Ekki er útilokað að rannsóknardeild lögreglunnar muni leita aðstoðar hjá lögreglunni í Víetnam við rannsókn í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir þar sem grunur leikur á að nokkrir tugir hafi verið þolendur mansals

Viðar Guðjónsson

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Ekki er útilokað að rannsóknardeild lögreglunnar muni leita aðstoðar hjá lögreglunni í Víetnam við rannsókn í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir þar sem grunur leikur á að nokkrir tugir hafi verið þolendur mansals.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknardeild lögreglu.

Þrír karlar og þrjár konur voru í gær úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald. Eru þau íslenskir ríkisborgarar af víetnömskum uppruna. Tveir voru einnig handteknir en ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim.

Grímur segir að meintir brotaþolar séu bæði tengdir fjölskylduböndum sem og einstæðingar. Þá eru sumir hinna handteknu tengdir fjölskylduböndum. Hann útilokar ekki að fleiri verði handteknir síðar, en ljóst sé að málið sé flókið í rannsókn og að ræða þurfi við töluverðan fjölda fólks vegna þess.

Lögreglan gerði húsleitir á 25 stöðum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði, Keflavík og á Akureyri á þriðjudag. Stór hluti starfseminnar þar sem húsleitir voru gerðar tengist félögum í eigu Davíðs Viðarssonar, sem einnig er þekktur undir nafninu Quang Le. Starfsemi félaga í eigu Davíðs teygir sig víða en hann er m.a. eigandi Wok On og Wok On Mathöll. Einnig á hann félag sem rekur Kastala Guesthouse og Reykjavík Downtown Hotel auk veitingastaðanna Pho Vietnamese.

Hluti af rannsókninni var aðgerð sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur framkvæmdi í lok september á síðasta ári í Sóltúni. Þar var nokkrum tonnum af matvælum, sem fundust á matvælalager í Sóltúni 20, fargað. Grunur leikur á að fólk hafi dvalið á matvælalagernum. Félag í eigu Davíðs, Vy-þrif, var með húsnæðið sem matvælalagerinn fannst í á leigu.

Miklar sveiflur hafa verið í afkomu fyrirtækja í eigu Davíðs. Þannig hafa félög hans skilað tuga milljóna króna tapi eitt árið en það næsta skilað tuga milljóna króna hagnaði.