Sigurvin Gunnar Sigurjónsson fæddist á Ísafirði 12. nóvember 1946. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða 29. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Kristín Guðbjörg Kolbeinsdóttir og Sigurjón Veturliðason frá Ísafirði.

Sigurvin var yngstur í hópi fimm systkina, en hin eru í aldursröð: Ingibjörg, Sæunn, Gunnar og Guðrún.

Eiginkona Sigurvins er Guðlaug Ólafsdóttir, f. 4. nóvember 1949. Þau giftu sig 26. júlí 1969. Saman eiga þau þrjár dætur. Jóhanna, f. 1970, maki Ingþór Bergmann Þórhallsson, f. 1973, börn þeirra eru Bergþóra, f. 1996, Eyrún, f. 1999, og Orri Bergmann, f. 2005. Kristín, f. 1972, maki Johan Melander, f. 1972, börn þeirra eru Alice-Lilja, f. 2001, Elma-Lisa, f. 2004, og Óli, f. 2006. Valdís, f. 1979, maki Reynir Jónsson, f. 1978. Börn þeirra eru Andrea Ýr, f. 1999, Védís Agla, f. 2003, Bjarki Berg, f. 2008, og Daði Rafn, f. 2012.

Sigurvin ólst upp á Hlíðarvegi 5 á Ísafirði. Hann lauk sveinsprófi í prentiðn frá Ísafirði og starfaði þar fyrstu árin. 1970 fluttist hann búferlum ásamt eiginkonu sinni á Akranes og starfaði hjá Prentverki Akraness, síðar Prentmeti, frá þeim tíma og út sína starfsævi.

Sigurvin sinnti ýmsum félagsstörfum og var m.a. virkur meðlimur Lions-hreyfingarinnar á Akranesi.

Sigurvin var mikill íþróttaáhugamaður en knattspyrna stóð honum næst og spilaði hann knattspyrnu, fyrst með ÍBÍ og seinna með eldri flokki ÍA allt þar til hann veiktist.

Útför Sigurvins fer fram í Akraneskirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 13.

Stytt slóð á streymi:

https://www.mbl.is/go/j3z5m

Pabbi.

Elsku besti pabbi, það er svo margs að minnast og margt að þakka fyrir. Síðustu árin hafa verið okkur öllum erfið þar sem þú týndist smátt og smátt inn í þennan andstyggilega sjúkdóm.

Við minnumst þín sem ljúfs, rólegs og yfirvegaðs pabba sem hallmælti aldrei öðrum og var alltaf tilbúinn til að aðstoða þegar þörf var á.

Knattspyrnan átti stóran part af hjarta þínu og var hvert tækifæri nýtt til þess að annaðhvort spila eða horfa á knattspyrnu. Þú varst alla tíð dyggur stuðningsmaður Manchester United og að sjálfsögðu ÍA. Þú hafðir sérstaklega gaman af því að fylgjast með barnabörnunum spila fótbolta og mættir á alla leiki sem þú hafðir tök á að mæta á. Við vitum að þú hefðir elskað að fylgjast með öllum barnabörnunum vaxa úr grasi, og hefðir verið stoltur af því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur.

Þú varst alltaf í góðu formi og hreyfðir þig mikið og varst mikil fyrirmynd fyrir okkur hin, alltaf klár í ýmiss konar hreyfingu, hvort sem það var fjallganga, hlaup eða einhverjir leikir. Fótboltaæfingarnar með Oldboys voru alltaf í forgangi og þú mættir á þær allar og það skipti ekki máli þótt þú kæmir draghaltur heim, það stoppaði þig ekki í að mæta á næstu æfingu, ekki fyrr en sjúkdómurinn náði yfirhöndinni.

Þú hafðir mjög gaman af því að ferðast og það voru ófáar útilegurnar sem þú fórst í með okkur fjölskyldunni og vinafólki. Að minnsta kosti einu sinni á ári heimsóttir þú æskuslóðir þínar á Ísafirði. Okkur systrum þótti alltaf vænt um að koma þangað en vorum ekki eins spenntar fyrir átta klukkustunda bílferðinni. Í seinni tíð varstu duglegur að mæta á Púkamótið í knattspyrnu sem haldið var í gamla heimabænum þínum og þótti þér vænt um að hitta gamla félaga þar.

Þú hafðir gaman af því að spila og þá sérstaklega kínverska skák sem þú kenndir okkur þegar við vorum litlar og við höfum enn gaman af því að spila bæði við börnin okkar og aðra. Við höldum okkur að sjálfsögðu við upprunalegu og réttu reglurnar enda þær einu réttu, komnar beint að vestan.

Það var alltaf svo gott að koma til þín í prentsmiðjuna, þar vorum við alltaf velkomnar. Í prentsmiðjunni þvældumst við um alla króka og kima, nutum þess að finna prentlyktina og fengum oftar en ekki matarkex með smjöri, heitt kakó og komum svo að lokum klyfjaðar heim af teikniblöðum og afskornum pappír sem við föndruðum úr.

Þú varst allaf mjög vandvirkur og nákvæmur í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur, hvort sem það var natni þín við pappírinn eða þegar þú þurrkaðir af eldhúsborðinu, allt var gert hundrað prósent. Þú hafðir einstaka rithönd sem engin okkar náði að leika eftir og var eftirtektarverð enda sérlega falleg.

Það er sárt að sjá á eftir þér en við vitum að nú færðu loks hvíld frá sjúkdómnum sem þú fékkst ekki tækifæri til að berjast við. Nú ertu frjáls, getur hlaupið um og notað rödd þína.

Elsku hjartans pabbi, við þökkum fyrir allar stundirnar okkar saman og erum þakklátar fyrir þig.

Hvíl í friði.

Þínar dætur,

Jóhanna, Kristín og Valdís.

Með Sigurvin er horfinn drengur góður. Þessi skilnaðarstund er okkur afar sár. Sigurvin var hæglátur, þægilegur og einstaklega geðprúður maður. Ekki maður margra orða og oftar en ekki var þögnin brotin með frasanum „Það er nefnilega það“.

Hann hafði ætíð mikinn áhuga á íþróttum og fylgdist vel með. Hann var alltaf í góðu formi, spilaði fótbolta fram eftir öllum aldri, tók þátt í hlaupum og lagði stund á göngu jafnt á láglendi sem upp til fjalla. Við áttum meðal annars gæðastundir með honum á göngu um æskuslóðir hans á Vestfjörðum sem og hér í kringum Akranes að ótöldum metrunum sem gengnir voru um stræti Örebro-borgar.

Sigurvin var mikill fjölskyldumaður, naut þess að vera í kringum dæturnar og barnabörnin. Ekki síst ef farið var í ferðalög eða sumarbústaðarferðir. Þá var gripið í spil og spiluð kínaskák eða farið í hina ýmsu leiki. Hann var alltaf klár í að taka þátt og láta barnið í sér bregða á leik. Hann hafði líka lúmskt keppnisskap en fór afar vel með það. Sigurvin var mikill sóldýrkandi og er sólin skein var hann ófeiminn við að rífa sig úr að ofan og leggjast í sólbað. Hann naut þess sömuleiðis þegar haldið var upp á sólarkaffi að hætti Ísfirðinga daginn er sést aftur til sólar inni í bæ á Ísafirði eftir veturinn, og sást þá hve hann var trúr uppruna sínum. Hann lifnaði alltaf við er talið barst að Ísafirði og naut sín einstaklega vel þegar hann var kominn vestur.

Sigurvin hafði umkringt sig kvenfólki eftir að hafa eignast þrjár dætur með henni Gullu sinni. Hann tók því afar vel á móti okkur þegar við fórum að tínAast inn í fjölskylduna. Urðum við synirnir sem hann hafði alltaf óskað sér, úrræðagóðir og greiðviknir sem við erum, hver á sinn hátt. Sigurvin var sjálfur bóngóður, alltaf til staðar er á þurfti að halda. Gekk beint til verks ef svo bar undir. Meðal okkar allra þróaðist mikill vinskapur og væntumþykja.

Það er mjög skrítið að standa hér eftir og kveðja. Það tekur tíma að átta sig á söknuðinum því á vissan hátt var Sigurvin eins og við þekktum hann löngu farinn. Veikindi Sigurvins voru þess eðlis að hann týndi smátt og smátt persónuleika sínum. Hægt og bítandi fjaraði undan og vanmátturinn gagnvart heiminum óx. Þetta er andstyggilegur sjúkdómur sem smám saman yfirtekur sál þína og skilur þig að lokum eftir aleinan og yfirgefinn.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?

Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

„Guð minn!“ hrópa ég um daga en þú svarar ekki,

og um nætur en ég finn enga
fró. …

Ver eigi fjarri mér

því að neyðin er nærri

og enginn hjálpar.

(22. Davíðssálmur)

Elsku Gulla, takk fyrir allt sem þú varst honum og allt sem þú gafst honum. Sigurvin, far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Hljóðnuð er röddin,

hæglátur blærinn,

helguð þín brottför

Drottins náð.

Virðing og þökk,

vegferðin öll

vel í huga geymd.

(Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Ingþór, Reynir
og Johan.

• Fleiri minningargreinar um Sigurvin Gunnar Sigurjónsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.