Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður lést í Amsterdam miðvikudaginn 6. mars, 81 árs að aldri. Hreinn fæddist að Bæ í Miðdölum í Dalasýslu 19. febrúar árið 1943. Foreldrar hans voru Friðfinnur Sigurðsson, bóndi í Bæ, og Elín Guðmundsdóttir húsfreyja

Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður lést í Amsterdam miðvikudaginn 6. mars, 81 árs að aldri.

Hreinn fæddist að Bæ í Miðdölum í Dalasýslu 19. febrúar árið 1943. Foreldrar hans voru Friðfinnur Sigurðsson, bóndi í Bæ, og Elín Guðmundsdóttir húsfreyja.

Hreinn ólst upp í Dölunum en fór til Reykjavíkur í nám. Var í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1958-1960 og fór þá einnig í námsferð til London. Dvaldi við listnám í Róm 1966-67 og stundaði listnám við Limoges í Frakklandi 1970-71.

Hann var einn stofnenda SÚM-hópsins 1965 og kom einnig að stofnun Gallerís SÚM 1969. Hreinn flutti til Amsterdam 1971 og bjó þar og starfaði til æviloka. Hreinn skipaði sér í hóp fremstu myndlistarmanna Evrópu, hélt fjölda listsýninga hér á landi og erlendis og hlaut ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir list sína. Meðal verðlauna má nefna Fennica-verðlaunin árið 2000, Carnegie Art Award sama ár og heiðursverðlaun Myndstefs árið 2007.

Hér á landi átti Hreinn samstarf við i8 gallerí í nærri 30 ár. Það hófst með sýningu árið 1995 og hélst æ síðan.

Hreinn var kvæntur Hlíf Svavarsdóttur ballettdansara en þau skildu.