Á heimleið Oddur Gretarsson gengur til liðs við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri að yfirstandandi tímabili loknu.
Á heimleið Oddur Gretarsson gengur til liðs við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri að yfirstandandi tímabili loknu. — Ljósmynd/Balingen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson er á heimleið eftir ellefu ár sem atvinnumaður í Þýskalandi en hann skrifaði í vikunni undir samning við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri. Oddur, sem er 33 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku árið 2013 og gekk til liðs við Emsdetten sem þá var nýliði í þýsku 1

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handboltamaðurinn Oddur Gretarsson er á heimleið eftir ellefu ár sem atvinnumaður í Þýskalandi en hann skrifaði í vikunni undir samning við uppeldisfélag sitt Þór á Akureyri.

Oddur, sem er 33 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku árið 2013 og gekk til liðs við Emsdetten sem þá var nýliði í þýsku 1. deildinni.

Hann lék með Emsdetten í fjögur ár áður en hann gekk til liðs við Balingen þar sem hann hefur leikið allar götur síðan en félagið situr sem stendur í neðsta sæti 1. deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

„Ég átti eitt ár eftir af samningnum mínum við Balingen og ég konan mín vorum aðeins byrjuð að ræða næstu skref hjá okkur,“ sagði Oddur í samtali við Morgunblaðið.

„Það hefur aðeins blundað í okkur, undanfarin þrjú ár, að flytja heim. Okkur hefur hins vegar liðið mjög vel hérna úti þannig að við höfum ekki verið tilbúin að kveðja strax. Þórsararnir heyrðu í mér og þá kviknaði þessi löngun að fara heim.

Ég átti gott samtal við forráðamenn Þórs og niðurstaðan varð sú að við ákváðum að yfirstandandi tímabil yrði mitt síðasta í Þýskalandi. Við erum mjög spennt að flytja heim á Akureyri. Ég hlakka mikið til að spila aftur fyrir Þór, mitt uppeldisfélag, og ég held að það sé rétt hjá mér að það eru komin einhver 18 ár síðan ég klæddist síðast Þórsbúningnum,“ sagði vinstri hornamaðurinn.

Horfir sáttur til baka

Akureyringurinn hefur verið í lykilhlutverki hjá Balingen undanfarin ár en hann er fimmti markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 62 mörk í 22 leikjum.

„Ég horfi mjög sáttur til baka á tíma minn í Þýskalandi. Ég sagði það áðan og segi það aftur að mér og okkur fjölskyldunni hefur liðið mjög vel hérna. Dætur mínar tvær þekkja ekkert annað en að búa í Þýskalandi. Balingen er frábær bær og hann hefur hentað okkur vel. Ég hef verið í stóru hlutverki hérna undanfarin ár og mér finnst ég hafa skilað mínu vel.

Ég er vel liðinn innan félagsins og þó það sé ýmislegt sem við munum sakna þá eru líka spennandi tímar framundan. Þetta var engin skyndiákvörðun. Okkur fannst þetta rétti tímapunkturinn fyrir okkur sem fjölskyldu að koma heim enda er maður ekkert að yngjast. Ég ætlaði mér alltaf að spila í nokkur ár heima, áður en skórnir færu á hilluna, og ég ætti að eiga nokkur góð ár eftir í handboltanum.“

Oddur lék með Akureyri, sameiginlegu liði KA og Þórs, í úrvalsdeildinni hér á landi áður en hann hélt út í atvinnumennsku en hann á nokkur tímabil að baki í bæði efstu og næstefstu deild Þýskalands með Emsdetten og Balingen.

Mælir með B-deildinni

„Emsdetten lék í 1. deildinni þegar ég kom hingað fyrst og stökkið var því bæði mikið og stórt. Á sama tíma var þetta frábær reynsla en ég hef vissulega farið mikið á milli deilda síðan ég hélt út í atvinnumennsku. Ég held að árin séu orðin sex í 1. deildinni og svo fimm í B-deildinni og þó það sé vissulega mikill munur á efstu og næstefstu deild er þýska B-deildin mjög sterk.

Maður hefur heyrt stór orð falla um B-deildina í gegnum tíðina en ég mæli hiklaust með því að ungir handboltamenn taki skrefið út og reyni fyrir sér í henni. Það eru margir leikir, jafnir leikir, og mikið um ferðalög. Þetta er deild sem herðir þig og þegar allt kemur til alls gerir það þig að betri leikmanni að spila í deildinni að mínu mati.“

Vill kveðja á góðan hátt

En hver er helsti munurinn á deildunum að mati Odds?

„Stærsti munurinn á deildunum er klárlega umgjörðin að mínu mati því B-deildin er mjög sterk. Vissulega er efsta deild Þýskalands mjög sterk, það segir sig sjálft, en áhuginn á handbolta í Þýskalandi er og hefur verið mjög mikill í langan tíma. Ætli maður eigi ekki eftir að sakna þess mest frá Þýskalandi, að spila í þessari umgjörð.

Í efstu deild er nánast undantekning ef það er ekki troðfullt á öllum leikjum og við erum að tala um mörg þúsund manns. Þú spilar fyrir framan fulla höll í hverri einustu viku og það gefur manni ótrúlega mikið sem íþróttamanni. Balingen er ekki í góðri stöðu eins og staðan er núna og ég ætla að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í efstu deild og kveðja félagið á sem besta mögulega hátt.“

Maður er aldrei sáttur

Oddur á að baki 30 A-landsleiki fyrir Ísland en hann lék síðast með landsliðinu á stórmóti á HM í Egyptalandi árið 2021.

„Auðvitað hefði maður viljað fá fleiri tækifæri með landsliðinu þegar maður var á hátindi ferilsins. Ég tel mig samt eiga nóg inni og ég er ekki á neinni niðurleið ennþá að mínu mati. Það var samt þannig, þegar ég var að toppa, að Guðjón Valur Sigurðsson var vinstri hornamaður númer eitt og svo vorum við nokkrir í baráttunni um sæti í hópnum. Það eru bara tveir vinstri hornamenn í landsliðinu og Ísland býr vel að því að eiga marga góða hornamenn þannig að samkeppnin var mjög hörð.

Ég fékk mín tækifæri með landsliðinu, tækifæri sem ég er mjög þakklátur fyrir, en það má ekki gleymast heldur að ég var mjög óheppinn með meiðsli. Ég sleit krossband í eitt skiptið og eftir HM í Egyptalandi árið 2021 þurfti ég að fara í aðgerð á hné sem hélt mér frá landsliðshópnum í tíu mánuði. Eftir það var landsliðsdraumurinn hálfpartinn farinn en í dag er ný kynslóð hornamanna að koma upp og það eru margir að berjast um stöðuna. Maður er aldrei sáttur en svo er líka spurning hvort ég sjálfur hefði ekki getað nýtt mín tækifæri betur.“

Vill taka þátt í uppbyggingu

Þórsarar leika sem stendur í 1. deildinni þar sem liðið er með 18 stig í fjórða sæti og er í harðri baráttu um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð þegar tveimur umferðum er ólokið.

„Auðvitað vonast maður til þess að Þórsararnir nái sínum markmiðum og komist upp um deild í vor. Sama hvað gerist þá mun ég leika með Þór á næstu leiktíð, hvort sem liðið verður í efstu eða næstefstu deild. Mitt markmið er fyrst og fremst að hjálpa uppeldisfélaginu mínu, innan sem utan vallar. Ákveðin uppbygging á sér stað innan félagsins og ég vil taka þátt í því.

Félagið horfir fram á veginn og til framtíðar. Það skiptir ekki öllu máli hvort liðið verði í úrvalsdeildinni eða 1. deildinni þegar þessi uppbygging á sér stað. Það voru einhver lið sem sýndu mér áhuga en valið stóð á milli þess að vera áfram úti eða fara í Þór. Við sáum það ekki fyrir okkur að búa í Reykjavík því hugurinn hefur alltaf leitað norður,“ bætti Oddur Gretarsson við í samtali við Morgunblaðið.