Skáldið „Aðalheiður getur svo sannarlega skrifað,“ segir rýnir eftir lestur á ljóðabókinni Taugatrjágróður.
Skáldið „Aðalheiður getur svo sannarlega skrifað,“ segir rýnir eftir lestur á ljóðabókinni Taugatrjágróður. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóð Taugatrjágróður ★★★·· Eftir Aðalheiði Halldórsdóttur. Veröld, 2023. Innbundin, 77 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Í Taugatrjágróðri, sem er fyrsta ljóðabók Aðalheiðar Halldórsdóttur, fylgir lesandinn eftir flandri konu sem „klæjar óstjórnlega / í andann“; hún er rekin áfram af óræðu óþoli, eins og hún segir, óbærileika hið innra sem „leitar sér leiða út / líkt og gröftur í sári“. Þessi óbærileiki hið innra getur líka leitað leiða út í öskri, reiði eða með leiðindum, og „kláðinn er boðberi / hinnar djúpstæðu þarfar / fyrir hamskipti“. Þarfar fyrir breytingu og svör um lífið sem hún lifir.

Aðalheiður er dansari, hefur lengi dansað með Íslenska dansflokknum og hefur komið að mörgum sviðsuppfærslum sem dansari, leikkona, danshöfundur og höfundur sviðshreyfinga. Sú reynsla endurspeglast á vissan hátt í bókinni, sem er einn langur bálkur, brotinn upp með þögnum eða eyðum í flæðinu; hluti bálksins er settur upp sem eins konar samtöl konunnar – „hennar“ – við fólk sem verður á vegi hennar og er kallað bara „hann“ eða „kona“, eins og í verki skrifuðu fyrir svið, og það gæti verið áhugavert að heyra og sjá bálkinn fluttan með þeim hætti.

Í upphafi bókarinnar er því lýst hvar konan andar framan í mann og andar honum svo að sér, þar sem hann síðan hvílir í taugakerfi hennar. Hún er sögð bera fleiri slíkar byrðar og vera fyrir vikið þung á sér. Konan hittir annan mann úti í borginni og við faðmlag „andaði fisléttum ögnum hans / inn í taugakerfi sitt“ og er þá þungað af honum og öllum hinum, af byrðum sem angra og lesandinn finnur að hún vill losna undan. Og lesandinn fær að kynnast þreytunni, vanlíðan og óvissu sem konan glímir við og að lokum párar hún á krumpað blað orðsendingu til guðs og biður hann um greiða; hún sé hálfnuð með lífið „og fór fyrri hlutann ein / datt í hug að ferðast restina / með þér“, skrifar hún guði, og kveðst hafa þörf fyrir að endurfæðast miðaldra uppljómuð. – „Er það eitthvað sem mætti skoða?“ spyr hún þennan óræða guð, sem hún veit ekki hvort er til, og gengur svo hikandi af stað í leit að honum að athenda krumpað bréfið. Og klassísk leit að svarinu og tilganginum, ferðin sjálf, verður viðfangsefni ljóðabálksins.

Á flandrinu og í leit að lausn og létti er oft brugðið upp fínum myndum af ástandinu á konunni, sem á einum stað til dæmis er sögð taka „múlinn / máttleysislega / af hugsuninni / klappar henni þéttingsfast / sleppir lausri / leyfir að fljóta frjálsri“. Myndin nykrast reyndar undir lokin, hefði ekki mátt halda myndinni af hugsuninni sem hrossi sem tölti eða brokkaði í lokin frjáls? Og í textanum má finna skemmtilegar vísanir í samtímann og verk annarra, eins og þegar konan ræðir um lífsglímuna við mann sem segir „svo asskoti napurt að vera til“. Og hún svarar með vísun í rómað vídeóverk eftir Ragnar Kjartansson: „sorgin sigrar hamingjuna / sagði hann þarna / aftur / og aftur / og aftur“.

Samtölin og lýsingarnar á hugsununum eru mistætingslegar og þjóna sínu hlutverki á ferðalaginu, eins og konan segir meðvituð um á einum stað, að það geri sér gott að þvælast um hugsun viðmælanda um stund:

það er hvíld í því

að leyfa loftstraumum

hugsunar annarra

að þrífa með sína

í óvæntar áttir (48)

Undir lok ferðarinnar er konan farin að finna fyrir létti og áhugavert er að sjá hann í skrifum dansarans birtast í dansi, þótt guðinn sem leitað hefur verið finnist ekki endilega með beinum hætti.

Leit þessa lesara að tengingum við ljóðabálk Aðalheiðar tók óneitanlega tíma og þurfti nokkrar atrennur til. Þótt texti Taugatrjágróðurs sé fallega slípaður og vel hugsaður er hann engu að síður talsvert óræður á köflum, virtist líka hikandi í frásögn og formi og vildi ekki bjóða lesandanum upp í dans. En við einn lesturinn var sem ljóðmælandinn næði að anda kröftuglega inn í hugann og dyrnar opnuðust; ferðalagið sem beið varð þá býsna áhugavert. Þannig geta ljóðin verið, skilningur og tengingar inn í heim þeirra jafnvel háð stund, stað og einhvers konar dagsformi. Og Aðalheiður getur svo sannarlega skrifað, og klór ljóðmælanda hennar í andann reyndist vera mjög áhugavert.