Vestmannaeyjar Tyrkjaránsmenn voru sem frægt er mjög aðsópsmiklir í Vestmannaeyjum en létu einnig greipar sópa á Djúpavogi og í Grindavík.
Vestmannaeyjar Tyrkjaránsmenn voru sem frægt er mjög aðsópsmiklir í Vestmannaeyjum en létu einnig greipar sópa á Djúpavogi og í Grindavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Rannsókn á erfðamengi Íslendinga í því skyni að finna ummerki Tyrkjaránsins er með öllu tilgangslaus,“ segir Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Tilefni orða hans er tillaga til þingsályktunar sem snýr að Tyrkjaráninu árið 1627. Fyrsti flutningsmaður er Birgir Þórarinsson og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru með honum í liði.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Rannsókn á erfðamengi Íslendinga í því skyni að finna ummerki Tyrkjaránsins er með öllu tilgangslaus,“ segir Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Tilefni orða hans er tillaga til þingsályktunar sem snýr að Tyrkjaráninu árið 1627. Fyrsti flutningsmaður er Birgir Þórarinsson og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru með honum í liði.

Efni tillögunnar, sem liggur fyrir Alþingi, er að í tilefni þess að 2027 verða 400 ár liðin Tyrkjaráninu, örlagaríkum atburði í sögu þjóðarinnar, skipi forsætisráðherra nefnd til að undirbúa sitthvað til minningar um atburðinn. Eitt af því er að Íslensk erfðagreining rannsaki ummerki ránsins í erfðamengi Íslendinga á Íslandi og finni blandaða afkomendur Íslendinganna í Alsír.

Meinlausir minnisvarðar eru upp á punt

„Vissulega er verðugt að minnast Tyrkjaránsins þegar 400 ár verða liðin, til dæmis með því að útbúa fræðsluefni. Minnisvarðar eru bara upp á punt og svo sem meinlausir,“ segir Már. Um orðalagið í þingsályktunartillögunni, það er rannsókn á ummerkjum eftir ránið í erfðaefni meðal Íslendinga, telur Már að skilja megi orðalagið svo að ræningjarnir hafi getið fjölda barna á Íslandi meðan á ránsför þeirra hér stóð frá því seint í júní 1627 fram í miðjan júlí. Ekkert bendi til þess að eitt einasta barn hafi komið undir af völdum þessara manna. Skriflegar heimildir staðfesti þetta og ekki þurfi að veljast í vafa.

„Lýsingar á atvikum sýna skefjalaust ofbeldi, misþyrmingar og morð á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum og Grindavík. Nauðgana er að engu getið. Hafi slíkt engu að síður átt sér stað – ef menn endilega vilja – er líklegast að konurnar hafi verið teknar með,“ segir Már. Kirkjubækur eru ekki til frá tímum Tyrkjaránsins en eitt af helstu verkefnum presta og sýslumanna var að fylgjast með barneignum utan hjónabands og sekta fólk skv. Stóradómi frá 1564. Nákvæmlega var fylgst með fæðingu óskilgetinna bara og upplýsingar um slíkt skráðar af veraldlegu yfirvaldi og sendar til umboðsmanns konungs á Bessastöðum.

„Þessi gögn eru varðveitt úr öllum sýslum landsins fyrir árin 1628 og 1629. Engin ástæða er til að rengja reikningshaldið og konum var skylt að feðra börn en sættu refsingu að öðrum kosti. Hefði stúlka orðið vanfær af völdum ræningja, hvort sem hann nú var frá Norður-Afríku, Englandi eða Hollandi, hefði það verið skráð,“ segir Már.

Foreldrarnir voru hreinræktaðir Íslendingar

Að sögn Más fæddust alls níu börn utan hjónabands í Múlasýslum austur á landi frá miðjum júní 1627 fram að miðjum júní 1629 en 24 í Rangárvallasýslu. Foreldrarnir voru í öllum tilvikum hreinræktaðir Íslendingar. Þetta telur hann útiloka í raun að börn utan hjónabands með ræningjablóði hafi fæðst á Íslandi í kjölfar Tyrkjaránsins mikla. Hvað hafi svo gerst þegar konurnar í hópnum voru komnar utan sé önnur saga, með spurningum sem seint verði svarað með nokkurri vissu. Fáir Íslendingar sem rænt var snerust frá kristinni trú, segir Már, en vitanlega nokkrar konur. Fullvíst sé að næstu árin hafi fæðst hálfir Íslendingar, hvort sem hægt sé að rekja þá slóð með aðferðum erfðagreiningar eða ekki.