Laugardalshöll Helsta sérkenni byggingarinnar er hið einkennandi steinsteypta hálfkúluþak sem hallar aflíðandi til suðurs, segir m.a. í umsögn.
Laugardalshöll Helsta sérkenni byggingarinnar er hið einkennandi steinsteypta hálfkúluþak sem hallar aflíðandi til suðurs, segir m.a. í umsögn. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Mikilvægt er að gæta þess við hönnun nýju þjóðarhallarinnar í Laugardal að hún beri ekki hina eldri Laugardalshöll ofurliði. Þetta kemur fram í umsögn Borgarsögusafns vegna nýs deiliskipulags fyrir Laugardal.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Mikilvægt er að gæta þess við hönnun nýju þjóðarhallarinnar í Laugardal að hún beri ekki hina eldri Laugardalshöll ofurliði. Þetta kemur fram í umsögn Borgarsögusafns vegna nýs deiliskipulags fyrir Laugardal.

Hin nýja þjóðarhöll verður sunnan Laugardalshallarinnar, nálægt Suðurlandsbraut. Hún verður vettvangur innanhússíþrótta og stórviðburða eins og tónleika og sýninga.

Borgarsögusafn gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við staðsetningu þjóðarhallarinnar en vegna stærðar sinnar og mikillar nálægðar við Laugardalshöllina muni hún hafa í för með sér miklar breytingar á umhverfi eldri byggingarinnar.

Merkt samvinnuverkefni

Mikilvægt sé því að fram komi í skilmálum við hönnun og útfærslu hinnar nýju byggingar að tekið skuli tillit til hönnunar og ásýndar hinnar eldri byggingar, sem sé mikilvæg í íslenskri byggingarlista-, menningar- og íþróttasögu.

Laugardalshöll, sem var byggð á árunum 1958-1965, er talin merkt samvinnuverk arkitektanna Gísla Halldórssonar og Skarphéðins Jóhannssonar og helsta núverandi kennileiti á svæðinu. Í byggðakönnun Borgarsögusafns fyrir borgarhluta 4, Laugardal, er lagt til að Laugardalshöll verði hverfisvernduð í skipulagi sem bygging með hátt varðveislugildi.

Helsta sérkenni byggingarinnar sé hið einkennandi steinsteypta hálfkúluþak sem hallar aflíðandi til suðurs, en lögun þess er einkum sýnileg úr suðvestri, frá Suðurlandsbraut, þeim megin sem gert er ráð fyrir hinni nýju þjóðarhöll. Mikilvægt sé að Laugardalshöllin muni áfram geta notið sín sem kennileiti með hátt byggingarlistalegt gildi.

Í umsögn Minjastofnunar Íslands er tekið undir með Borgarsögusafni að Laugardalshöll sé mikilvæg í íslenskri byggingarlista-, menningar- og íþróttasögu. Mikilvægt sé að við hönnun og útfærslu hinnar nýju byggingar verði tekið tillit til ásýndar Laugardalshallar.

Nýtt deiliskipulag var samþykkt í umhverfis- og skipulagssviði 28. febrúar og síðan vísað til borgarráðs.

Fram kemur í skipulagslýsingunni að gert sé ráð fyrir að aðalgólf Laugardalshallar, frjálsíþróttahallar og þjóðarhallar verði öll á sama kóta. Vegna aðstæðna mun þjóðarhöllin grafast að hluta til inn í hæðarmun frá Laugardalshöll upp að samgöngustíg norðan Suðurlandsbrautar.

Vega skal og meta möguleika á að tengja aðkomuleið að höllinni með brú yfir samgöngustígana. Heimilt er að útfæra tengibyggingu mill hallanna þriggja þannig að þak hennar nýtist sem útisvæði. Hámarkshæð þjóðarhallar er 21 metri yfir aðalgólfum íþróttahallanna.

Byggingarreitur þjóðarhallar fer yfir 140 bílastæði aftan við Laugardalshöll og Frjálsíþróttahöll. Ekki er gert ráð fyrir að bæta þau stæði upp með nýjum stæðum annars staðar á lóðinni. „Fellur það að hugmyndum um að draga úr bílaumferð í Laugardal og leggja auknar áherslur á vistvæna samgöngumáta. Borgarlínustöðin gegnir þar lykilhlutverki,“ segir í skipulagslýsingunni.

Tekur 8.000 manns í sæti

Hin nýja þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir verður mikil bygging, um 19.000 fermetrar að stærð. Samkvæmt frumathugun er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleikum.

Í byrjun þessa árs stofnuðu ríki og Reykjavíkurborg félag sem mun standa að byggingu hússins. Félagið heitir Þjóðarhöll ehf. Fyrsta verk félagsins verður að efna til forvals og samkeppni um hönnun og byggingu þjóðarhallarinnar.