxandi áhuga á ljóðum Gyrðis erlendis. Þeir eru nýkomnir frá Noregi þar sem þeir sóttu ljóðahátíðina Nordisk Poesifestival í Hamar í Noregi en sú hátíð er til heiðurs norska skáldinu Rolf Jacobsen. Þetta er annað árið sem þeir sækja umrædda hátíð en í fyrra var Gyrðir skáld hátíðarinnar og Aðalsteinn var sjálfur meðal þátttakenda sem boðið var til leiks. Að þessu sinni fóru þeir út af því tilefni að væntanleg er fræðileg bók um ljóðagerð Gyrðis þar í landi.

„Það er ekki algengt með íslensk skáld að fjallað sé um þau fræðilega annars staðar en hér heima,“ segir Aðalsteinn en ljóð Gyrðis koma ennfremur út í Danmörku og Þýskalandi á næstunni.