Sýningin Frá vinstri: „Skrifstofan“, 2023, „Handavinna“, 2024, „Móðir og barn, gin og tónik“, 2023, „Bitur alsæla“, 2019, og „Alsnjóa“, 2024.
Sýningin Frá vinstri: „Skrifstofan“, 2023, „Handavinna“, 2024, „Móðir og barn, gin og tónik“, 2023, „Bitur alsæla“, 2019, og „Alsnjóa“, 2024. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
i8 Gallery, Tryggvagötu 16 Móðir og barn, gin og tónik ★★★★· Ragnar Kjartansson sýnir. Kynningartexti: Páll Haukur Björnsson. Sýningin stendur til 20. apríl 2024. Opið frá miðvikudegi til laugardags kl. 12–17.

Myndlist

Hlynur Helgason

Þegar komið er inn á sýningu Ragnars Kjartanssonar sem nú stendur yfir í i8 við Tryggvagötu blasa við litskrúðug málverk sem hengd eru á hefðbundinn hátt á veggi gallerísins. Þetta eru olíumálverk sem birta okkur sýn á hversdagsleika listamannsins. Þau bera með sér að vera máluð í vinnurýmum þar sem alls konar hlutir og myndir sem tengjast lífi listamannsins eru fyrirmyndin.

Málverkin á sýningunni eru þrettán alls, það elsta frá 2019 en hin nýlegri, frá þessu og síðasta ári. Þau sýna okkur öll það sem ætla mætti að bæri fyrir augu á vinnustofum listamanns. Þau eru þannig náttúruleg að sjá, en þó þannig að atriði eins og fjarvídd hafa verið aðlöguð til að þjóna myndbyggingu og áherslum málverksins. Þau eru máluð með flæðandi olíulitum, fjarvídd er einfölduð og breytt í þágu myndbyggingar og litir eru skærir, bjartir og nokkuð ýktir, en þó trúir veruleika.

Stíll málverkanna er síð-impressjónískur og má sjá hliðstæður þeirra í verkum málara frá því um aldamótin 1900. Margir málarar einbeittu sér á þeim tíma að því að nýta nánasta umhverfi sitt til að skoða möguleika myndsköpunar. Þar má meðal annarra nefna Paul Cézanne, Henri Matisse og Pierre Bonnard, sem unnu með liti og form- og fjarvíddarbjögun eins og Ragnar gerir nú. Áhrif þeirra vörðu lengi og málarar eins og Þorvaldur Skúlason leituðu í viðlíka tjáningarmáta í verkum sínum á millistríðsárunum. Enduróm þessara hugmynda má einnig sjá hjá síðari tíma málurum eins og David Hockney sem endurlífguðu fígúratíft málverk á sjöunda og áttunda áratugnum.

Þótt Ragnar sé þekktari fyrir margt annað en málverk — stórtækar innsetningar og gjörninga sem hann hefur framið í markverðum listasöfnum víða um heim — hefur hann alltaf leitað í málverkið inn á milli. Á Feneyjatvíæringnum árið 2009 nýtti hann sér málverk sem framgangsmáta — þar var áherslan þó á gjörninginn, athöfnina að gera málverk fremur en á verkin sjálf. Þar var það merkingarbært að „málarinn“ var í reynd amatör að beita aðferð sem honum var ekki töm. Meiri alvara var að baki vatnslitamyndum sem sýndu eyðileg og nöturleg tré árið 2011, þar sem Ragnar átti í samtali við tjáningarmáta sem tíðkaðist í upphafi nítjándu aldar. Í málverkaröð frá 2016 þar sem hús í Palestínu voru myndefnið nýtti Ragnar aðferðir impressjónista í olíumálverki til að koma til skila mannlegu umhverfi á átakasvæði.

Núverandi sýningu má þannig túlka sem enn eina tilraun til að skoða málverk sem miðil. Það er ljóst að í endurteknum tilraunum sínum til að nýta miðilinn hefur Ragnari farið fram. Hann nær í þessari sýningu góðum tökum á þeim tjáningarmáta sem hann hefur velið sér. Litanotkun, myndbygging og malerískar áherslur eru orðnar sterkari og markvissari. Stíll verkanna er á engan hátt frumlegur en Ragnar hefur skoðað fyrirmyndir sínar vel. Ef við viljum leita að frumleika í þessum verkum, þá fælist hann í yfirfærslunni, í því að rifja upp hugarfar og afstöðu til listar sem viðgekkst fyrir einni og hálfri öld og beita því í menningarlegu samhengi samtímans.

Elsta verkið á sýningunni, „Bitur alsæla“ frá 2019, er einhvers konar frjókorn sýningarinnar. Verkið er tilraun frá því fyrir fimm árum sem listamaðurinn tekur upp aftur og heldur áfram með fyrir þessa sýningu, útfærir á fjölbreyttan hátt. Sem fyrr segir hefur ferill Ragnars undanfarið einkennst af stórum erlendum verkefnum. Í kjölfar átakanlegra sviptinga í tengslum við sýningu Ragnars í Moskvu, sem lauk þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu, hefur hann unnið ötullega að því að koma listamönnum sem eru gagnrýnir á rússneskt stjórnarfar á framfæri. Því virðist sem þessi sýning sé að miklu leyti þankastrik í ferlinum. Hér hverfur listamaðurinn frá hinu stóra sviði, víkur burt frá ysnum og átökunum sem fylgja hinum alþjóðlega listheimi og lítur inn á við, í sitt hversdagslega umhverfi þar sem hann málar skýrar og einfaldar myndir umvafinn vinum. Hér er því greinilega verið að leita að vissri hugarró með því að líta sér nær.