Daði Kristjánsson
Daði Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nettó innflæði í kauphallarsjóði í Bandaríkjunum sem fjárfesta í rafmyntinni bitcoin er 8,6 milljarðar bandaríkjadala frá því að verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti slíka sjóði 10. janúar síðastliðinn

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Nettó innflæði í kauphallarsjóði í Bandaríkjunum sem fjárfesta í rafmyntinni bitcoin er 8,6 milljarðar bandaríkjadala frá því að verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti slíka sjóði 10. janúar síðastliðinn.

Daði Kristjánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Visku Digital Assets, segir að innflæðið í sjóðina hafi verið vonum framar og með ákvörðuninni hafi aðgengi fjárfesta að bitcoin aukist verulega.

„Þetta eru ótrúlegar tölur og segja má að með samþykki kauphallasjóðanna hafi bitcoin verið skráð á markað. Fjárfesting í rafmyntum er nú orðin aðgengileg í gegnum hefðbundna fjármálakerfið. Við horfum á þetta þannig að þetta sé rétt að byrja,“ segir Daði.

Hann segir að þessi mikli árangur sjáist í verðþróun bitcoin en verðið á rafmyntinni hækkaði um tæplega 44 prósent í febrúar eftir að hafa sveiflast mikið í mánuðinum á undan.

„Það má í raun segja að með þessu skrefi sem stigið var í janúar hafi rafmyntageirinn verið tengdur við hefðbundna fjármálageirann. Það hefur haft mikil áhrif á eftirspurnina eftir rafmyntum eins og tölur sýna. Bitcoin-kauphallarsjóðir eru nú helmingur af stærð kauphallarsjóða með gull en þeir voru settir á laggirnar árið 2004.“

Aðgengið verði enn meira

Bitcoin-helmingun (e. halving) mun eiga sér stað í apríl á þessu ári en það er atburður sem á sér stað á fjögurra ára fresti og hefur sögulega séð haft jákvæð áhrif á verðþróun bitcoin sökum minna framboðs í kerfinu.

„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir rafmyntum úr öllum áttum, ekki bara tengd kauphallarsjóðunum. Helmingunin verður stór viðburður en með henni mun framboð af nýjum bitcoin fara úr 900 bitcoin á dag yfir í 450 bitcoin á dag.“

BlackRock og Fidelity hafa sótt um leyfi fyrir því að koma á fót ethereum-kauphallarsjóði en ethereum er næststærsta rafmynt heims. Daði segir að von sé á svari frá bandaríska verðbréfaeftirlitinu í maí hvað varðar þær umsóknir.

Áhuginn hér á landi aukist

Daði segir að þeir hjá Visku finni fyrir auknum áhuga á þessum eignarflokki hér á landi, einkum á undanförnum vikum. Viska sé með yfir 60 sjóðfélaga og sjóðurinn þeirra yfir fjórir millljarðar að stærð.

„Umræðan um rafmyntir hér á landi hefur aukist mikið. En samt sem áður eru margir sem ekki átta sig á því hvað er að gerast í þessum geira, skilja það ekki til hlítar og telja rafmyntir vera eignarflokk á jaðrinum. Fólk þarf að opna augun og skoða staðreyndir,“ segir Daði og bætir við að þar sem aðgengið úti í heimi sé að verða meira sé aðeins tímaspursmál hvenær það verður meira hér á landi.

„Það er staðreynd að stærstu eignastýringarhús í heimi eru að taka þátt í þessum geira og á einhverjum tímapunkti munu íslensk fjármálafyrirtæki ekki geta varið það að taka ekki þátt líka,“ segir Daði að lokum.

Rafmyntir

Þann 10. janúar síðastliðinn samþykkti verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna kauphallarsjóði sem fjárfesta í rafmyntum.

Nettó innflæði í kauphallarsjóði í Bandaríkjunum sem fjárfesta í rafmyntinni bitcoin er 8,6 milljarðar bandaríkjadala.

Fjármálastofnanir erlendis farnar að horfa meira til bitcoin sem eignaflokks.

Framkvæmdastjóri Visku Digital Assets segir að áhugi hér á landi sé að aukast.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir