Hersteinn Valtýr Tryggvason fæddist á Akureyri 8. júlí 1943. Hann lést á heimili sínu í faðmi fjölskyldunnar 27. febrúar 2024 eftir erfið veikindi.

Foreldrar hans voru hjónin Tryggvi Haraldsson, fæddur 7. október 1913, dáinn 22. desember 1984 og Fjóla Valgerður Jónsdóttir, fædd 27. október 1922, dáin 28. febrúar 1998. Bræður Hersteins eru Georg Haraldur, fæddur 26. október 1941 og Bjarki Sigurjón, fæddur 25. mars 1947.

Þann 23. október 1965 kvæntist Hersteinn Birnu Hólmdísi Jónasdóttur, fædd 3. júní 1946. Þau áttu heima á Akureyri öll sín hjúskaparár, fyrst í Ránargötu en byggðu sér svo hús í Reynilundi árið 1974, þar sem þau bjuggu allar götur síðan.

Börn þeirra eru: 1) Halla, fædd 9. mars 1966, eiginmaður hennar er Skúli Jóhannesson, fæddur 24. desember 1963 og eiga þau fjögur börn: a) Aron, fæddur 2. mars 1990, eiginkona hans er Hildur Leonardsdóttir, fædd 6. júlí 1990. Synir þeirra eru Týr, fæddur 19. október 2019, Ýmir, fæddur 6. júní 2021 og Baldur, fæddur 17. júlí 2023. b) Tinna, fædd 11. október 1991, sonur hennar er Alexander Ívar, fæddur 22. ágúst 2011. c) Bjartur, fæddur 14. október 2003 og d) Sindri, fæddur 21. febrúar 2006.

2) Fjóla, fædd 24. desember 1967, dáin 7. mars 2023. Dætur hennar eru: a) Birna Ósk, fædd 9. maí 1990, eiginmaður hennar er Ásgeir Heimir Ingimarsson, fæddur 21. júlí 1990. Synir þeirra eru Hjörtur Ari, fæddur 28. júlí 2020 og Birnir Leó, fæddur 14. maí 2023, og b) Hera Björt, fædd 1991, maki Agnar Agnarsson, fæddur 25. maí 1992.

3) Linda, fædd 7. apríl 1972, dóttir hennar er Ásthildur Emma, fædd 3. september 2005.

4) Börkur Már, fæddur 11. september 1977. Maki hans er Lovísa Árnadóttir, fædd 7. júlí 1979. Synir hennar úr fyrra sambandi eru Árni Gauti, fæddur 25. mars 2010 og tvíburarnir Hrafnkell Tjörvi og Darri Þór, fæddir 3. september 2014.

Hersteinn útskrifaðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst árið 1964 og starfaði hann við verslunar- og bókhaldsstörf. Hann var mikill fjölskyldumaður og vissi ekkert betra en að verja tíma með fólkinu sínu, helst í sínum elskaða Eyjafirði þar sem farnir voru ófáir Eyjafjarðarhringir. Þau hjónin ferðuðust mikið saman bæði innanlands og utan. Þau eignuðust fellihýsi sem þau nýttu óspart og seinustu árin áttu þau sér lítið hreiður á Spáni. Af áhugamálum Hersteins má nefna að hann var mikill hestamaður. Hann sinnti hestamennskunni af mikilli alúð, keppti og dæmdi á mótum og tamdi hesta fyrir sig og aðra. Eins fékk hann stelpurnar sínar með í hestamennskuna.

Hersteinn verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag, 8. mars 2024, klukkan 13.

Hjartans elsku vinurinn minn og eiginmaður í nærri 60 ár hefur lokið sinni jarðvist og eftir sit ég og kvíði framtíðinni án hans. Við kynntumst veturinn 1963-64 í Reykjavík. Við vorum bæði í skóla, hann í Samvinnuskólanum á Bifröst en ég í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Við hittumst ekkert meir meðan á skólavistinni stóð en mér varð oft hugsað til hans, hann var svo spennandi. Þegar ég kom heim til Akureyrar leið ekki langur tími þar til við hittumst aftur í gegnum sameiginlegan kunningja. Og þá byrjaði fallega ævintýrið okkar. Við urðum yfir okkur ástfangin og það entist alla tíð. Hann var yndislegasti maður í heiminum og hann setti mig á stall, ég var drottningin hans og fallegust allra. Auðvitað vissi ég að það var ekki rétt en fyrir honum var það svo og það var dásamlegt.

Við giftum okkur í október 1965 og var þá okkar fyrsta barn á leiðinni. Við keyptum okkur íbúð og leigðum út annað svefnherbergið og stofurnar báðar. Lífið var dásamlegt og svo komu börnin okkar eitt af öðru, Halla, f. 1966, Fjóla, f.´67, Linda, f. ´72 og Börkur Már, f. ´77. Áfram hélt lífið í hamingju og sælu þrátt fyrir áföll en á þeim tókum við samhent með börnunum okkar.

Stærsta áfallið var þegar yndislega dóttir okkar Fjóla lést af krabbameini 7. mars síðastliðið ár og hefur sorgin yfir þeim missi verið fylgifiskur okkar síðan. Þá var Heddi minn orðinn mikið veikur og núna tæpu ári eftir lát dóttur okkar lést hann. Ég trúi því að þau séu saman núna og það veitir mér hugarró.

Hjartans vinurinn minn, þakka þér fyrir öll árin okkar saman og allt það sem þú varst mér. Ég er heppnasta kona í heimi að hafa átt þig sem lífsförunaut. Faðmaðu elsku Fjóluna okkar frá mér. Ég elska þig ástin mín.

Bidda þín,

Birna Hólmdís.

Þá er yndislegi pabbi minn lagður af stað í sína himnaför eftir erfið veikindi. Eftir sitjum við ástvinir hans með djúpa sorg í hjörtum og söknuð.

Pabbi minn var mikill dugnaðarforkur og ljúflingur. Mér hefur alltaf fundist hann geta allt og kunna allt og gat ég fengið ráð og leiðbeiningar með svo til allt fyrir utan prjónaskap. Pabbi var með innbyggt verkvit og mætti með verkfærakassann ef eitthvað þarfnaðist lagfæringar og reddaði málunum.

Það var dásamleg og sterk taug á milli okkar pabba og var hann allt í senn mikill vinur, ráðgjafi og leiðbeinandi. Pabbi var skemmtilegur og góður sögumaður, einnig orti hann mörg ljóð en mest voru það falleg ástarljóð til mömmu. Það var mikill gæfudagur þegar pabbi og mamma kynntust, þau voru klárlega ætluð hvort öðru. Ást þeirra var sterk og voru þau ástfangin öll þessi 60 ár sem þau áttu saman. Við systkinin göntuðust oft með að það væri nú þrautin þyngri að finna lífsförunaut með þessar fyrirmyndir.

Pabbi hafði mikinn áhuga á hestamennsku og deildum við feðginin þeim áhuga. Hann byggði sér hesthús ásamt vini sínum og eignaðist mörg góð hross. Við fórum ófáa útreiðartúra saman sem voru miklar gæðastundir, en því miður varð hann að láta af hestamennskunni þegar hann veiktist alvarlega árið 2001 en hann var alltaf hestamaður í hjarta sínu. Pabbi lenti í mörgum áföllum í lífinu og tók hann þeim öllum af æðruleysi, meðal annars misstum við fjölskyldan heimili okkar í bruna árið 1979 og sluppum út á náttfötunum einum fata. Eina skiptið sem ég heyrði pabba minn tala um að lífið væri erfitt og ósanngjarnt var þegar elsku Fjóla okkar lést úr krabbameini í fyrra.

Pabbi minn tók afahlutverkið með trompi og naut hann sín í því hlutverki. Hann hafði mikla unun af að vera með barnabörnunum og var mjög stoltur af þeim öllum. Ekki fannst pabba verra að fá þann heiður að verða langafi og eignaðist hann sex langafastráka sem glöddu hann mikið.

Pabba leið vel í sínum heimabæ og fátt vissi hann betra en að fara Eyjafjarðarhringinn og á ég margar minningar innan úr Eyjafirði og var oft stoppað í hinni rómuðu norðlensku veðurblíðu til að gæða sér á heimatilbúnu nesti.

Pabbi og mamma fengu sér fellihýsi og voru dugleg að ferðast um landið og tóku gjarnan barnabörnin með í ferðir. Það var skemmtilegt að ferðast með pabba og var hann fróður um landið og kunni margar þjóðsögur sem krydduðu ferðirnar.

Í seinni tíð keyptu þau sér lítið hreiður á Spáni þar sem þau áttu margar gæðastundir.

Elsku hjartans pabbi, þú varst algjörlega fullkominn fyrir mig og ég mun sakna þín mikið. Ég veit að Fjóla okkar tók á móti þér þegar seglskútan þín kom að ströndinni hennar. Hún mun leiða þig um nýjar slóðir og það huggar mig. Við hittumst næst þegar ég kem á minni seglskútu til þín. Hvíl í ást og friði elsku pabbi og hjartans þakkir fyrir að vera nákvæmlega eins og þú varst.

Háa skilur hnetti

himingeimur,

blað skilur bakka og egg;

en anda, sem unnast,

fær aldregi

eilífð að skilið.

(Jónas Hallgrímsson)

Þín

Halla.

Pabbi minn var fallegasti, sterkasti, klárasti, skemmtilegasti og besti pabbi í heimi. Hann gat allt og vissi allt og aldrei kom maður að tómum kofanum hjá honum. Hann var traustur og trúr og alltaf til staðar fyrir fólkið sitt. Hann gerði aldrei upp á milli og var frábær pabbi, tengdapabbi, afi og langafi. Ég á margar uppáhaldsminningar um pabba og margar tengjast hestamennsku. Hestamennskan var líf hans og yndi þar til hann veiktist og gat ekki stundað hana lengur. Einn eftirminnilegasti útreiðartúr sem við fórum í var þegar við fórum með hestana í sumardvöl við Garðsá. Ég fékk þar í fyrsta skipti að vera á hestbaki og teyma annan hest alla þessa leið. Það gekk mjög vel og skildi eftir sig góðar minningar og tilfinningu um að pabbi treysti mér. Árið 1979 misstum við allt okkar í bruna. Þrátt fyrir það fannst mér ég aldrei skorta neitt því ég ólst upp við ást og öryggi. Ég man þegar krakkarnir í hverfinu voru á Dallatúni að fljúga flugdrekunum sínum. Ég átti engan flugdreka enda ekki til peningur fyrir slíkum munaði. En pabbi reddaði alltaf öllu og bjó til stærsta og flottasta flugdreka sem ég hef séð, skreytti hann og setti á hann risastóran hala með ótal slaufum. Allir búðarkeyptu flugdrekarnir bliknuðu í samanburði og allir krakkarnir vildu fá að fljúga flugdrekanum mínum… flugdrekanum hans pabba.

Mér þykir óendanlega vænt um allar fjölskylduferðirnar sem við fórum í. Fyrsta utanlandsferðin mín var með mömmu, pabba og Berki bróður. Það var algjör ævintýraferð. Við byrjuðum á að sigla um ensku síkin á litlum bát, flögguðum íslenska fánanum enda stolt af því að vera Íslendingar, með sjómennskuna í blóðinu. Hvað gat klikkað? Á þriðja degi strönduðum við og við systkinin vorum í snarhasti send upp á dekk að fjarlægja íslenska fánann. Á augabragði var allt vatn horfið undan bátnum og nokkur hundruð metrar í næsta vatnsdropa, og báturinn hallaði alltaf meira og meira. Úr fjarlægð kölluðu menn af björgunarbáti til okkar að við yrðum að vera róleg, þeir myndu koma til okkar með morgninum þegar það væri flóð. Þetta var algjört ævintýri og við systkinin stríddum pabba heilmikið á þessu strandi. Um morguninn vorum við svo dregin á flot og héldum ferðinni áfram. Ferðirnar til Hollands og Þýskalands voru dásamlegar en mér þykir líklega vænst um ferðina á Kolkuós í fyrra. Það eina sem pabbi bað um í afmælisgjöf var samvera og því ákváðum við að bjóða foreldrum okkar á Kolkuós. Pabbi hafði tengingu við staðinn því hann hafði fengið marga hesta þaðan. Sú ferð var yndisleg og pabbi naut þess að vera þar þrátt fyrir þverrandi heilsu. Á afmælisdaginn sjálfan fórum við afmælisferð inn í fallega Eyjafjörðinn, þar sem við stoppuðum við Saurbæjarkirkju og skáluðum í dásamlegu veðri.

Elsku pabbi, kraftaverkamaðurinn að norðan. Þú ert risi í minni lífssögu og ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið. Ég elska þig endalaust. Takk fyrir allt. Ég er afar stolt af því að vera dóttir þín.

Pælarinn þinn,

Linda.

• Fleiri minningargreinar um Herstein Valtý Tryggvason bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.