Fjölskyldan Jón og Hjördís ásamt börnum sínum, Valdimar, Hildi og Sverri, á Leifsgötunni árið 1963.
Fjölskyldan Jón og Hjördís ásamt börnum sínum, Valdimar, Hildi og Sverri, á Leifsgötunni árið 1963.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Jónsson fæddist 8. mars 1924 í Álasundi í Noregi. Fimm ára gamall fluttist hann ásamt foreldrum sínum og systkinum til Íslands og bjuggu þau í Reykjavík, fyrst á Kaplaskjólsvegi og síðan á Bræðraborgarstíg og Leifsgötu

Jón Jónsson fæddist 8. mars 1924 í Álasundi í Noregi. Fimm ára gamall fluttist hann ásamt foreldrum sínum og systkinum til Íslands og bjuggu þau í Reykjavík, fyrst á Kaplaskjólsvegi og síðan á Bræðraborgarstíg og Leifsgötu.

Jón fermdist í Dómkirkjunni Í Reykjavík 6.11. 1938 og 28.7. 1951 gekk hann að eiga Hjördísi Guðmundsdóttur.

Þann 15.7. 1952 var byrjað að grafa fyrir grunni að húsi þeirra hjóna í Heiðargerði og fluttu þau inn 7.4. 1956, þá til að byrja með á fyrstu hæðina. Síðar fylgdu svo kjallarinn og önnur hæðin. Jón sá að mestu sjálfur um bygginguna en fékk einnig aðstoð, frá m.a. tengdaföður sínum.

Árið 1984 seldu Jón og Hjördís húsið og fengu sér hæð í Rauðagerði og bjuggu þar fram til 2004 að þau fluttu í íbúð í Rjúpnasölum.

Á fyrstu árum sínum á vinnumarkaðnum starfaði Jón við að smíða leikföng fyrir K. Einarsson & Björnsson ásamt föður sínum og bjó til leðurhanska og leðurtöskur fyrir Magma.

Jón starfaði sem bílstjóri uppi á velli eins og það var gjarnan kallað, þangað til hann lauk þar störfum 1953 eða 1954 og byrjaði sem bílstjóri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Þar keyrði hann leiðir 6, 8 og 9. Hjá SVR var hann þangað til hann fór á ellilífeyri. Einnig vann hann við hreingerningar í heimahúsum og síðar við ökukennslu.

Jón er einkar listfengur og handlaginn og hafði mjög gaman af ýmiss konar listsköpun, svo sem að mála og skera út. Eftir hann liggja mörg verk sem hann hefur gefið til ættingja og vina, þeim til mikillar ánægju.

Útivist og ferðalög hafa alltaf verið honum til mikillar ánægju. Jón og Hjördís ferðuðust víða bæði innanlands og utan, m.a. til Kúbu, Þýskalands, Ítalíu og Norðurlandanna en fyrsta ferð þeirra hjóna var til Skotlands með m/s Heklu. Þeir eru fáir staðirnir á Íslandi sem Jón hefur ekki heimsótt, hvort heldur sem er á láglendi eða hálendi. Á unga aldri stundaði hann mikið að fara á skíði með vinum og í tjaldútilegur, gjarnan á hjólum, í rútu eða bara fótgangandi.

Einnig voru stangveiðar honum hugleiknar. Reglulega var farið í Þingvallavatn, Elliðaárvatn og í Ölfusá. Veiðivötn á Landmannaafrétti, Lýsuvötn á Snæfellsnesi, Sogið og Brúará voru líka mjög vinsæl. Á hringferðum um landið var veiðistöngin ávallt með í för.

Jón dvelur nú á Skjóli.

Fjölskylda

Eiginkona Jóns var Hjördís Guðmundsdóttir, f. 11.4. 1927 í Reykjavík, d. 16.10. 2016, verslunarmaður. Þau gengu í hjónaband sumarið 1951 eins og áður sagði og voru því gift í 65 ár. Foreldrar Hjördísar voru hjónin Guðmundur Guðmundsson, f. 6.11. 1892, d. 16.9. 1966, múrari, og Marta Þorleifsdóttir, f. 22.1. 1901, d. 30.11. 1987, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Jóns og Hjördísar: 1) Valdimar Jónsson, f. 22.6. 1953, búsettur í Noregi. Börn hans: a) Ásta Hjördís, f. 15.2. 1973, gift Guðmundi Sigurðssyni, f. 1973. Dóttir Ástu er Tanja Dögg Einarsdóttir, f. 1997, hennar dóttir er Aþena Mjöll Asksdóttir, f. 2023. Börn Ástu og Guðmundar eru Eydís Erna, f. 2002, og Atli Dagur, f. 2006; b) Jón Ágúst, f. 6.8. 1978, giftur Sigurbjörgu Dóru Ragnarsdóttur, f. 1980. Börn þeirra eru Anton Darri, f. 2000, Telma Dröfn, f. 2002, og Karen Brá, f. 2003; c) Brynjar, f. 15.10. 1987, d. 4.12. 2014; d) Sölvi Mar, f. 9.8. 1996, giftur Anítu Ýr Strange, f. 1996. Börn þeirra eru Brynjar Leó, f. 2017, Oliver Dagur, f. 2018 og Baltasar Theo Sölvason, f. 2023; 2) Sverrir Helgi Jónsson, f. 30.9. 1956, tæknimaður hjá Öryggismiðstöðinni, búsettur í Kópavogi. Börn hans eru: a) Jón Þröstur, f. 31.12. 1980. Börn hans eru Marielle, f. 2007, og Sebastian, f. 2009; b) Elísa, f. 28.8. 1989. Maki hennar er Christian Grimeland. Sonur þeirra er Gunnar, f. 2023; c) Emil, f. 10.1. 2001; 3) Hildur Jónsdóttir, f. 4.1. 1963, d. 15.4. 2020, viðskiptafræðingur og nuddari í Reykjavík.

Hálfsystir Jóns, sammæðra, var 1) Laurence (Laurentze) Jóhanna (Johanne) Helgason, f. 5.3. 1908, d. 1.2. 1993, húsmóðir í Reykjavík, og alsystkini Jóns voru 2) Sigurður Jón Jónsson, f. 9.2. 1916, d. 21.1. 2009, klæðskeri í Reykjavík; 3) Kristbjörg Margott Oline Jónsdóttir f. 11.2. 1918, d. 12.11. 2016, hárgreiðslumeistari í Reykjavík; 4) Paula Andrea Jónsdóttir, f. 13.1. 1920, d. 2.10. 2013, saumakona og matráðskona í Reykjavík; 5) Elíse Kristine Jónsdóttir Larsen, f. 25.12. 1922, d. 2011, húsmóðir í Stavanger í Noregi.

Foreldrar Jóns voru hjónin Jón Borgþór Jónsson, f. 23.2. 1889 á Melum á Kjalarnesi, d. 22.8. 1981, leikfangasmiður og sjómaður í Reykjavík, og Elise Sevrine Jónsson, f. 12.7. 1884 í Álasundi í Noregi, d. 20.5. 1969, húsmóðir. Þau gengu í hjónaband 1.7. 1916.