Sýningarstjórar Björk Hrafnsdóttir og Aldís Snorradóttir eru í hópi sýningarstjóra sem eru alls fjórir.
Sýningarstjórar Björk Hrafnsdóttir og Aldís Snorradóttir eru í hópi sýningarstjóra sem eru alls fjórir. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimmtán listamenn sýna verk á sýningunni D-vítamín í Hafnarhúsinu. Sýningin er afsprengi svonefndar D-sýningaraðar sem hóf göngu sína í D-sal Hafnarhússins árið 2007. Þar hefur upprennandi listamönnum verið boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Fimmtán listamenn sýna verk á sýningunni D-vítamín í Hafnarhúsinu. Sýningin er afsprengi svonefndar D-sýningaraðar sem hóf göngu sína í D-sal Hafnarhússins árið 2007. Þar hefur upprennandi listamönnum verið boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Samsýningin, D-vítamín, er unnin af sérfræðingum safnsins úr fjölda innsendra tillagna. Hún teygir sig út fyrir veggi D-salar og öll efri hæð Hafnarhúss er undirlögð. Aldís Snorradóttir og Björk Hrafnsdóttir eru í hópi sýningarstjóra D-vítamíns ásamt Þorsteini Frey Fjölnissyni og Becky Forsythe.

„Þessi stóra sýning er þróun á D-salar-sýningarröðinni þar sem ungu og upprennandi listafólki var komið á framfæri með fyrstu einkasýningu sinni í opinberu safni. Sú sýningarröð hefur oft verið stökkpallur fyrir listamenn og síðasta haust var haldin fimmtugasta sýningin. Við höfum verið mjög stolt af því verkefni, okkur fannst tilefni til að minna rækilega á það og þess vegna erum við með þessa stóru sýningu,“ segir Aldís.

Nútími og umhverfi

Listamennirnir fimmtán voru valdir úr hópi fjölda umsækjenda. „Við ákváðum að velja þau verk sem okkur þóttu sterkust, en ekki velja eftir ákveðnum þemum. Sumir listamannanna lögðu fram ákveðin verk í umsóknum sínum en aðrir voru spenntir fyrir því að vinna nýtt verk í samráði við sýningarstjóra,“ segir Björk. „Þessir listamenn hafa sýnt verk sín hér og þar, en það að vinna inni í safni og með sýningarstjóra er öðruvísi en að vinna í minni rýmum. Við í myndlistasenunni þekkjum þessa listamenn, enda eru þau farin að hafa mótandi áhrif á senuna, en með þessari stóru sýningu fær almenningur að kynnast þeim.“

Spurðar hvort sjá megi einhvern sameiginlegan þráð í verkunum á sýningunni segir Björk: „Myndlist fjallar oft um upplifun listamannsins á heiminum í dag og þarna er tekið á sambandi manneskjunnar við nútíma sinn og umhverfið auk hversdagslegra upplifana. Ákveðin verk fjalla um umhverfismál og náttúruna á óbeinan hátt og þarna eru vangaveltur um landið sem heimaland og það hvaðan þú kemur.“

Mannbætandi áhrif

Titill sýningarinnar D-vítamín skírskotar til krafts og orku. „Sýningin var opnuð í lok janúar þegar dagarnir voru dimmir og drungalegir. Verk þessa hæfileikaríka hóps sem sjá má á sýningunni í Hafnarhúsi koma með hressandi orku og kraft inn í skammdegið, og ég er ekki frá því að verkin hafi einnig mannbætandi áhrif á fólk,“ segir Aldís.

Sýningin stendur til 5. maí.