Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona fermdist fyrir 38 árum en man daginn eins og hann hafi verið í gær.
Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona fermdist fyrir 38 árum en man daginn eins og hann hafi verið í gær. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég fékk eiturgulan stól og lampa úr Ikea í fermingargjöf frá mömmu og pabba, hvílíkir eðalgripir. Maður var svo mikið „inn“ að það var ógnvekjandi hvað ég var töff sko,“ segir Hera

Hera fermdist 6. apríl fyrir 38 árum í Áskirkju og segir að minningin um ferminguna sé enn ljóslifandi.

„Þetta var ægilega stór dagur í lífi mínu og mikill undirbúningur. Það var töluverð vinna að koma sér í búninginn, krulla hárið og skreyta með blómi. Ég var algerlega í tíðarandanum, í æpandi skærgulum prjónakjól í takt við 80’s-tískuna. Fermingarfötin mín voru sérhönnuð af mér og mömmu og það var mikil vinna lögð í þau, kjóllinn var með risaherðapúðum sem sjálfur Jean Paul Gaultier hefði verið stoltur af. Yfir þetta var ég svo í sérsaumuðu grænu satínherravesti með spæl í bakið. Við mamma fórum í allar saumabúðirnar til að finna réttu efnin, en hún vildi náttúrulega bara að ég fermdist mig í hvítum kjól. Við sem fermdust á þessum árum vorum eins og regnboginn, litagleðin var svo mikil.“

Eins og Duran Duran-veggspjald

Hera segir að tískulitirnir hafi verið skærappelsínugulur, skærgulur, skærbleikur og skærgrænn. „Flestar vinkonur mínar voru í yfirstærðar jakkafötum sem voru úr efni eins og gamlar gardínur, þetta var alger veisla,“ bætir hún við og hlær. „Við vorum svona eins og Duran Duran-veggspjald með hárið sítt að aftan og krullað að ofan en ég var með blóm því mamma vildi það endilega. Til að kóróna útlitið alveg var ég í grænum frakka yfir fermingarfötin sem var með öðrum eins umgangi af herðapúðum. Nú, og svo var ég í netsokkabuxum og háhæluðum Mary Poppins-fermingarskóm sem voru reimaðir upp á miðja kálfa. Mig langaði að vera svolítið öðruvísi og leit á endanum út eins og krakki sem var á leið í búningaparti eins og rokkstjarna til fara.“

Kjúklingaleggir með álpappír og Piknik-kartöflustráum

Veislan var haldin heima hjá Heru, sem bjó þá á Hagaseli. „Ég fékk eiturgulan stól og lampa úr Ikea í fermingargjöf frá mömmu og pabba, hvílíkir eðalgripir. Maður var svo mikið „inn“ að það var ógnvekjandi hvað ég var töff sko,“ segir Hera kímin. „Ég bauð upp á kjúklingaleggi með álpappír á endanum og Piknik-kartöflustrá, brauðtertur og heita rétti, svo var appelsínukakan hennar mömmu, peruterta og kanilterta. Í raun var boðið upp á allt sem fermingarbarni þótti gott á þessum tíma.“ Hún segir að hvert einasta rými í húsinu hafi verið nýtt, öllum rúmum raðað upp við vegg og stólar fengnir að láni frá húsunum í kring. Þegar hún er spurð um skreytingarnar og hvaða þema hafi verið í veislunni skellir hún upp úr og segir. „Það voru engar skreytingar, ég var nóg, ég var skreytingin.“

Fermingargjafirnar allt frá Biblíu til bakpoka

Hera segist muna vel eftir fermingargjöfunum, sem hafi verið af öllum gerðum. „Ég fékk svona hvíta styttu af andlitslausum manni með hatt, breiðar herðar og mjótt mitti, þá tíðkaðist ekki að vera með svona töff styttur af konum. Þessi stytta varð svo fyrirmynd fyrir Jean Paul Gaultier-ilmvatnsflöskuna frægu. Ég fékk líka fullt af skarti, skartgripaskrín, sængurver, svefnpoka, bakpoka og Biblíu. Auk gjafanna fékk ég svolítinn pening sem ég áætla að sé svona 70.000 krónur á núvirði en ég man ekki hvað ég gerði við fermingarpeninginn. Flestar af þessum gjöfum eru horfnar nema ein perlufesti sem ég fékk frá frænku minni, hún sagði við mig þegar hún gaf mér hana að þetta væri verðmæt festi sem ég ætti að passa upp á að hafa í fjölskyldunni. Ég gaf dóttur minni hana þegar hún fermdi sig, þannig að þessi fermingargjöf er enn í fjölskyldunni eins og frænka mín bað um.“

Hera segist ekki hafa sungið í veislunni, enda hafi hún ekki enn verið byrjuð að koma fram. „Á þessum tíma söng ég bara fyrir sjálfa mig inni í herbergi og hafði ekki kjark til að koma fram en ég æfði mig að taka vel á móti öllum gestunum og bjóða þá velkomna í veisluna eins og tíðkast í minni fjölskyldu. Ég var spenntust að hitta vinkonur mínar og frænkur sem voru álíka skrautlega klæddar.“

Er trúuð en myndi kjósa borgaralega fermingu í dag

Þegar hún er spurð hvort hún hafi velt fyrir sér gildum og tilganginum með fermingunni segist hún vissulega hafa fermst til kristni í kirkju eins og tíðkaðist á þessum tíma.

„Ég fermdi mig í kirkju og hlýddi bara séra Valgeiri en ef ég væri að fermast í dag myndi ég gera það borgaralega. Ég er alveg trúuð en ég trúi meira á máttinn og náttúruna í kringum okkur. Ég trúi á hið góða í manneskjunni og orkuna sem er í umhverfinu og öllum lifandi verum. Börnin mín fermdust bæði borgaralega og ég er mjög hlynnt þeirri leiðsögn sem þar fer fram, eins og áherslu á samkennd, hugrekki og víðsýni svo dæmi sé tekið.“

Hera er ekki lengi að svara þegar hún er að lokum spurð hvort hún geti gefið börnum í dag góð ráð eða skilaboð varðandi ferminguna.

„Ég myndi ráðleggja börnum að taka samtalið við sig í spegli og spyrja sig hvað þau vilji og hvaða væntingar þau hafi varðandi fólkið í kringum sig, þannig að fermingin endurspegli þeirra eigin vilja. Það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þau þurfi að standa á eigin fótum í framtíðinni og þess vegna er brýnt að þau læri að standa með sér.“

Höf.: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir |