[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Aðdragandinn er sá að ég átti fimmtugsafmæli í nóvember 2022 og ákvað þá að flýja land, ég var í smá miðaldrakrísu,“ segir Olga Eleonora Marcher Egonsdóttir fjármálastjóri, sem fljótt á litið gæti virst ósköp venjulegur íbúi við Leifsgötuna, enda búsett þar

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Aðdragandinn er sá að ég átti fimmtugsafmæli í nóvember 2022 og ákvað þá að flýja land, ég var í smá miðaldrakrísu,“ segir Olga Eleonora Marcher Egonsdóttir fjármálastjóri, sem fljótt á litið gæti virst ósköp venjulegur íbúi við Leifsgötuna, enda búsett þar.

Nýverið tók hún hins vegar þátt í hinu nafntogaða Búdapest-Bamakó-eyðimerkurralli ásamt kærastanum sínum, Benedikt Halldóri Halldórssyni, Bensa, tæknifræðingi hjá slökkviliðinu, og níu ára gamalli ættleiddri dóttur sinni, Emilíu Audrey Marcher, en hún er yngsti þátttakandinn frá upphafi rallsins.

Búdapest-Bamakó-rallið er 18 daga rallkeppni þar sem eknir eru um 9.000 kílómetrar frá ungversku höfuðborginni Búdapest, í gegnum Evrópu og niður til Marokkó, Máritaníu, Senegal, Gíneu og endað í Freetown í Síerra Leóne. Saga rallsins spannar um 20 ár og hóf það göngu sína árið 2005 með París-Dakar-rallið sem fyrirmynd og er meðal annars ekið um gamla Dakar-slóða.

Í grunninn er um góðgerðarrall að ræða og þátttaka heimil þeim sem tefla fram ökutækjum sem lögleg eru á venjulegum vegum. Þetta magnaða ævintýri lögðu þremenningarnir frá Íslandi á sig á gamalli Toyotu Land Cruiser.

Í áðurnefndum landflótta miðaldrakrísunnar hélt Olga til Afríku í heimsókn en þar féll hún gjörsamlega fyrir rallinu og ákvað að þetta yrði hún að upplifa. Gerðist það með þeim hætti sem nú verður lýst.

Haustið 2024? Ó, nei...

„Ég fór til Síerra Leóne til að heimsækja frænku mína og fjölskyldu hennar,“ segir Olga frá. Frænkan sú er engin önnur en Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Aurora Foundation-velgjörðasjóðsins, sem starfar þar með handverks- og listamönnum og kemur þeim í samband við íslenska hönnuði, en frá þessu sagði Regína nýlega í viðtali við mbl.is.

„Á meðan ég var í Freetown var fjórtánda Bamakó-rallið að koma í mark þar og ég fór niður á Lumley Beach Road þar sem lokamarkið var og hitti þar vinkonu Regínu sem var að taka þátt í rallinu. Þetta beit mig gjörsamlega og ég hugsaði með mér að þetta yrði ég að gera,“ segir Olga, sem hafði samband við Bensa á Messenger og spurði hann hvort þau ættu ekki taka þátt næst. „Og hann svaraði með einföldu „já“ innan 10 sekúndna,“ heldur Olga áfram og þar með voru örlög þeirra ráðin, rall haustið 2024.

Eða það héldu þau. Olga og Bensi skráðu sig og greiddu staðfestingargjald í janúar í fyrra. „Rallið er bara annað hvert ár þannig að ég gerði ráð fyrir að við færum ekkert fyrr en haustið 2024 en þegar Bensi fór að skoða þetta betur kom í ljós að rallið var í janúar 2024,“ segir Olga og kveður vægt áfall hafa fylgt þessari staðreynd. Það hafi þó jafnað sig fljótlega.

Færleikurinn lá þegar fyrir, 2006-árgerðin af Land Cruiser sem reynst hafði þeim Bensa traustur og góður ferðafélagi hér heima og því ekkert til fyrirstöðu að reyna hann við krefjandi aðstæður fimm Afríkuríkja.

„Hann hefur nú séð ýmislegt en er á besta aldri og mikill eðalbíll,“ segir Olga. Lögðust þau Bensi í að yfirfara gripinn í heild sinni, skipta um það sem skipta þurfti um og síðast en ekki síst að smíða innréttingu sem gerði þeim þremur kleift að sofa í bílnum ásamt því að vista þar mat og farangur til þriggja vikna.

„Bensi teiknaði þetta allt upp í AutoCad og horfði á ótal myndbönd á YouTube um hvernig svona lagað væri best að gera. Auðvitað var það allt miðað við tvo fullorðna en við urðum að koma stelpunni fyrir líka, sem var annað ævintýri, en þetta tókst,“ segir Olga.

Eðlilega er undirbúningur ærinn fyrir verkefni á borð við Búdapest-Bamakó-rallið og þurfti að hyggja að mörgu, svo sem varahlutum, fatnaði, næringu og lyfjum. „Við þurftum bókstaflega að hafa allt meðferðis sem við mögulega gætum þurft að nota í þessa átján daga,“ segir Olga.

Þá þurfti að fylla lyfjakassann af lyfjum við ýmsum óíslenskum kvillum auk þess að gangast undir allar nauðsynlegar bólusetningar. Maður skreppur ekki bara í 9.000 kílómetra akstur um tvær heimsálfur. „Við töluðum varla um neitt annað en rallið í þetta tæpa ár sem undirbúningurinn stóð yfir,“ rifjar Olga upp.

Óeirðir í Senegal

En hvað þarf til að fá að taka þátt í leikmannaralli, eða „amatöraralli“ á vondri íslensku – og það með níu ára gamalt barn sem þátttakanda. Skráir maður sig bara og mætir?

„Í rauninni,“ svarar Olga. „Við vorum að taka þátt í fimmtánda rallinu og þetta gengur svolítið út á að aðstoðin sé nánast engin, þetta er svona siglingafræði- og úthaldsögrun, dálítið eins og ratleikur,“ heldur hún áfram. Aðstandendur rallsins sjá um öll formlegheit á borð við vegabréfsáritanir og tryggingar svo að flest er með þægilegasta móti. Nafn rallsins, Búdapest-Bamakó, er þó alls ekki réttnefni eins og staðan er nú.

„Það ætti í raun að enda í Bamakó í Malí en vegna ástandsins þar undanfarin ár er ekki hægt að enda þar,“ útskýrir Olga. Því hafi verið ákveðið að færa lokamarkið til Freetown í Síerra Leóne. Ekki táknar það þó að allt hafi verið með friði og spekt á leiðinni. Öðru nær.

„Þegar við vorum um það bil að keyra inn í Senegal voru óeirðir þar af því að forsetinn hafði ákveðið að hætta við forsetakosningar og viku eftir að við komum til Síerra Leóne frá Gíneu var öllum landamærum Gíneu lokað eftir að forsetanum þar var steypt af stóli og herinn tók völdin,“ segir Olga. Hurð hafi því skollið nærri hælum.

Við tökum upp léttara hjal og Olga útskýrir hina fjóra keppnisflokka Búdapest-Bamakó-rallsins.

Í keppnisflokki eru þeir sem keppa á tíma, í ævintýraflokki fjórhjóladrifinna fara þátttakendur á vel útbúnum jeppum, þar voru Olga, Bensi og Audrey. Í götubílaflokki eru götubílar. Nema hvað? Í andaflokknum ef svo mætti segja, eða „Spirit“, er keppt um skemmtilegasta eða frumlegasta ökutækið, elsta bílinn, mestu drusluna, sjúkra- eða slökkviliðsbíla og listinn er ótæmandi. Þar á bara að vera gaman. Í keppnisflokki, þeim fyrstnefnda, eru líka bifhjól.

Bíllinn með skipi til Rotterdam

Olga segir góðgerðarhluta rallsins meðal annars ganga út á að flytja ýmsan nytsamlegan varning til íbúa svæðisins. „Til dæmis skóladót, lyf, fatnað og mat, einnig brimbretti fyrir skóla í Síerra Leóne sem kennir börnum að umgangast sjóinn og ýmislegt annað dót til íþróttaiðkunar. Talað er um að rallið komi með sem nemur 700 til 800 þúsund evrum til Vestur-Afríku í hvert skipti,“ segir Olga, en má kalla upphæðina umtalsverða, 104 til 120 milljónir íslenskra króna.

„Einn vinur okkar var til dæmis með um 400 kíló af dóti á toppnum á bílnum sínum sem hann gaf á leiðinni.“

Í upphafi ralls er ekið frá Búdapest sem fyrr segir, ferja er svo tekin til Marokkó á mismunandi stöðum í Evrópu, allt eftir því hvað þátttakendur velja. Hins vegar er leyfilegt að byrja rallið í Fez í Marokkó og kveður Olga nokkuð um að keppendur geri það, til dæmis fólk búsett í vesturhluta Evrópu.

„Það eru engin skipulögð stopp frá Búdapest þangað til í Fez í Marokkó, þar hittast allir,“ segir Olga af fyrirkomulaginu.

Þau fóru þá leiðina og hittu hópinn í Fez, að hluta til með það fyrir augum að stytta ferðina vegna dótturinnar ungu. Þau sendu bílinn með skipi til Rotterdam, sóttu hann þangað í desember og óku á tveimur dögum til Barselóna, sem Olga kveður hafa verið „ágætisrúnt“. Þaðan héldu þau heim til Íslands í bili.

Var svo haldið af stað á ný og flogið til Barselóna 25. janúar og voru íslensku keppendurnir mættir 28. janúar til Fez í Marokkó, þar sem keppendur söfnuðust saman. Fyrsta dagleið rallsins var svo ekin þaðan að morgni þess þrítugasta.

„Morgunfundir voru haldnir daglega og GPS-hnit fyrir þann dag gefin upp sem við hlóðum inn í tölvuna okkar. Við fengum svo eins konar fjársjóðsleitarkort með upplýsingum um hvað við ættum að gera á hverjum stað,“ útskýrir Olga, enda löngu klárt mál að Búdapest-Bamakó-rallið er allt annað en hefðbundinn rallakstur milli A og B.

Ekið um lögregluríki

Þarna bera keppendur skyldur sínar og verkefni á herðum en Olga útskýrir þó að þar sem þau voru ekki í keppnisflokki hafi þau mátt sleppa þeim aukaverkefnum sem þeim sýndist.

„Ég bjóst við því að þetta yrði bara halarófa þar sem 250 ökutæki voru skráð til leiks,“ segir Olga af einni fjölmargra staðreynda sem komu á óvart, „en suma dagana sáum við varla aðra þátttakendur, við gátum ekið í marga tíma án þess að sjá nokkra aðra. Suma daga fengum við bara gefinn upp einn punkt úti í eyðimörkinni og áttum að keyra þangað. Við vorum í byrjun nokkuð smeyk við utanvegaakstur, enda ekki vön því hérna heima, en svo fór maður fljótlega að átta sig á því hvernig þetta virkaði,“ segir hún af fyrstu dögunum.

„Við vorum að keyra í gegnum mikil lögregluríki og vorum oft stoppuð á leiðinni af alls konar „laganna vörðum“ sem vildu fá litlar gjafir frá okkur,“ segir Olga. „Oftast þóttumst við ekki skilja þá og keyrðum áfram. Í eitt skiptið kvartaði vörðurinn yfir því að hann væri með svo mikla tannpínu og bað okkur um verkjalyf. Við vorum með hjartamagnýl og ég rétti honum tvö spjöld. Aumingja karlinn, það gerði örugglega ekki mikið gagn,“ segir hún sposk.

Hlutverkum var misskipt í rallinu, segir Olga aðspurð. Bensi hafi setið undir stýri langstærstan hluta rallsins. „Honum líður betur í bílstjórasætinu og mér í farþegasætinu – og ég er líka betri leiðsögumaður,“ bætir Olga glettnislega við.

Verkaskiptingin hafi sem sagt verið góð og eðli málsins samkvæmt slapp Audrey alfarið við akstur, þrátt fyrir að teljast þó með sem keppandi. Hún fékk þó stundum að sitja fram í og taka við leiðsögninni, en verkefni hennar fólust þó einkum í að sjá um skemmtidagskrána og sagði stúlkan brandara og sögur auk þess að syngja við raust.

Hvernig skyldi þó hafa gengið að vera með níu ára gamalt barn í svo snúnu ferðalagi sem eyðimerkurralli í Afríku?

„Ég ákvað að ef eitthvert barn gæti þetta þá væri það hún Audrey,“ segir Olga af dótturinni og lætur það fylgja að aðstandendur rallsins og aðrir sem hafi tekið þátt hafi ekki mælt með þátttöku svo ungra barna. „Hún hefur komið með mér til yfir 20 landa og á að baki þrjár ferðir til Asíu og þrjár til Afríku. Auk þess erum við alltaf að slæpast um Ísland og Evrópu. Við byrjuðum að undirbúa hana andlega snemma og hún var mjög tilbúin í þetta ævintýri. Þetta gekk í raun mun betur en ég þorði að vona,“ viðurkennir móðirin.

Keppendur hittust oftast til næturgistingar og urðu fyrir valinu eyðimerkur, strendur, gamlar flugbrautir og aðrir staðir sem gátu tekið við slíkum fjölda. Sjaldnast var um nútímaþægindi á tjaldstöðunum að ræða, svo sem sturtu og salerni.

„Margir voru að forvitnast um hvernig klósettmálunum væri háttað,“ segir Olga. „Það eina í stöðunni var í raun að moka holu, gera stykkin sín, brenna klósettpappírinn og moka aftur yfir,“ útskýrir hún ferli sem fæstum Íslendingum er daglegt brauð.

Endamarkinu í Síerra Leóne var náð 12. febrúar, svo að rallið sjálft stóð í sléttar tvær vikur þótt ferðin hafi vitaskuld verið töluvert lengri í dögum og vikum talið. Fyrir þá sem óku alla leið frá Búdapest lengdist tímabilið sem því nemur.

Fyrsta sjokkið í Máritaníu

Blaðamanni leikur hugur á að vita hvernig gengið hafi að sofa í Land Cruiser-num gamla í afrískri eyðimörk og reyndist það hafa verið minna mál en margur hefði talið. „Einhvern veginn leið okkur alltaf vel í bílnum, við höfum sofið í honum uppi á hálendi Íslands í hörkufrosti og byl, í eyðimörk við núll gráðu hita og inni í regnskógi í 30 gráðum og því fylgdu engin vandræði. En við þurftum að sofa í ullarnærfötum og með sængur í eyðimörkinni, hitinn þar fer niður undir frostmark á næturnar,“ segir Olga.

Nokkra daga náðu þau ekki á náttstað fyrir myrkur en ekki er mælt með því að vera mikið á ferð akandi um niðdimmar nætur í Afríku. „Umferðin þarna er mjög erfið, það eru úlfaldar á veginum, fólk, ljóslaus mótorhjól, asnakerrur og asnar,“ útskýrir Olga og á með því síðasta ekki við ökuníðinga heldur dýrið góðkunna.

„Í Senegal og Gíneu voru líka svakalegar hraðahindranir á veginum sem voru algerlega ómerktar og fengum við að fljúga yfir nokkrar,“ segir hún.

Olga segir það hafa komið þeim Bensa á óvart hve auðvelt og þægilegt var að aka og ferðast um Marokkó. Ástandið hafi hins vegar breyst í einu vetfangi er komið var yfir til Máritaníu. „Þá kom í raun fyrsta sjokkið. Þarna keyrðum við 1.250 kílómetra langan veg sem var nánast bara bein lína og þegar komið var yfir til Máritaníu vorum við komin í grimmustu eyðimörkina,“ segir Olga.

Sandfokið hafi verið á pari við góðan skafrenning á Íslandi og fátt virkað sem skyldi. „Við fengum ekki símakort, gátum ekki tekið út úr hraðbönkum og vorum bara ekki með neitt. Þarna er í raun ekkert nema nokkur bedúínatjöld á stangli, það er nánast ekkert þarna,“ segir Olga frá en staðgóðar matarbirgðir frá Íslandi hafi bjargað ýmsu. Þau tóku nær allan mat með sér frá Íslandi og reyndist vel. Flestu má greinilega koma inn í einn Land Cruiser.

„Við vorum orðin mjög spennt að losna úr eyðimörkinni þegar henni sleppti en þá tók rauða rykið í Afríku við sem smýgur í gegnum allt, allt var rautt hjá okkur og hitinn svakalegur, vel yfir 30 gráður í Senegal og Gíneu og við ekki á loftkældum bíl – og ekki með ísskáp,“ klykkir Olga út, svo að vel má ímynda sér að þarna hafi reynt á þolinmæði Íslendinganna.

Ökutæki keppenda voru enda misupplögð fyrir þessar hremmingar og sumir duttu úr keppni fyrr en efni stóðu til. Biluðu fyrstu bílarnir fljótlega eftir ræs í Ungverjalandi og þannig gengu sögurnar alla leiðina til Síerra Leóne.

„Einn daginn þegar við vorum að keyra utanvega í Máritaníu, langt frá öllu, keyrðum við fram á Norðmenn með bilaðan bíl. Bremsubúnaðurinn hafði læst sér þannig að það var útilokað að við gætum dregið þá til byggða og við þurftum að skilja þá eftir, sem okkur þótti alveg hræðilegt,“ segir Olga.

Mælir með rallinu

Norðmennirnir voru þó vel vistaðir og með gervihnattasíma. „Í annað skipti í Gíneu keyrðum við fram á breska vini okkar og í það sinnið skipti Bensi um dempara og við drógum þá til byggða um 60 km leið.“

Sem fyrr segir var endamarkið að þessu sinni í Freetown í Síerra Leóne. Bensi, Audrey og Olga óku með viðhöfn gegnum lokamarkið með risastóran íslenskan fána og luku þar með keppni eftir ævintýralega för.

Þau dvöldu næstu ellefu dagana í Síerra Leóne hjá fyrrnefndri Regínu frænku og hefðu líklega margir kallað sig heimta úr helju. Svar Olgu kemur því töluvert flatt upp á blaðamann þegar hann spyr hvort þau hyggist reyna sig aftur við Búdapest-Bamakó-rallið.

„Okkur langar mikið að fara aftur en það er eiginlega tvennt sem berst um í mér. Ég myndi vilja taka þátt í keppnishópnum ef ég færi aftur og keppa á tíma, og þá barnlaus, en á hinn bóginn myndi ég líka vilja fara þessa ferð á miklu lengri tíma og skoða mig mun meira um á leiðinni því þetta eru svo ótrúlega mögnuð lönd sem við keyrðum gegnum og ótrúlega skemmtilegt svæði,“ segir Olga alvörugefin.

En myndi hún mæla með þessari eldskírn og torfæruævintýri fyrir spennusjúka Íslendinga sem eiga nothæfan bíl í verkefnið?

„Alveg klárlega,“ svarar hún um hæl, „þetta er engu líkt og epískt ævintýri, það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ heldur hún áfram og kveðst aðspurð vita að Íslendingar hafi áður keppt í rallinu. Íslenskt par hafi tekið þátt árið 2020 og svo skiljist henni að einn Íslendingur hafi farið sem hluti af erlendum hópi einhverjum árum áður.

Lýkur þar með frásögn Olgu Eleonoru Marcher Egonsdóttur fjármálahagfræðings af rallakstri þeirra Benedikts Halldórs Halldórssonar og Emilíu Audrey Marcher þvert yfir Sahara.

Áhugasamir Íslendingar gjöri svo vel og taki við keflinu.