Hætt Nikki Haley ávarpar stuðningsmenn sína í Suður-Karólínu í gær.
Hætt Nikki Haley ávarpar stuðningsmenn sína í Suður-Karólínu í gær. — Getty Images/AFP/Anna Moneymaker
Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, lýsti því yfir í gær að hún væri hætt baráttu fyrir útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Er þá orðið ljóst að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Donald Trump,…

Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, lýsti því yfir í gær að hún væri hætt baráttu fyrir útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Er þá orðið ljóst að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, og Donald Trump, fyrverandi forseti, munu berjast um forsetaembættið en forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum í nóvember.

Verður þetta í fyrsta skiptið frá árinu 1956 sem sömu mennirnir verða í kjöri í tvennum forsetakosningum í röð. Kosið var á milli Bidens, sem er 81 árs, og Trumps, sem er 77 ára, fyrir fjórum árum og þá hafði Biden betur.

Ákvörðun Haley kemur í kjölfar forkosninga sem fóru fram í 15 ríkjum á þriðjudag en þar vann Trump öruggan sigur í 14 ríkjum en Haley hafði betur í einu. Haley ávarpaði stuðningsmenn sína í Charleston í Suður-Karólínu og sagðist þar ekki sjá eftir því að hafa sóst eftir útnefningu Repúblikanaflokksins.

Haley lýsti ekki yfir stuðningi við Trump en sagðist óska honum velfarnaðar eins og hverjum þeim sem yrði forseti. Hún hvatti Trump jafnframt til að reyna að vinna stuðningsmenn hennar á sitt band. Í þeirra röðum eru einkum hófsamir repúblikanar og óháðir kjósendur.

„Það er nú undir Donald Trump komið að afla atkvæða hjá þeim í flokki okkar og utan hans sem hafa ekki stutt hann og ég vona að hann geri það,“ sagði Haley.

Biðla til stuðningsmanna

Bæði Biden og Trump hvöttu stuðningsmenn Haley í gær eftir yfirlýsingu hennar til að ganga í þeirra raðir. Biden sigraði í öllum forkosningum demókrata á þriðjudag nema einum og útnefning hans sem forsetaefni Demókrataflokksins er því formsatriði. Hann á þó á brattann að sækja kosningunum í nóvember, en samkvæmt nýlegum skoðakönnunum nýtur Trump ívið meiri stuðnings meðal bandarískra kjósenda, sem setja meðal annars fyrir sig aldur Bidens þótt Trump sé aðeins fjórum árum yngri.

En að sögn AFP-fréttaveitunnar eru einnig vísbendingar um að venjulegir kjósendur í ríkjum, sem kunna að ráða úrslitum í nóvember, geti ekki hugsað sér að kjósa Trump vegna ýmissa dóms- og hneykslismála sem hann hefur tengst.