Ásgerður Geirarðsdóttir fæddist í Stykkishólmi 10. október 1942. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Geirarður Siggeirsson, f. 9. janúar 1912, d. 15. janúar 1973, og Kristín Þorvaldsdóttir, f. 14. júlí 1920, d. 14. febrúar 2009. Systkini Ásgerðar voru þrjú: Valdís Gróa, f. 1945, d. 2016, Svanhildur, f. 1949, og Geirarður Haukur, f. 1951.
Ásgerður giftist þann 23. júní 1962 Sverri Sveinssyni, f. 27. júlí 1939, syni hjónanna Sveins Guðmundssonar og Kristínar Helgu Markúsdóttur. Synir Ásgerðar og Sverris eru: 1) Sveinn Helgi, f. 8. apríl 1963, maki Sigríður Sigurðardóttir. 2) Ásgeir, f. 8. maí 1969, maki Svanhildur Björk Sigfúsdóttir og eiga þau tvö börn, Ásgerði Ósk og Sverri. 3) Ragnar, f. 8. nóvember 1970, maki Sif Einarsdóttir og eiga þau þrjú börn, Auði, Geir, maki Bergþóra Hlín Sigurðardóttir, og Láru Kristínu.
Ásgerður fluttist ásamt foreldrum sínum til Reykjavíkur árið 1951, gekk í Melaskólann og síðar Kennaraskólann. Ásgerður kenndi við Hólabrekkuskóla og lengst af við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Ásgerður tók virkan þátt í starfi eiginmanns síns, sem var forstjóri Héðins, meðal annars sem gestgjafi. Árið 1972 gekk Ásgerður í Oddfellowregluna Rebekkustúku nr. 1 Bergþóru og var alla tíð mjög virk í starfsemi hennar. Ásgerður gegndi mörgum af æðstu embættum reglunnar og var sæmd æðsta heiðursmerki Oddfellowreglunnar á Íslandi. Ásgerður hafði yndi af útivist og hreyfingu alla tíð. Þau hjónin voru mjög samhent og stunduðu meðal annars skútusiglingar og ferðuðust saman víða um heim á síðustu árum.

Útför Ásgerðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. mars 2024, klukkan 13.

Komið er að kveðjustund. Elsku Ásgerður tengdamamma mín hefur kvatt þetta líf og nú þurfum við hin að venjast lífinu án hennar. Fastir liðir í tilverunni eins og daglegu símtölin eftir kvöldmat um hvernig við höfum það og hvort það liggi ekki örugglega vel á öllum. Svo um helgar voru símtölin tekin snemma morguns: Góðan daginn hljómaði alltaf jafn hressilega í símanum. Á sunnudögum um hádegisbil hringdi oft dyrabjallan og þá voru þau hjónin í bíltúr og vildu kíkja á afkomendurna. Hvar eru börnin? Börnin komu upp og kysstu ömmu sína. Svo var drukkinn kaffibolli en sjaldan eitthvað þegið með. Þegar við buðum þeim í kvöldmat þá kom hún alltaf með fínan blómvönd og hrósaði matnum með mikilli áherslu. Nú breytist þetta allt og við erum undarlega óundirbúin, því að þó að Ásgerður hafi verið 81 árs þá var hún eins og miklu yngri kona. Alltaf svo hraust, varð aldrei misdægurt og skildi ekkert ef aðrir fengu kvef. Þú hristir þetta af þér. Hún fylgdist vel með heilsunni, bæði hjá sér og Sverri tengdapabba og þegar hún byrjaði að veikjast í desember síðastliðnum var hún ákveðin í því að láta sér batna. Á aðfangadag bauð hún okkur í jólagraut eins og venjulega og sagði að sér liði ekki vel en ég er ákveðin í að láta mér batna. Hún bakaði þrjár sortir af jólasmákökum og keypti jólagjafir handa öllum, alveg eins og venjulega.

Ég hitti Ásgerði í fyrsta sinn fyrir 33 árum þegar við Ragnar vorum tvítug og nýorðin par og þá bjó fjölskyldan í Hrólfsskálavör 3 en þau hjónin byggðu húsið sjálf. Ég man eftir að hafa farið í margar veislur í þessu húsi, þar sem Ásgerður naut sín vel í gestgjafahlutverkinu. Henni fannst ekkert mál að halda þar fyrir okkur hjónin tvær af þremur skírnarveislum og sá að mestu leyti um allan undirbúning og umstang í kringum veislurnar. Mér fannst mjög merkilegt að fylgjast með undirbúningi fimmtugsafmælisins hennar, sem var fjölmenn veisla, þegar þær vinkonurnar undirbjuggu í sameiningu allt sem boðið var upp á, líka snitturnar. Ásgerður var mjög mikil fjölskyldukona og á hverju laugardagskvöldi klæddi hún sig upp á og eldaði fínan mat, iðulega var boðið upp á desert. Mamma hennar kom þá í mat og ég man hvað það var huggulegt þegar setið var í eldhúsinu með fordrykk á meðan lokahönd var lögð á matinn. Ásgerður var kennari í Mýrarhúsaskóla á þessum árum og mér fannst skemmtilegt að fylgjast með því að nemendur bönkuðu upp á með heimagerðar jólagjafir frá sér, til dæmis teiknaðar myndir, sem Ásgerður hengdi upp í eldhúsinu.

Ég held að besta og dýrmætasta gjöfin sem Ásgerður gaf sonum sínum og tengdadætrum hafi verið að vera þessi góða og sterka fyrirmynd sem hún var. En það voru þau hjónin saman sem voru allra besta fyrirmyndin. Ég hafði aldrei áður hitt svona góð og samhent hjón eins og þau Sverri og það var mjög dýrmætt fyrir mig, sem var skilnaðarbarn, að fá að upplifa þetta fullkomna traust sem ríkti milli þeirra hjóna og þessa miklu sátt og ást sem þau báru hvort til annars. Ég varð aldrei vör við að það félli styggðaryrði á milli þeirra öll þessi ár og maður fann sterkt að Sverrir var alltaf ánægður með sína konu og það var gagnkvæmt. Hún lagði það líka á sig að fylgja honum eftir í öllum hans tómstundum og til dæmis á árunum þegar þau áttu seglskútu þá fóru öll fríin þeirra í það að sigla saman, aðallega á Breiðafirði, í allskonar veðrum. Seinna byggðu þau sumarbústað sem var hugsaður sem hennar bústaður og þar naut hún sín best enda var þar, að hennar sögn, alltaf langbesta veðrið á landinu.

Ég dáðist alltaf að því hvað Ásgerður hafði gott sjálfstraust. Hún var alltaf ánægð með sitt. Hver tími hefur sinn sjarma, sagði hún. Mig langar að taka hana mér til fyrirmyndar að þessu leyti og vil hvetja börnin mín til þess líka. Hún var virkilega sátt við lífið sitt alla tíð. Núna í janúar, þegar veikindin komu í ljós, þá huggaði hún okkur og sagðist hafa átt gott líf. Ég hefði viljað að hún fengi meiri tíma hér en við verðum að muna að vera þakklát fyrir það sem við fengum. Guð blessi Ásgerði Geirarðsdóttur sem við munum alltaf sakna og elska.

Sif Einarsdóttir.