Leigubílar Sýnileg verðskrá á að vera um borð í leigubílum en formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama segir óvíst að því sé fylgt eftir.
Leigubílar Sýnileg verðskrá á að vera um borð í leigubílum en formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama segir óvíst að því sé fylgt eftir. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Þetta er lögleysa, þeir öryggisventlar sem voru í eldri lögum og sérstaklega hvað varðar eftirlit eru ekki lengur til staðar. Þetta er bara byrjunin og það sama gerðist í hinum Norðurlandaríkjunum þar sem fjöldatakmarkanir voru afnumdar.“ Þannig lýsir Daníel O. Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, ástandinu á leigubílamarkaðinum í samtali vð Morgunblaðið, en með nýjum lögum sem gildi tóku 1. apríl 2023 voru heimildir til aksturs leigubíla rýmkaðar að miklum mun.

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Þetta er lögleysa, þeir öryggisventlar sem voru í eldri lögum og sérstaklega hvað varðar eftirlit eru ekki lengur til staðar. Þetta er bara byrjunin og það sama gerðist í hinum Norðurlandaríkjunum þar sem fjöldatakmarkanir voru afnumdar.“ Þannig lýsir Daníel O. Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, ástandinu á leigubílamarkaðinum í samtali vð Morgunblaðið, en með nýjum lögum sem gildi tóku 1. apríl 2023 voru heimildir til aksturs leigubíla rýmkaðar að miklum mun.

Hann segir að bæði í Noregi og Finnlandi sé verið að snúa af þeirri braut. Við undirbúning lagafrumvarpsins hafi innviðaráðherra sagt að litið yrði til reynslu Norðurlandaríkja af reglubreytingunum, en það hafi ekki verið gert.

Segir ráðherra hafa svikið loforð

„Flestar athugasemda okkar snúa að öryggi farþega. Við bentum á það í umsögnum okkar um leigubílafrumvarpið að hér væri verið að opna fyrir það að ýmislegt misjafnt gæti gerst,“ segir Daníel og bætir við að þegar frumvarpið sem síðan varð að lögum var til meðferðar hafi félagið hvorki fengið fund með neinum þingmanni né innviðaráðherra, sem flutti frumvarpið. „Á lokametrunum lofaði ráðherra í sjónvarpsviðtali okkur fundi sem hann síðan sveik,“ segir hann.

Daníel segir einnig að á fundi með ráðherra sem haldinn var eftir að Alþingi samþykkti breytinguna, en áður en sett var reglugerð sem byggði á nýju lögunum, hafi verið vakin athygli á mikilvægi þess að tryggja öryggi almennings og að bílstjórar sem hefðu leiguakstur að aðalatvinnu gætu lifað af henni. Þar hafi því verið svarað til að „hagaðilar semdu ekki reglugerð“.

Daníel nefnir einnig að starfsemi svokallaðra skutlara sé ólögleg, en þeir hafi haldið akstri áfram átölulaust á meðan samkomutakmarkanir ríktu á tímum Covid og án þess að gæta að varúðarráðstöfunum sem leigubílstjórum hafi verið uppálagt að viðhafa. „Við vöktum athygli á þessu en ekkert var gert. Það var aldrei tekið á heildinni, þetta er samfélagsvandi,“ segir Daníel og bendir á að farþegar séu þar á eigin ábyrgð.

Hann segir að mikill misbrestur sé á því að fylgst sé með að löggiltir gjaldmælar séu í öllum leigubílum, en lögin kveði á um að heimilt sé að aka leigubílum sem séu án gjaldmælis, enda sé samið um verð fyrir fram. „Það er mismunun og varðar líka öryggi farþega, því að gjaldmælir er bæði til þess að tryggja hagsmuni farþega og bílstjóra, að rétt verð sé tryggt fyrir báða aðila,“ segir Daníel.

„Startgjaldið“ 10 þúsund kr.

Spurður hvort rétt sé að að farþegar hafi verið krafðir um háar fjárhæðir fyrir akstur frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur segist Daníel hafa heyrt dæmi þess. „Það eru komnir aðilar í leigubílaakstur sem hafa enga reynslu af akstri, hafa t.d. ekki verið í afleysingum áður en leyfi til leigubílaaksturs fékkst,“ segir hann og nefnir að þess séu dæmi frá Keflavíkurflugvelli að gjaldmælir hafi verið settur í gang þegar viðkomandi bílstjóri mætti í röðina, þannig að þegar farþegi steig um borð hafi startgjaldið verið orðið óheyrilega hátt. Til séu myndir af gjaldmæli sem stóð í 10 þúsund krónum þegar lagt var af stað frá flugvellinum til Reykjavíkur.

„Vandinn er samt sá að þeir sem eru einir á „eigin stöð“ eru mjög margir og hafa eigin verðskrá. Allar leigubifreiðar eiga að vera með verðskrá sýnilega áður en sest er inn í bifreiðina. Það er ekki víst að því sé fylgt eftir,“ segir Daníel.

Hann segir að áður hafi nýliðar kynnst rekstrinum og umhverfinu í afleysingaakstri „og þeir sem höfðu eitthvað misjafnt í huga duttu út og fengu ekki að keyra meira. Við vitum um marga menn sem fengu ekki leyfi vegna þess að þeir gerðu eitthvað af sér, en þeir eru komnir með leyfi núna,“ segir Daníel. Hann nefnir dæmi af meintum erlendum ofbeldismanni sem var nýlega handtekinn og settur í farbann, en var eigi að síður kominn í leigubílaröðina á Keflavíkurflugvelli daginn eftir.

Daníel nefnir að fjöldi bílstjóra sé á götunum, enda auðvelt að verða sér úti um akstur með því að auglýsa á Facebook, sem sé kolólöglegt. Spurður um eftirlit með starfsemi einyrkja segir hann að Samgöngustofa vísi þar á lögregluna og hafi beiðni félagsins um fund með henni vegna þessa ekki enn verið svarað.

Reglur kveða á um að akstur leigubíla skuli rekjanlegur með rafrænni skráningu. Spurð hvernig fylgst væri með því að einyrkjar færu að þeim reglum svaraði Samgöngustofa að viðmið um kröfur til rafrænna skráa hefðu ekki verið nánar útfærð í reglugerð, en lögregla færi með vettvangseftirlit.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson