Salvör Jónsdóttir
Salvör Jónsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með öflugum matvælarannsóknum getur Ísland skipað sér í fremstu röð ríkja í sjálfbærri framleiðslu hágæðamatvæla, bæði til sjávar og sveita.

Oddur Már Gunnarsson, Salvör Jónsdóttir

Innlend matvælaframleiðsla skiptir þjóðina miklu máli og skapar þjóðarbúinu verðmæti. Með öflugum matvælarannsóknum getur Ísland skipað sér í fremstu röð ríkja í sjálfbærri framleiðslu hágæða matvæla, bæði til sjávar og sveita. Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnisstöðu og gæði íslenskra matvæla, enda er matvælaiðnaður í stöðugri og
örri þróun og stuðningur Matís
við atvinnulífið er mikilvægur þáttur í að viðhalda samkeppnisstöðunni.

Frá stofnun hefur Matís ohf. miðlað rannsóknum og þekkingu úr vísindasamfélaginu yfir í matvælaiðnaðinn, þar sem þekkingin er síðan nýtt til að auka verðmæti afurða og efla íslenska matvælaframleiðslu. Rannsóknir Matís gegna lykilhlutverki í framþróun íslenskrar matvælaframleiðslu og mynda brú á milli vísinda og atvinnulífs sem tengir rannsóknir og nýsköpun við þarfir atvinnuveganna. Ný tækni og þekking í tengslum við geymsluþol, kælingu, umbúðir og flutning matvæla hafa aukið verðmæti afurða og á sama tíma hefur nýtingin á hráefni stóraukist.

Óhætt er að segja að þarna séu áhrif Matís langt frá því að vera á allra vitorði, enda vekur árangur oft meiri athygli en vinnan sem að baki honum liggur. Flest þekkjum við þó afraksturinn af störfum Matís, svo sem þann stórkostlega árangur sem náðst hefur í verðmætasköpun og bættri nýtingu íslensks sjávarfangs.

Sem dæmi má nefna þá miklu verðmætaaukningu sem orðið hefur í þorskvinnslu á Íslandi. Á síðustu áratugum hafa verðmæti heildaraflans tvöfaldast þrátt fyrir að aflinn hafi minnkað um helming í tonnum. Þessi gífurlega verðmætaaukning hefur fengist með betri nýtingu lífauðlinda og hráefna, kæli- og framleiðsluferlum, umbúðum og flutningum. Rannsóknir Matís gegndu mikilvægu hlutverki í þessari farsælu vegferð.

Samfélagslegur ávinningur þessarar vinnu er ótvíræður, ekki aðeins í hreinni verðmætasköpun, heldur hefur orðið til ómetanleg þekking á sviði matvælavísinda í landinu ásamt verðmætum gagnasöfnum um íslensk hráefni og matvælaframleiðslu. Þannig hefur Matís verið í samstarfi við fjölda nýsköpunarfyrirtækja sem hafa haft mikil áhrif á iðnaðinn og atvinnulífið, til dæmis Kerecis og fjölmörg fyrirtæki í Sjávarklasanum svo eitthvað sé nefnt.

Í ljósi reynslu sjávarútvegsins má sjá tækifæri í að vinna áfram að þróun framleiðslu og fullnýtingu landbúnaðarafurða á arðbæran hátt. Með auknu samstarfi við hagaðila má samnýta krafta í öflugri sókn til nýsköpunar, aukins framboðs, geymsluþols og gæða afurða. Einnig mætti nýta innlenda endurnýjanlega orkugjafa enn betur til hagkvæmrar framleiðslu og þróunar á afurðum í landbúnaði og fiskeldi.

Matís hefur verið í fremstu röð í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem leitast við að mæta tækifærum og áskorunum sem fylgja fyrirsjáanlegri uppbyggingu hringrásarhagkerfis og þróun nýrra próteingjafa. Matís er í samstarfi við yfir 100 innlend fyrirtæki um allt land og myndar þannig öflugt dreifikerfi fyrir þekkingu og miðlun rannsókna um landið. Um þessar mundir er Matís auk þess í samstarfi við 534 aðila í 45 löndum og í gegnum slíkt samstarf fæst verðmæt þekking sem skilar sér inn í atvinnulífið hér á landi. Þá hafa alls 32 doktorsnemar unnið lokaverkefni sín hjá Matís, sem sýnir sterka tengingu við vísindasamfélagið. Þessir nýdoktorar færa nýjar og frjóar hugmyndir inn í iðnaðinn og stuðla þar að áframhaldandi tækniþróun og nýsköpun. Samstarf Matís, íslenskra fyrirtækja, stjórnvalda og háskólanna hefur skapað gott orðspor og góða ímynd íslensks matvælaiðnaðar. Með þessari þýðingarmiklu tengingu á milli vísinda og atvinnulífs er að hægt að auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu og auka alþjóðlega samkeppnishæfni enn frekar.

Fólksfjölgun fylgir aukin þörf fyrir matvæli en ljóst er að hráefni til hefðbundinnar matvælaframleiðslu eru ekki óendanleg. Því er bætt nýting hráefna auk nýsköpunar í framleiðslu óhjákvæmileg. Ef við viljum halda áfram að framleiða matvæli til eigin neyslu og taka þátt í að efla matvælaframleiðslu alþjóðlega þurfum við að viðhalda þeim tengslum á milli rannsókna og iðnaðar sem Matís hefur byggt upp. Þessi tengsl eru því ekki aðeins mikilvæg fyrir núverandi framleiðslu, heldur leggja þau grunninn að því hvernig við munum framleiða og neyta matvæla í framtíðinni.

Oddur er forstjóri Matís. Salvör er stjórnarformaður Matís.