Bíltúrinn Álfrún Auður Bjarnadóttir, Birkir Örvarsson og Sigurbjörn Björnsson eru í hópi fjölda leikara í sýningunni Einu sinni á Eyrarbakka.
Bíltúrinn Álfrún Auður Bjarnadóttir, Birkir Örvarsson og Sigurbjörn Björnsson eru í hópi fjölda leikara í sýningunni Einu sinni á Eyrarbakka. — Ljósmyndir/Gísli Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýstofnað Leikfélag Eyrarbakka frumsýnir verkið Einu sinni á Eyrarbakka í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka klukkan 16 á morgun, laugardag, en síðan verða sýningar 16., 17., 21., 23. og 24. mars. „Við stofnuðum félagið í ágúst, sömdum…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Nýstofnað Leikfélag Eyrarbakka frumsýnir verkið Einu sinni á Eyrarbakka í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka klukkan 16 á morgun, laugardag, en síðan verða sýningar 16., 17., 21., 23. og 24. mars. „Við stofnuðum félagið í ágúst, sömdum leikþætti, sem byggðir eru á sögu Eyrarbakka, æfingar hófust í byrjun nóvember og miðasala hefur gengið vel,“ segir formaðurinn og verkefnastjórinn Sesselja Pálsdóttir, eða Sella Páls eins og hún er kölluð. Miðasala er á netinu (tix.is).

Sýningin er í nokkrum þáttum. Óhugur, leikþáttur Guðmundar Brynjólfssonar, lýsir lífi í alþýðuhúsi á Eyrarbakka um aldamótin 1900, þar sem konur og börn bíða í óvissu eftir sjósóknurum heimilisins.

Eyrarbakkasyrpa í fjórum þáttum er eftir Huldu Ólafsdóttur. Verk hennar fjallar um íbúa á Eyrarbakka frá miðri 19. öld og fram á 20. öld. Þar á meðal er leikgerð úr bók Eyrúnar Ingadóttur og rímaður bragur sem tengir þættina saman.

Myndbandið Lilja mín eftir Sellu Páls er um skáldað líf Lilju frá Eyrarbakka. Söngtextinn, sem Gerður Eðvarðsdóttir syngur, er eftir Sellu og lagið eftir Norbert Schultze.

Leikþátturinn Bíltúrinn eftir Sellu fjallar um ferð frá Eyrarbakka til Selfoss eftir að umferð yfir Ölfusárbrú stöðvaðist með þeim afleiðingum að mjólkurlaust varð á Eyrarbakka haustið 1944. Hulda leikstýrir Einu sinni á Eyrarbakka og eru söngtextar í samsöngslögum og í Eyrarbakkasyrpu eftir hana en tónlistin er eftir Birki Örvarsson.

„Þetta er gamanleikur,“ segir Sella um verk sín, en tónninn sé alvarlegri í hinum verkunum. „Þáttur Guðmundar er átakanlegur. Verk Huldu eru dramatísk en ekki án spaugs.“

Sella, Hulda og Hera Fjord stofnuðu leikfélagið, en með þeim í stjórn eru Birkir Örvarsson og Gerður Eðvarðsdóttir. Um 35 manns eru í félaginu og um 25 manns koma að sýningunni með einum eða öðrum hætti. „Allir eru búnir og boðnir að aðstoða okkur og við höfum til dæmis fengið lánaða búninga hjá Leikfélagi Selfoss og Leikfélagi Hveragerðis.“

Sella fór ung til Bandaríkjanna og var fyrsti framleiðandi söngleiksins Forbidden Broadway, sem hefur notið vinsælda í New York, Boston, Washington og víðar. „Haldið verður upp á 42 ára afmæli söngleiksins með frumsýningu á nýjustu útgáfu hans í júlí og mér er boðið.“ Fleiri verk eftir hana hafa verið sett upp vestra sem og hérlendis og síðastliðið haust var opinber leiklestur á gamanleikriti hennar, Mounting Tosca, með Broadway-leikurum í New York.

Áður en Sella flutti aftur heim 2011 bjó hún á búgarði í Wyoming. Það hafði áhrif á ákvörðun hennar að setjast að á Eyrarbakka. „Ég er of mikill náttúruunnandi til að búa í þéttbýli og vildi garð og hund. Ég er mjög ánægð hérna, er vinarík, horfi út um eldhúsgluggann á Eyjafjallajökul og Heklu og get tekið þátt í menningarsamstarfi.“