Friðbjört fæddist 15. júlí 1969 á Flateyri við Önundarfjörð. Hún lést á Spáni 19. febrúar 2024.

Foreldrar Friðbjartar eru Gunnar Kr. Guðmundsson, f. 25. janúar 1946, d. 3. nóvember 2008, og Elín H. Jónsdóttir, f. 30. janúar 1949.

Systur Friðbjartar eru Hallfríður, f. 1972, d. 2021, og Sólrún Ása, f. 1980, d. 1995. Eftirlifandi eiginmaður Hallfríðar er Bragi Már Valgeirsson og börn þeirra Sólrún Braga, Gabríela Brá og Eiður Örn.

Eftirlifandi eiginmaður Friðbjartar er Þórir Jónsson, f. 10. ágúst 1968. Börn þeirra eru Magni Freyr, f. 31. desember 1990, Daníel Þór, f. 8. júní 1993, og Ása Hrönn, f. 29. apríl 1999. Eiginkona Magna er Karen Ósk Pétursdóttir, f. 1987, og er sonur þeirra Úlfur, f. 21. september 2021. Eiginkona Daníels er Ingunn Mía Blöndal, f. 1986. Sambýlismaður Ásu er Viktor Tumi Ólafsson, f. 2000, og er sonur þeirra Gunnar Skúli, f. 28. desember 2023.

Friðbjört ólst upp á Flateyri í Önundarfirði og gekk í Grunnskóla Flateyrar og kláraði gagnfræðanám frá Núpi í Dýrafirði. Hún starfaði í fiskvinnslu í Hjálmi á Flateyri og við veitingaþjónustu á Vagninum auk þess að prófa eina önn í Fjölbraut á Sauðárkróki. Hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum á Flateyri 1988 og hófu þau stuttan búskap þar. Þau fluttu svo til Svíþjóðar í febrúar 1989.

Friðbjört lærði fótaaðgerðafræði og Þórir lærði til stoðtækjafræðings. Þar fæddust synir þeirra Magni og Daníel.

Litla fjölskyldan flutti heim til Íslands í ágúst 1995 og var Friðbjört heimavinnandi í stuttan tíma og fór svo að vinna sem fótaaðgerðafræðingur í Lipurtá í Hafnarfirði.

Snjófljóðið á Flateyri var mikið áfall sem tók litlu systur hennar og þá var gott að vera í faðmi fjölskyldunnar.

Ása Hrönn fæddist 1999 og nokkru eftir það hóf Friðbjört störf í mötuneytinu á leikskólanum Álfasteini.

Síðar venti hún kvæði sínu í kross og lærði bókhald og fékk vinnu sem bókari hjá Stálsmiðjunni Málmey í Hafnarfirði.

2008 hóf hún störf sem launafulltrúi hjá Hafnarfjarðarbæ og starfaði þar þangað til hún hætti störfum í byrjun árs 2023 vegna veikinda.

Friðbjört var alla tíð mikil útivistarmanneskja og elskaði að ferðast, innanlands og utan. Að rækta blóm og berjarunna og ávexti í gróðurhúsinu sínu var henni mjög hjartfólgið.

Friðbjört var vinur vina sinna og valdi þá af kostgæfni. Hún var hlédræg en í góðra vina hópi átti hún til að sletta úr klaufunum.

Árið 2007 keyptu hjónin sér jeppa og torfærufellihýsi og við tóku skemmtilegir tímar í jeppaferðum.

Þegar krakkarnir uxu úr grasi tók við mikið af ferðalögum til útlanda. Mest um Evrópu. 2018 keyptu hjónin sér hús á Spáni sem var verkefni sem henni var mjög hjartfólgið.

Henni þótti vænt um fjölskylduna sína og þegar barnabörnin komu inn í líf hennar sá hún vart sólina fyrir þeim.

Útför hennar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 8. mars 2024, klukkan 13.

Elsku Fribba mín. Ég sakna þín óskaplega. Undanfarna daga hef ég flétt í gegnum myndir og áttað mig á því, sem ég vissi þó innst inni, hvað við höfum verið samrýnd og samtaka í öllu því sem við höfum tekið okkur fyrir hendur. Við áttum frábært líf saman. Ég sakna þín og ég sakna þess. Manstu þegar við vorum að skjóta okkur saman á rúntinum á Escortinum þínum? Manstu þegar við fluttum til Svíþjóðar með aleiguna í tveim ferðatöskum? Og þegar strákarnir okkar Magni og Daníel litu heiminn augum? Manstu þegar við fluttum heim aftur, litla fjölskyldan með fullan gám af búslóð og hausa fulla af fróðleik eftir nokkurra ára nám í landinu sem við þá yfirgáfum? Stuttu síðar þurftum við að takast á við mikla sorg og mikinn missi þegar snjóflóðið á Flateyri hjó stórt skarð í samfélagið þar. Það tók meðal annars Ásu systur þína og við þurftum virkilega á styrk hvors annars að halda.

Við gengum í hjónaband 1998 í þeirri sömu kirkju og þú ert nú jarðsungin í. Það var hamingjudagur og þú varst svo undursamlega falleg daginn þann og fylltir mig af hamingju og ást.

Ári seinna fæddist okkur dóttir og það kom ekkert annað til greina en að skíra hana í höfuðið á systur þinni henni Ásu. Næstu ár voru strembin með þrjú börn, fasteignakaup og allt þetta venjulega hversdagslega amstur. Samt náðum við alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og oft varst þú heilinn á bak við það. Við náðum alla vega að mana hvort annað upp í alls konar ævintýri. Að taka stökkið og flytja til annars land þegar við höfðum aldrei farið út fyrir landsteinana. Að fara með alla fjölskylduna til útlanda á kredit því annars yrðu aldrei slíkar minningar skapaðar áður en börnin yfirgæfu hreiðrið. Að kaupa jeppa og risastórt torfærufellihýsi og ferðast um hálendið með góðum vinum. Að smíða pall, dytta að húsinu eða reisa gróðurhús var hobbí fyrir okkur. Að kaupa hús á Spáni með sítrónutré og pálmatré í garðinum. Heimurinn var bara risastór leikvöllur milli þess að unnið var hörðum höndum til að geta notið hans.

Þú varst jarðtengingin mín en stundum vorum við eins og hundurinn og fiðrildið: Ég eins og fiðrildið og þú eltir en stundum snerust hlutverkin við. Þess vegna áttum við sennilega svona vel saman. Annað okkar á jörðinni og hitt að láta sig dreyma. Það er kannski táknrænt að lagið okkar sem við hlustuðum svo mikið á þegar við vorum í tilhugalífinu heitir einmitt Dog and butterfly.

Þú varst góð móðir og áttir ekkert annað en ást til barnanna okkar. Við vorum og erum svo stolt af þeim og þeirra fólki og hvað þau eru heilsteypt og flott og það er okkar sameiginlega og samstíga uppeldi sem m.a. skapaði það. Ég sakna þín.

Við ætluðum nú aldeilis að eiga svo góðan tíma í húsinu okkar á Spáni en það fór eins og það fór. Nú ertu komin í blómalandið allt of snemma en minningin þín lifir í börnunum okkar og barnabörnum.

Við áttum ævintýralega skemmtilegt líf saman. Takk fyrir allt.

Þinn

Þórir.

Elsku Friðbjört.

Það sem ég var heppin að kynnast þér, en mennirnir okkar unnu saman í Stoð og með okkur og öðrum vinum myndaðist góður vinskapur. Við vorum öll með krakka á svipuðum aldri og gerðum við ýmislegt saman og fórum við m.a. í ótal jeppa- og sumarbústaðaferðir, fórum erlendis, að ógleymdum Eurovision- og hrekkjavökupartíum.

Það var svo gaman að fylgjast með ykkur Þóri og öllum ykkar framkvæmdahugmyndum og að þú fengir draumagróðurhúsið og þar var þinn griðastaður á Mávahrauninu – að vera innan um blómin og hlýjuna, svona pínu þinn „Spánn í Hafnarfirði“.

Er svo glöð að við Patrol-félagarnir náðum að hittast í súpu og spjalli áður en þið fóruð í ferðina ykkar.

Ég er svo óendanlega þakklát að hafa heimsótt þig, sem var í síðasta skiptið, og heyra þig tala um ömmudrengina ykkar Þóris sem þú vildir helst taka með þér til Spánar og segja mér fréttir af börnunum ykkar sem þú varst svo stolt af og elskaðir svo mikið.

Elsku Þórir og fjölskylda, minningin um yndislega konu lifir sem fór allt of fljótt frá okkur. Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiða tíma.

Helga Dögg og Úlfar.

Elsku Fribba, það er óskaplega erfitt að þurfa að vera að skrifa minningargrein um þig sem fórst svo allt of fljótt frá okkur. Við sem vorum farnar að hittast aftur og ætluðum nú aldeilis að rífa upp sambandið. Áttum svo mörg góð ár saman og hittumst mikið þegar krakkarnir okkar voru yngri. Bjuggum á sama tíma á Hjallabrautinni þegar þið fluttuð heim frá Svíþjóð og Þórir fór að vinna í Stoð. Góðir tímar en líka erfiðir þar sem þetta var þegar snjóflóðið féll á Flateyri, þinn heimabæ og þú misstir systur þína 15 ára gamla. Þá áttirðu oft erfitt. Ég man að ég leit þá stundum eftir Magna og Daníel fyrir ykkur, en þeir og Stella og Hörður, mín börn, voru jafngömul og léku sér saman. Þægilegt að skreppa bara milli hæða. Svo fluttuð þið á Mosabarðið og við í Fagraberg og við kíktum oft í kaffi hvor til annarrar og hittumst í barnaafmælum og öðrum uppákomum. Kynntumst fjölskyldum hvor annarrar og áttum góðan tíma. Þú varst svo dugleg í blómastússi og allskonar föndri, prófaðir ýmislegt og við skiptumst á ráðum í kringum það allt saman. Fórum líka stundum með krakkana okkar upp í Heiðmörk og að Hvaleyrarvatni. Þú varst svo mikil mamma og dugleg með krakkana ykkar.

Svo voru allir viðburðirnir í kringum Stoð, kallarnir okkar, Gummi og Þórir, að vinna saman þar svo það voru ýmsar ferðir og partí í kringum það, oft mikið gaman hjá okkur. Einnig hittumst við nokkrar Stoðarkonur stundum og vorum að búa til jólakort með allskyns stimplum og glimmeri. Einnig var farið árlega í fjölskylduhaustferðir í Bása í Þórsmörk, ótrúlega skemmtilegar ferðir sem krakkarnir muna vel eftir. Margar árshátíðarferðir innanlands sem utan. Síðasta skemmtunin okkar saman var einmitt á Baggalútstónleikum með Stoð í desember sl. og það var alveg erfitt fyrir þig, hávaðinn fór ekki vel í þig en þú dreifst þig þó og ég er þakklát fyrir það í dag. Einnig hittumst við á Súðavík síðasta sumar þegar við Gummi vorum með hús þar og þið skruppuð vestur yfir helgi og komuð til okkar í mat, áttum gott kvöld þar saman. Svo þakklát fyrir að þið nenntuð að koma.

Þú áttir örugglega ansi oft erfitt eftir að þú misstir Fríðu systur þína, sem fór líka allt of fljótt úr sama sjúkdómi. Við hittumst nýlega en þá varstu nú hálflasin en heyrði í þér rétt áður en þið fóruð og þá ákváðum við hittast fljótlega og borða saman. En það náðist ekki áður en þið fóruð til Spánar og svo kvaddirðu okkur svona allt of fljótt. Við hittumst örugglega hinum megin og höfum það huggulegt saman.

Elsku Fribba, eins og þú varst mikil mamma þá varstu komin á fullt í ömmuhlutverkið, tvö barnabörn komin og þú hefðir nú aldeilis notið þess að dekra við þau áfram og þau notið góðrar ömmu. Afi Þórir mun örugglega dekra við þau fyrir ykkur bæði og halda minningu þinni á lofti.

Elsku Þórir, Magni, Daníel, Ása, Elín og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu stundum en minningin um yndislega eiginkonu, mömmu, ömmu og dóttir lifir.

Guð geymi þig, elsku vinkona.

Kveðja,

Guðbjörg.