Samtal Chesters segir að kynna ætti eldra fólki snyrtivörur, ferðalög, bíla, kynlífstæki og fleira.
Samtal Chesters segir að kynna ætti eldra fólki snyrtivörur, ferðalög, bíla, kynlífstæki og fleira.
Markaðsstjórar eru að missa af stóru tækifæri með því að láta aldurshópinn 55 ára og eldri afskiptan þegar kemur að markaðssetningu. Þetta segir markaðsráðgjafinn Kevin Chesters í samtali við ViðskiptaMoggann

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Markaðsstjórar eru að missa af stóru tækifæri með því að láta aldurshópinn 55 ára og eldri afskiptan þegar kemur að markaðssetningu. Þetta segir markaðsráðgjafinn Kevin Chesters í samtali við ViðskiptaMoggann. Hann hélt erindi um málefnið undir yfirskriftinni „Að ná til 55+ markhópsins“ á ÍMARK-deginum í Háskólabíói síðastliðinn föstudag.

Hann segir að þessi aldurshópur sé efnaðasti markhópur heims. Þrátt fyrir það sé einungis um 5% markaðsfjár varið í að tala við hann, eða öllu heldur tala niður til þessa fólks, þar sem efninu hætti til að vera uppfullt af yfirlæti og klisjum.

Algeng mistök

Hann segir að algeng mistök séu að hugsa um þennan hóp sem einsleitt og óljóst samansafn „eldri borgara“ með sama bakgrunn og svipuð áhugamál. Með þessum þankagangi fari stór markaðstækifæri í súginn.

„Flestir vilja tala við unga fólkið, sem er skrýtið í þessu samhengi,“ segir Chesters. Hann segir að nærri helmingur Íslendinga sé yfir 40 ára og fjórðungur yfir 55 ára.

„Það er því undarlegt að tala ekki til þessa fólks, sérstaklega þegar aðeins 25% þjóðarinnar eru undir tvítugu. Það er hreinlega heimskulegt að gefa þessu ekki meiri gaum og kynna hópnum ýmsar vörur, hvort sem það eru snyrtivörur, föt, ferðalög, bílar, kynlífstæki, líkamsrækt eða annað.“

Chesters fór í erindi sínu yfir ástæðuna fyrir þessari hegðun markaðsfólksins.

„Sumt er sálfræðilegt. Flest óttumst við að eldast og reynum að hunsa þá tilhugsun. Við viljum hlaupast á brott frá þessari staðreynd og öllu sem henni fylgir, eins og ristruflunum, breytingaskeiðinu og dauðanum. En þetta þarf að breytast.“

Spurður nánar um helstu ástæður segir Chesters að fólki sé tamt að vilja fylgja leitni (e. trends) í samfélaginu. Mikið sé skrifað um ungt fólk í fjölmiðlum og það sem það taki sér fyrir hendur. Hann segir eldra fólk einfaldlega ekki eins svalt.

Chesters kom í fyrirlestri sínum inn á það hvernig talað sé um aldur eins og faraldur.

„Það er heill iðnaður helgaður vörum sem eiga að yngja þig. En ef það er einn sannleikur í þessum heimi þá er það það að fólk sem eldist er heppnasta fólk á jörðinni. Hinn kosturinn er að vera dauður. Við ættum öll að vilja verða eldri. Það ætti að vera helsta metnaðarefni okkar.“

Eins og fyrr sagði telur Chesters að flestir klikki á því að eiga í samtali við þennan hóp, og þeir sem það hafi gert geri það svo illa að þeir hefðu betur sleppt því.

Sérhæfður í málefninu

Aðspurður segist Chesters hafa sérhæft sig í málefninu síðastliðin tíu ár.

„Kannski er það af því að ég er sjálfur að eldast. Ég er nýskriðinn yfir fimmtugt,“ segir hann og hlær.

„Ég vann verkefni með vinsælustu foreldravefsíðu í Bretlandi, sem heitir momsnet.com. Forstjórinn sagði mér að hún ræki tvær síður, momsnet.com og svo gransnet.com sem er vinsælasta vefsíða landsins fyrir 50 ára og eldri. Hún sagði að allir vildu auglýsa á momsnet en enginn hefði áhuga á gransnet. Mér fannst þetta áhugavert. Við byrjuðum að tala saman og ég setti saman ráðstefnuna Granstock til að vekja athygli markaðsfólks á síðunni.“

Síðar fór hann að vinna fyrir vefsíðuna restless.co.uk sem er vinsæll vefur fyrir þennan eldri aldurshóp sem hér um ræðir.

„Ég hjálpaði til við að afla viðskiptavina. Þriðja verkefnið sem ég hef komið að á þessu sviði er endurmörkun á dvalarheimilunum McCarthy Stone. Í framhaldinu hef ég orðið algjör sérfræðingur í því hvernig best sé að tala til fólks yfir fimmtugt. Hvernig vefsíður og auglýsingar eiga að líta út, hvaða leturgerð á að nota, hvernig á að skrifa tölvupóst til þessara aðila og svo framvegis. Þegar þú eldist er til dæmis ekki sama hvaða litir eru notaðir til að höfða til þín og hversu mikið loft er í kringum efnið á síðunum. Alls konar svona praktískir hlutir skipta miklu máli.“

Hann segir það hafa angrað sig meira og meira hvað eldra fólk verður ósýnilegt.

„Við sjáumst ekki í auglýsingum eða í sjónvarpi. Þú ert tekinn út af sakramentinu. Aldursfordómar virðast vera síðustu fordómarnir í dag sem fólki er leyft að hafa og grínast með. Það virðist vera í lagi að móðga þetta fólk. Það er eitthvað rangt í þessu og ég reiddist. Kannski er ég farinn að taka þessu persónulega, fyrst ég er sjálfur kominn í þennan aldurshóp,“ segir Kevin og brosir.

Flottar stofur og auglýsendur

Hann segist að endingu vera spenntur að vera kominn til Íslands, en hingað hefur hann komið áður.

„Ég hef verið á Íslandi í fríi með fjölskyldunni og ég hef hlakkað mikið til að koma aftur. Það er fullt af flottum augýsingastofum og auglýsendum á Íslandi,“ segir Chesters að lokum.