Í lit Stella segir allt hafa breyst úr svarthvítu í lit eftir að hún var greind með ADHD.
Í lit Stella segir allt hafa breyst úr svarthvítu í lit eftir að hún var greind með ADHD. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Stella Rún Steinþórsdóttir fékk ADHD-greiningu 32 ára gömul, sem hún segir vera mjög algengt á meðal kvenna. Í kjölfarið fann hún fyrir skorti á upplýsingum um stelpur og konur sem greinast og tók málin í sínar eigin hendur

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Stella Rún Steinþórsdóttir fékk ADHD-greiningu 32 ára gömul, sem hún segir vera mjög algengt á meðal kvenna. Í kjölfarið fann hún fyrir skorti á upplýsingum um stelpur og konur sem greinast og tók málin í sínar eigin hendur. Nýlega fagnaði hún, ásamt tveimur öðrum, opnun heimasíðunnar Týndu stelpurnar.

„Það er týpískt fyrir konur að fá greiningu um þrítugsaldurinn. Ég hafði upplifað lengi að berja höfðinu í steininn, að hefja verkefni sem ég kláraði ekki, að taka flugið og falla. Mér leið eins og ég væri gjörsamlega ómögulegur þjóðfélagsþegn,“ segir Stella í viðtali í Ísland vaknar.

„Svo fæ ég þessa greiningu. Þarf svo að bíða eftir tíma hjá geðlækni, var heppin því það tók ekki nema átta mánuði. Eftir samtal skrifar hann upp á lyf fyrir mig og það breytti gríðarlega miklu. Það breyttist allt úr svarthvítu í lit.“

Hún segir birtingarmyndir ADHD á meðal karla og kvenna vera mjög ólíkar, konur beini oft einkennum inn á við og karlmenn út á við. „Hjá strákum getur þetta komið út sem hreyfiofvirkni, hvatvísi og fyrirferð en þunglyndi og kvíði hjá stelpum.“

Skortur á upplýsingum

Verkefnið Sara með ADHD hófst í háskólanum, þegar þrjár stelpur voru settar saman í hóp og skipað að finna lausn á samfélagslegum vanda. „Við komumst að því að við vorum allar með ADHD og fengum greiningu á fullorðinsárum. Í hópnum er til dæmis Sara, sem er teiknarinn okkar og skapar allt myndefni. Hún hafði verið með draum í maganum að myndskreyta barnabók, ég hef sjálf unnið með texta og skrifað sögur svo að það var það sem við ætluðum okkur að gera í upphafi,“ útskýrir Stella.

„Svo tókum við þátt í viðskiptahraðli á vegum KLAK. Þar vex hugmyndin og við áttuðum okkur á því að við vildum gera alhliða verkfærakistu fyrir stelpur og konur með ADHD og þeirra nánasta umhverfi. Það sem er að gerast núna er að við höfum sett í loftið fræðslu- og skemmtivef með mikið af upplýsingum og skemmtilegu efni. Við ætlum okkur að vera með aðgengilegt efni því það er lítið til af því núna.“

Hún segir oft erfitt að vera foreldri í þessari stöðu sem ætli að setjast niður og reyna að fóta sig á veraldarvefnum. „Við fundum að það var mikill skortur á upplýsingum, svo að við sjáum fyrir okkur að þetta geti vaxið.“

Í upphafi munu þær einblína á konur og stelpur með ADHD og segir Stella að það halli á þær. „Við viljum að allir skilji, hafi vitneskju og þekkingu. Ég hef átt erfitt með neikvæðu umræðuna í kringum greiningar en samt ætlum við ekki að gera neitt fyrir neinn nema það sé greining til staðar.“

Þetta er nokkuð sem hún upplifði sjálf.

„Kerfið er ekki að grípa þennan hóp, það er fjögurra ára bið eftir fullorðinsgreiningu og löng bið fyrir börn líka. Ég veit af fenginni reynslu að lyfjagjöf hjálpaði mér.“

Vefurinn tyndustelpurnar.is hefur verið opnaður og fögnuðu þær opnuninni vel.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Stellu á K100.is.