Í Eyjafjarðarsveit Kristinn, Rannveig og Joan við skógrækt á Hálsi.
Í Eyjafjarðarsveit Kristinn, Rannveig og Joan við skógrækt á Hálsi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristinn Arnþórsson er fæddur 7. mars 1939 í Bjarmastíg 11 á Akureyri. „Ég lék mér í Skátagilinu við Bjarmastíg sem var minn leikvöllur og undi mér vel með æskuvinum mínum. Þá kom líka til sögunnar stúlka að nafni Dóra Bernharðsdóttir til að passa snáðann

Kristinn Arnþórsson er fæddur 7. mars 1939 í Bjarmastíg 11 á Akureyri.

„Ég lék mér í Skátagilinu við Bjarmastíg sem var minn leikvöllur og undi mér vel með æskuvinum mínum. Þá kom líka til sögunnar stúlka að nafni Dóra Bernharðsdóttir til að passa snáðann. Hún gerði það vel og röggsamlega frá byrjun og hætti í raun aldrei. Síðustu æviár Dóru snerust hlutverkin við þegar ég tók að annast hana, en hún lést 2014. Dóra var alla tíð mikil vinkona fjölskyldu minnar.“

Þegar Kristinn ólst upp tíðkaðist að börn færu sumarlangt í sveit og fór Kristinn í sveit til heiðurshjónanna Þorgeirs Þórarinssonar (Dodda) og Ragnheiðar (Rögnu) Ólafsdóttur á Grásíðu í Kelduhverfi. Ferðin í sveitina var löng og erfið tveggja daga ferð. Það þurfti að fara með skipi frá Akureyri til Kópaskers fyrri daginn og næsta dag var farið með flutningabíl til Grásíðu, en í dag tekur þessi ferð um tvo tíma. „Ég naut mín alveg í botn á Grásíðu og var þar í fimm sumur og síðasta sumarið ráðinn sem vinnumaður.“

Fjölskyldan á Grásíðu varð að ævivinum Kristins og er elsta dóttir hans og Joan nefnd eftir Dodda. „Ég lít svo á að þriðjungur uppeldisins hafi verið hjá Dóru, þriðjungur á Grásíðu og þriðjungur hjá foreldrum mínum.“

Faðir Kristins stakk upp á að hann færi í nám í textílfræði. „Pabbi kom því í kring að ég fékk að ganga í öll störf á Verksmiðjunum árið áður til undirbúnings náminu. 1962 hélt ég svo utan til Huddersfield í Yorkshire í Bretlandi. Á fyrstu vikunum í Bretlandi kom einmanaleikinn aðeins til sögunnar og fór ég því í kirkju þar sem organistinn spilaði mikið af fallegum lögum og ég sat gjarnan eftir messu að hlusta meðan aðrir kirkjugestir fóru og fengu sér te. Mér var boðið af konu í söfnuðinum að fá mér með þeim, ég vissi ekki þá að þessi kona yrði síðar tengdamóðir mín. Í kirkjunni kynntist ég Joan og eftir síðustu próflok í tækniskólanum giftum við Joan okkur þarna árið 1965. Joan flutti með mér til Akureyrar, þar sem við höfum búið og alið okkar dætur síðan.“

Kristinn hóf störf í Gefjun, fyrst við hönnun á línum í fataefni við þokkalegan orðstír. Um 1970 varð hann framleiðslustjóri Gefjunar og átti alltaf mjög gott samstarf við verksmiðjustjórana, sem sumir urðu bestu vinir hans. Seinna á ferlinum fór hann að sjá um rekstur mats- og þvottastöðva ullar sem voru bæði á Akureyri og í Hveragerði.

Árið 1990 skipti Kristinn um vettvang og fór í starf eftirlitsmanns með ullarmati á landsvísu, þar sem hann heimsótti alla ullarmatsmenn landsins tvisvar á ári. Hluti af þessu starfi fólst líka í að heimsækja bændur til að útskýra leiðir til að bæta meðferð ullar og ullarmatið. „Í þessu starfi fékk ég með mér Guðmund Hallgrímsson á Hvanneyri, sem er frábær rúningsmaður og góður kennari.“ Samband við matsmenn var alltaf mjög gott og Kristinn á góðar minningar frá þessum tíma.

Þegar Kristinn og Joan fluttust til Akureyrar var Joan boðið í saumaklúbb eiginkvenna vina Kristins sem áttu líka erlendar eiginkonur. Sumar konurnar í klúbbnum voru utan úr sveit og eiginmenn þeirra keyrðu þær í bæinn og fóru í sund meðan þeir biðu. Á endanum vildu konurnar breyta fyrirkomulaginu, ákveðið var að allar færu í sund ásamt körlunum og hópurinn fengi sér svo kaffi saman á eftir. „Þessi félagsskapur gekk undir nafninu Sundklúbburinn og hittumst við vikulega í tugi ára með þessu fyrirkomulagi. Klúbburinn varð nánast eins og fjölskylda þar sem ættingjar kvennanna voru fjarri. Vinahópurinn hélt vel saman alla tíð og gerði margt sér til skemmtunar og allir hjálpuðust að ef eitthvað bjátaði á.“

Kristinn varð áhugasamur um skógrækt í kjölfar þess að Bússi bróðir hans fékk land á Hálsi í Eyjafirði til skógræktar. „Við bræðurnir settum þar niður nokkur þúsund plöntur sem eru orðnar myndarskógur í dag.“

Eftir vinnu við ull og við að sjá Dodda á Grásíðu þæfa sokka sem Ragna kona hans hafði prjónað kviknaði áhugi hans á að læra að þæfa í höndunum. „Ég var svo heppinn að komast í kynni við Inger Jensen, sem er algjör sérfræðingur í þæfingu, og hún kenndi mér vel. Við Inger unnum saman að þæfingu og úr því urðu ólíklegustu hlutir eins og skór, töskur, myndir og fleira.“

Fjölskylda

Eiginkona Kristins er Joan Lewis, f. 9.11. 1946 í Huddersfield, Yorkshire, Englandi. Foreldrar Joan voru Marjorie (Madge) og Lennard Lewis. Madge lést 1995 og Lennard lést 2010. Lennard var rafvirki og Madge húsmóðir.

Dætur Kristins og Joan eru 1) Þorgerður Patricia Kristinsdóttir, f. 19.5. 1968, hjúkrunarfræðingur á Akureyri. Börn hennar eru Baldur Ómar Brynjólfsson, f. 1992, Auður Ásta Brynjólfsdóttir, f. 1993, og Kári Brynjólfsson, f. 2006; 2) Rannveig Tanya Kristinsdóttir, f. 2.1. 1974, löggiltur endurskoðandi, býr í Reykjavík í sambúð með Birgi Rafni Þráinssyni. Börn hennar eru Kristinn Gísli Gíslason, f. 1999, og Bríet Emma Gísladóttir, f. 2001; 3) Hrafnhildur Fiona Kristinsdóttir, f. 22.2. 1975, grunnskólakennari, býr í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum, Hermanni Snorra Jónssyni. Börn þeirra eru Katrín Birna Hermannsdóttir, f. 1996, Salka Hermannsdóttir, f. 1999, og Sölvi Hermannsson, f. 2007.

Systkini Kristins: Jón Sveinbjörn Arnþórsson (Bússi), f. 3.11. 1931, d. 23.1. 2011, lengst af sölustjóri, auk þess sem hann stofnaði Iðnaðarsafnið á Akureyri, og Sigríður Arnþórsdóttir, f. 7.6. 1945, en hún býr á Grenivík með eiginmanni sínum, Jóni Þorsteinssyni.

Foreldrar Kristins voru Arnþór Þorsteinsson, f. 28.2. 1903, d. 31.1. 1972, fyrst sölustjóri Sambandsverksmiðjanna á Gleráreyrum á Akureyri, síðar verksmiðjustjóri Gefjunar, fæddur í Grófarseli í Jökulsárhlíð, og Guðbjörg Kristín Sveinbjarnardóttir, f. 8.2. 1910, d. 25.5. 1988, húsmóðir, fædd á Nikhóli í Mýrdal en var fóstruð þar sem foreldrar hennar fluttu búferlum til Kanada þegar hún var nýfædd.