Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Vert er að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar séu eingöngu skattborgarar og fórnarlömb örlætis.

Vilhjálmur Bjarnason

Það eru nokkrir vinir mínir með þráhyggju. Þeir telja sig eingöngu vera skatt-borgara. Þessir vinir mínir hafa ekki rænu á að taka hluta sinna skatta út með því að sækja sinfóníutónleika. Kann að vera að þeir þekki ekki sinfóníu frá skilvindu. Eða þá að sú tónlist sem þessir vinir njóta best sé þögnin. Vissulega er þögnin gulls ígildi.

Þessir þráhyggjuvinir býsnast yfir skáldum á heiðurslaunum. Það er umhugsunarefni hvort sum skáld séu á vetur setjandi miðað við gáfulegar yfirlýsingar þeirra.

Til þess að skáld komist á heiðurslaun þarf skattborgara. Yfirlýsing skálds um að Landsvirkjun tapi fjandann ráðalausan vekur efasemdir um annað sem frá skáldinu kemur. Góður rekstur Landsvirkjunar á þátt í því að halda uppi góðum lífskjörum í landinu, einnig meðal skálda.

Þeir sem greiða sína skatta af lífeyrissparnaði, og Landsvirkjun, ættu að mæta á þingpalla og mótmæla slíku skáldfólki á heiðurslaunum. Hér er komið kærkomið verkefni fyrir Landssamband eldri borgara, sem gerir annars ekkert gagn.

Hvað með þá er njóta lífeyristekna?

Kerfi lífeyrissjóða nálgast óðum að verða óendanlega gamalt. Flestir þeir sem komast af starfsaldri eru orðnir 70 ára. Otto von Bismarck ákvað það aldursviðmið fyrir 150 árum miðað við allsendis ósambærileg lífsskilyrði dagsins í dag. Þá varð nánast enginn 70 ára, og því ódýrt loforð.

Það eru helst verkfræðingar sem bera skarðan hlut frá borði síns lífeyrissjóðs, því þeim tekst mjög illa að ávaxta sinn lífeyri.

Allir þeir, sem hafa verið á vinnumarkaði frá 1970, hafa átt kost á að tryggja sér lífeyri úr lífeyrissjóðum. Umskiptin urðu árið 1979 þegar forsætisráðherra sá að í óefni stefndi með lífeyrissjóði ef sjóðunum tækist ekki að verðtryggja eignir sínar til að geta greitt væntan lífeyri þeirra sem greiddu iðgjöld.

Tvöfalt lífeyris- kerfi fyrir alla?

Svo virðist sem Landssamband eldri borgara hafi aðeins eitt markmið en það er að viðhalda tvöföldu lífeyriskerfi, til að íþyngja vinnandi fólki. Eftir að iðgjöld launþega til lífeyristrygginga urðu á bilinu 15-20% er alveg út í bláinn að láta vinnandi fólk borga aukalega önnur 10% til að tryggja fullvelmegandi fullar bætur almannatrygginga. Út á það gengu málaferli Landssambands eldri borgara gegn íslenska ríkinu, með stuðningi nokkurra verkalýðsfélaga.

Sennilega eru lífskjör eldri borgara nokkuð góð, ef undan eru skildir þeir sem ekki hafa getað eignast þak yfir höfuðið og eru að greiða húsaleigu. Hlutskipti þeirra er sérstakt viðfangsefni.

Ívilnanir og skerðingar

Á liðnum árum hefur helsta viðfangsefni almannatrygginga verið ívilnanir en á móti þeim koma skerðingar til annarra.

Vissulega eru almannatryggingar tryggingar fyrir þá sem ekki hafa átt kost á að tryggja sér lífeyri úr lífeyrissjóðum.

Hverjir eru það? Það eru þeir sem hafa ekki átt kost á að afla sér tekna vegna fötlunar. Og svo eru enn konur sem hafa farið seint á vinnumarkað eða alls ekki.

Lífeyrir frá almannatryggingum er ekki ætlaður hæstaréttardómurum.

Ef til vill verður munur í ívilnunum og skerðingum hvergi eins augljós og þegar kemur að vistun á öldrunarstofnunum.

Þeir sem eru með verulegar lífeyristekjur greiða stóran hluta af dvalarkostnaði, en almannatryggingar greiða dvalarkostnað þeirra sem engar tekjur hafa.

Að auki greiða lífeyrisþegar tekjuskatt af sínum lífeyristekjum. Því eru lífeyrisþegar aðallega skattborgarar.

Eðli lífeyristekna

Það er full ástæða til að íhuga eðli lífeyristekna.

Lífeyristekjur eru af þrennum toga:

Iðgjöld, sem eru hluti af launatekjum með frestun á greiðslu tekjuskatts.

Verðbætur, það er verðleiðrétting vegna áhrifa verðbólgu.

Hrein ávöxtun, vextir og arðgreiðslur af verðbréfum og eftir atvikum söluhagnaður af eignum.

Það er eðlilegt að þetta þríþætta eðli sé skoðað og ekki síður vegna þess ábata sem ríkissjóður hefur af lífeyriskerfinu.

Skattlagning lífeyristekna

Á ákveðnu launabili er enginn hvati til að afla sér réttinda í lífeyrissjóðum. Með öllum skerðingum vegur það salt hvort viðkomandi hefur óskertar bætur almannatrygginga og greiðslur úr lífeyrissjóði.

Er þá ekki eðlilegt að lífeyrisþegar hafi einhverja hvatningu og ívilnun vegna þeirrar byrði sem þeir firra ríkissjóð?

Allar umbætur á högum eldri borgara eru í almannatryggingakerfinu, jafnvel með skerðingum vegna lífeyristekna og fjáreignatekna.

Þeir, sem fá sínar tekjur af lífeyristekjum, greiða tekjuskatt sem launatekjur væru. Vissulega eru verðbætur á skattakvöð af því sem greitt er við innborgun í lífeyrissjóð. En sá aðili sem hefur mestan ábata af frestun greiðslna er ríkissjóður.

Þegar hugað er að högum eldri borgara er rétt og eðlilegt að kanna hvort ekki sé komin röðin að lífeyrisþegum. Réttur þeirra hefur í raun verið fyrir borð borinn og lífeyrisþegar hafa látið það yfir sig ganga, enda hafa þeir engan í sinni hagsmunagæslu.

Svo virðist sem Landssamband eldri borgara sé sambland af skemmtifélagi og ferðaskrifstofu, en láti sig síðast varða hagsmuni þeirra sem eiga allar sínar tekjur undir greiðslum úr lífeyrissjóðum.

Þessu er öfugt farið við það sem gerist í sveitum, en í sveitum er talið ljótt að sinna nokkrum hlut sem er skemmtilegur.

Fátækt

Það hefur í raun aldrei farið fram athugun á því hver hefur verið ábati af starfsemi lífeyrissjóða á umliðnum 50 árum, og mat á þeirri sóun sem varð á árunum frá 1970 til 1980 í báli verðbólgu. Vissulega var veisla hjá þeim sem voru djarfir til lántöku. Sú veisla var á kostnað þeirra sem voru iðjusamir og sparsamir. Lífeyrissjóðir hafa komið í veg fyrir fátækt þjóðarinnar og eiga verulegan hlut í hagstæðum greiðslujöfnuði.

„Fyrsta lóukvak ber í sér undarlegan hreim. Það er feimnislegt og þakklátt kvak, andstutt einsog fyrsta heilsan eftir mikla lífshættu, og samt þrúngið af kyrlátum fögnuði.“

Starfsemi lífeyrissjóða er sem lóukvak að vori. Rétt er hafa það í huga þegar ætlast er til að lífeyrissjóðir geri góðverk. Þá er fjandinn laus því það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að gefa gjafir heldur að varðveita og ávaxta lífeyrissjóð félaga sinna til seinni tíma greiðslu lífeyris.

Vert er að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar séu eingöngu skattborgarar og fórnarlömb örlætis.

Höfundur var alþingismaður.